Á Hvalfirðinum synda æðarendur, strandfuglar eru þar víða í fjörunum og svartbakur, sílamávur, bjartmávur, hettumávur og fýll voru mjög algengir við hvalstöðina, þegar hún var og hét. Í lágsveitum Borgarfjarðar verpa algengustu fuglategundirnar vítt og breitt. Jaðrakan er orðin algeng og einnig margar tegundir sjófugla, s.s. topp- og dílaskarfur. Strandlengjan milli mynnis Borgarfjarðar og Snæfellsness er að mestu sendin. Þar eru miklar flæður í útfiri og kjörlendi rauðbrystings, tildru, sendlinga, sandlóu og lóuþræls. Á fartímunum iðar þetta svæði af lífi. Tjaldurinn er einn einkennisfugla á slíkum svæðum. Óðinshani á sér bólstað á eyjunum fyrir ströndinni (Hjörsey). Margæs sést í stórum hópum á fartímunum. Blesgæs er algeng vor og haust og vart verður helsingja. Brandugla heldur sig á kjörsvæðum en er ekki algeng.
Á sunnanverðu Snæfellsnesi, austan Búða, eru mörg smávötn, þar sem sjá má himbrima, lóm, margar andategundir, flórgoða, varpstöðvar svartbaks, kríu, óðinshana o.fl. tegunda. Á Arnarstapa og Hellnum úir og grúir af ritu og ekki sakar sérstætt, náttúrulegt umhverfi þessara staða. Vestast á nesinu eru tvö fuglabjörg með ritu, fýl, langvíu og stuttnefju. Við Hellissand og Rif er eitthvert stærsta kríuvarp landsins og á Grundarfjarðarsvæðinu verpir bartmávur í hamrabeltum og á Melrakkaey verpa þeir á flatlendi. Breiðafjarðareyjar eru griðastaður ótrúlegs fjölda fugla, einkum topp- og dílaskarfs og óðinshani verpur á nokkrum þeirra. Hægt er að komast út í eyjar frá kauptúnunum á norðanverðu nesinu. Talsvert er um haförn á Breiðafjarðarsvæðinu. Talsvert hvítmávsvarp er í Klofningi, norðan Hvammsfjarðar.
Vissir þú að lundinn sest up á sama tíma 15 mai, þegar krían kemur til landsins og að krían fer á sama tíma 15 Ágúst, þegar lundinn yfirgefur varpstöðvar sínar á Íslandi !!