Thorvald Krabbe landsverkfræðingur athugaði árið 1906 á hvern hátt unnt væri að virkja Fjarðará og fá raflýsingu fyrir Seyðisfjörð. Umræður um rafmagnsmál og virkjun höfðu þá verið í bænum undanfarin ár. Hinn 29. febrúar 1908 kom Krabbe á fund bæjarstjórnar með tvö tilboð frá Kaupmannahöfn um að virkja Fjarðará og koma upp rafmagnsstöð við ána.
Hinn 15. október 1912 samþykkti bæjarstjórn að taka tilboði frá Siemens-Schuckert í Kaupmannahöfn um smíði aflstöðvar. Siemens-Schuckert í Kaupmannahöfn leitaði til móðurfyrirtækis síns í Berlín um aðstoð vegna virkjunar í Fjarðará. Þar vann þá ungur íslenskur rafmagnsverkfræðingur, Guðmundur Hlíðdal
Eftir að ljóst var að Siemens-Schuckert hafði fengið það verkefni að reisa virkjun á Íslandi var talið sjálfsagt að senda íslenska rafmagnsverkfræðinginn þangað.
Framkvæmdir hófust vorið 1913 undir yfirumsjón Guðmundar Hlíðdals. Stífla var reist í Fjarðará skammt ofan við Fjarðarsel. Frá henni lá þrýstivatnspípa úr járni um 500 metra niður í Fjarðarselshvamm, þar sem rafstöðvarhús var reist. Pípan var 46 sm í þvermál og fallhæðin 51,5 metrar. Vélasamstæðan var 75 ha vatnshverfill og riðstraumsrafall. Frá virkjuninni var rafstraumur leiddur með 3.000 volta spennu og síðan spenntur niður í bæjarkerfinu í 208 volt en til ljósa í 120 volt. Voru reistar fimm spennistöðvar til þess að lækka spennu innan bæjarkerfisins. Var þetta fyrsta háspennulína og fyrsta riðstraumskerfi hérlendis.
Rafljós voru kveikt í bænum 13. október 1913 er rafmagni var hleypt á veituna frá Fjarðarselsvirkjun. 18. október 1913 héldu Seyðfirðingar mikla rafljósahátíð þar sem rafbirtunni var fagnað og framkvæmdaraðilum voru þökkuð góð störf. Árið 1924 var komið fyrir nýrri, 75 ha. Rafall frá 1913 var endurnýjaður 1933 og í framhaldi af því var háspennulína sunnan fjarðar lengd út á Fjarðarströnd.
Á veturna varð vatnsskortur í Fjarðará en vatn þvarr í miklum frostum og þurrkum. Afl var því oft lítið. Varð þetta því bagalegra sem álag jókst meira. Árið 1946 var miðlun aukin með því að stífla ós Heiðarvatns. Hafði bæjarstjórn lengi haft augastað á Heiðarvatni á Fjarðarheiði til vatnsmiðlunar er gera mundi mögulegt að stækka rafveituna sem var orðið mjög aðkallandi. Stífla úr steinsteypu var reist en hún hækkaði vatnsyfirborð um 3 metra og gaf um 1.700.000 m3 til vatnsmiðlunarÁrið 1954 var 30 kílóvolta háspennulína lögð frá Seyðisfirði til Egilsstaða um 20 km veg til þess að tengja Egilsstaði við Fjarðarselsvirkjun.
Með tilkomu Grímsárvirkjunar 1958 varð línan og Fjarðarselsvirkjun hluti af samveitu Austurlands. Virkjunin framleiðir nú rafmagn dag og nótt fyrir samveituna og er nýting hennar með því besta sem þekkist hér á landi. Rafmagnsveitur ríkisins keyptu Rafveitu Seyðisfjarðar 9. janúar 1957 og tóku við rekstrinum árið 1958.
Árið 2006 voru uppi áform um stækkun Fjarðarselsvirkjunar og gerð uppistöðulóna á Fjarðarheiði.
Fjarðarselsvirkjun
Uppsett afl 160 kW
Orkuvinnsla 0 MW
Heimild: RARIK