Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Kaldbakur

Kaldbakur er hátt og tignarlegt fjall við austanverðan Eyjafjörð, eitt hinna mörgu tilkomumiklu fjalla á  skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa. Sum þeirra eru um og yfir 1000 m há, brött og hömrum girt. Á milli þeirra eru iðjagrænir og grózkumiklir dalir, sem voru byggðir á fyrri öldum, en eru allir komnir í eyði. Úti fyrir mynnum dalanna eru víkur fyrir opnu hafi, Keflavík vestast og síðan Þorgeirsfjörður og Hvalvatnsfjörður. Með undirlendinu, sem fylgir þeim, kallast þeir í einu lagi Fjörður.

Um 27 km langur jeppavegur liggur frá Höfðahverfi út að sjó í Hvalvatnsfirði. Fyrst um Leirdalsheiði, yfir Hávörður og þaðan út dalinn, grösugan og talsvert breiðan. Gilsá kemur úr Trölladal og Austurá úr Lambárstykkjum og sameinast í Fjarðará sem rennur um dalinn út í Hvalvatn úti undir sjávarkambinum. Ósinn er yfirleitt ekki væður en góð göngubrú er á ánni á móts við Tindriðastaði.

Þorgeirshöfði er vestan Hvalvatnsfjarðar og skilur hann frá Þorgeirsfirði. Fjallið Lútur er sunnan hans og lágt og breitt skarð á milli, þar sem leiðin á milli fjarðanna lá. Landnámsjörðin Þönglabakki er vestan höfðans við Þorgeirsfjörð, þar sem nú er skipbrotsmannaskýli. Síðasti presturinn þar flutti brott árið 1904 og kirkjugarðurinn og bæjarrústirnar segja meira en orð fá lýst.

Árið 1703 var búið á fimm bæjum og sóknarbörn voru 38. Á síðustu árum 19. aldar bjuggu u.þ.b 100 manns á 10 bæjum Í Fjörðum og í Keflavík. Á fyrri hluta 20. aldar fækkaði fólkinu jafnt og þétt, þar til enginn var eftir árið 1944. Hafnleysan og erfiðar samgöngur áttu drýgstan þátt í þessari þróun. Botnsá, sem rennur í Þorgeirsfjörð er allvatnsmikil en yfir hana liggur göngubrú fyrir þá, sem leggja land undir fót á þessum slóðum. Háaþóra, Lágaþóra og Hraunfjall eru vestan Þorgeirsfjarðar.

Leiðin til Keflavíkur liggur fyrst um Botnsfjall og Blæjukamb Vestan kambsins er Blæjudalur og þaðan brött brekka upp á Hnjáfjall, Gatan fer þar hæst upp í um 400 metra. Á vesturbrún Hnjáfjalls er Messuklettur og þaðan sést vel yfir Keflavík og Keflavíkurdal sem er breiður og grösugur. Leiðin hlykkjast niður að gömlu bæjarrústunum. Fyrrum var jafnan einn bær í byggð í Keflavík. Síðast var búið þar 1906. Mjög er brimasamt í hafátt og þá ólendandi. Slysavarnarfélagskonur á Akureyri reistu björgunarskýli á sjávarbakkanum á gamla bæjarstæðinu 1951.

Gjögurtá er vestan Keflavíkur og á honum stendur vitinn, sem sjófarendur á leið inn Eyjafjörð þekkja glöggt. Gamla gönguleiðin frá Keflavík til Látra liggur um Uxaskarð, sem getur verið erfitt yfirferðar í þoku. Látraströndin er líka í eyði og á sína sögu.

Bjarnarfjall (838m) er nyrzta fjallið austan Hvalvatnsfjarðar. Ofan hengifluga í sjó fram eru snarbrattar skriður, sem voru stundum farnar yfir í Flateyjardal. Sunnan fjallsins er Kaðaldalur með gömlu gönguleiðinni Jökulbrekkum til Flateyjardals.
Mynd: Björn Ingólfsson

 

Myndasafn

Í grennd

Grenivík
Grenivík er kauptún í Grýtubakkahreppi austan Eyjafjarðar og norðan Dalsmynnis. Samkvæmt Landnámu nam maður að nafni Þormóður land á þessum slóðum. Ka…
Í Fjörðum
Kaldbakur er hátt og tignarlegt fjall við austanverðan Eyjafjörð, eitt hinna mörgu tilkomumiklu fjalla á  milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa. Sum þe…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )