Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Fróðá

Fróðá er eyðibýli í samnefndum hreppi og fyrrum kirkjustaður. Þar voru katólskar kirkjur helgaðar  heilagri guðsmóður. Kirkjan var flutt til Ólafsvíkur árið 1892. Vegamótin suður yfir Fróðárheiði, vestur til Ólafsvíkur og austur að Búlandshöfða eru við Fróðá.

Innar í sveitinni eru rústir eyðibýlis, sem kenndar eru við hina fornu Fróðá, þar sem Ormur hinn mjóvi settist að eftir að hafa numið Víkina gömlu milli Ennis og Höfða samkvæmt Landnámu.

Eyrbyggja segir frá hinum svokölluðu Fróðárundrum, sem eru vafalaust einhver hin mestu í Íslendingasögunum. Þau hófust með sjávarháska og dauða nokkurra heimamanna, sem gengu sjódauðir um hús. Aðrir látnir menn birtust upp úr gröfum sínum, selshaus birtist upp úr eldstæði og einkennileg rófa teygðist út úr fiskhlaða. Úti við rigndi blóði eitt sumarið. Settur var svokallaður dyradómur til að losna við þessa 16 drauga og ströngustu reglum þingdóma fylgt. Það dugði til og síðan var vígðu vatni stökkt um öll hús og menn báru helga dóma um staðinn með fyrirbænum. Eftir þetta létu draugar ekki á sér kræla að Fróðá.

Forsaga Fróðárundranna er tengd Þórgunnu hinni suðureysku, sem var digur, há og holdug mjög, svartbrýn og mjóeyg, jörp á hár og hærð mjög. Hún kom með kaupskipi árið 1000 og fékk inni að Fróðá með allt sitt dót, sem húsfreyjan Þuríður girntist. Þórgunna veiktist og dó en áður ráðstafaði hún eignum sínum og bað Þórodd bónda að flytja sig til Skálholts til greftrunar. Hann átti einnig að sjá svo um, að skrautlegur rekkjubúnaður hennar (ársalur) yrði brenndur, ella mundi illa fara. Þuríði tókst að koma í veg fyrir að allt væri brennt og þar með hófst ókyrrðin og draugagangurinn, sem lagði bæinn í rústir.

Þegar lík Þórgunnu var flutt til Skálholts, báðust líkmennirnir gistingar að Neðra-Nesi í Stafholtstungum. Þar vildi bóndinn engan greiða veita þeim og þeir lögðu ekki í Hvítá undir nóttina. Fremur kusu þeir að gista þar matarlausir og heimamenn gengu til rekkju í dagsbirtu. Skömmu síðar heyrðist mikill fyrirgangur í búrinu og þar komu heimamenn að stórri og mikilli og nakinni konu, sem var þar að eldamennsku. Þegar henni var lokið, bar hún mat í stofu og fór ekki fyrr en bóndi hafði boðið líkmönnunum greiða.

Myndasafn

Í grennd

Golfklúbburinn Jökull
Fróðárvöllur 355 Ólafsvík Sími/Tel.: 436- 9 holur, par 34. Golfklúbburinn Jökull var stofnaður 21. júlí 1973. Land undir golfvöllinn fékkst fyrs…
Ólafsvík
Byggð myndaðist snemma í Ólafsvík, enda góð fiskimið úti fyrir og góð lending. Hafnaraðstaða var bætt mjög um miðja 20. öldina og óx byggðin hratt í k…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )