Fljótsdalsstöð
Það liðu fjögur ár frá því framkvæmdir hófust árið 2003 og þar til aflstöðin var komin í fullan rekstur árið 2007. Samfara byggingu stöðvarinnar var byggð álverksmiðja á Reyðarfirði og er orkan úr stöðinni seld þangað að stærstum hluta.
Fallhæð vatnsins á hinni löngu leið frá lónunum á hálendinu að inntaki stöðvarinnar er um 200 m. Tveir þriðju hlutar heildarfallhæðarinnar eru í um 400 m háum nánast lóðréttum fallgöngum við Fljótsdalsstöð. Samanlögð fallhæð vatnsins er því yfir 600 m. Í stöðvarhúsinu knýr vatnið sex öfluga hverfla og rennur svo um frárennslisgöng og skurð út í Jökulsá í Fljótsdal austur undan Valþjófsstað í 26 m hæð yfir sjávarmáli. Stöðvarhúsið er staðsett neðanjarðar, inni í Valþjófsstaðafjalli og er aðkoma að því um sérstök 800 m löng aðkomugöng.
Ferðalög á miðhálendinu voru tíð á söguöld en síðan fór að draga úr þeim, þegar hjátrú magnaðist, og lengi lágu ferðalög niðri, eða allt fram á 18.öld. Nú á dögum er ferðast um hálendið allt árið. Vegakerfið er víða orðið fært öllum tegundum farartækja á sumrin, einkum fyrir tilstuðlan Landsvirkjunar.