Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Eyvindarfjörður

Eyvindarfjörður

Eyvindarfjörður er einn þriggja fjarða, sem gengur inn úr Ófeigsfjarðarflóa. Austar eru Ófeigsfjörður og  Ingólfsfjörður. Eyvindarfjörður er lítill fjörður milli Hrúteyjarnessmúla og Enginess. Samnefnd á fellur í fjörðinn og yfir hana er göngubrú, því hún getur orðið allvatnsmikil. Talið er að bær hafi staðið undir Drangavíkurfjalli og þar er góður náttstaður á leiðinni milli Ófeigsfjarðar og Drangavíkur.

Á 18. öld, þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru á ferð um Strandir, var búið á Engjanesi. Þeir urðu ekki uppveðraðir af búskaparháttum þar, því að bóndinn var þjófur af Suðurlandi. Áriið 1787 fórst verzlunarskiptið Fortuna með manni og mús undan Enginesi. Hundur, köttur og þrjár rollur, sem voru um borð, lifðu strandið af.

Talsverð eftirmál urðu vegna strandsins. Halldór Jakobsson, sýslumaður á Felli, átti að hafa yfirumsjón með björgun þess, sem bjargað varð. Björgunarmenn fundu fljótlega talsvert af brennivíni og starfið endaði í allsherjar fylleríi. Sýsli gekk berserksgang í ölæði og við lá að hann yrði settur í bönd.

 Hið litla, sem bjargaðist lá á strandstað í rúmt ár og grotnaði niður. Verðmætamat fólksins á þessum tíma var annað en nú á dögum og áherzla var lögð á að ná í kaðla, járnarusli, hurðum, stólum, borðbúnaði og þ.u.l. Það þótti t.d. erfiðins virði að reyna fremur að bjarga hænsnahúsi úr skipinu en farmi þess. Sýslumaður hirti ekki um að gera skrá yfir góssið, sem var bjargað.

Halldór stofnaði til óauglýsts uppboðs á hluta strandgóssins áður en hann fór af staðnum og fékk þar sjálfur marga gripi á góðu verði auk þess að hirða ýmislegt, sem hann greiddi ekki. Þá vantaði einnig fjármuni, sem konungsverzlunin átti um borð og peningar skipverja komu ekki heldur fram. Halldóri var síðar vikið úr embætti vegna allra afglapanna.

 

Myndasafn

Í grennd

Norðurfjörður
Norðurfjörður er vík norðan Trékyllisvíkur með samnefndu þorpi, þar sem standa mörg hús auð og   yfirgefin. Þarna er rekin lítil verzlun fyrir hina fá…
Sögustaðir Ströndum
Sögustaðir eru fjölmargir á Ströndum, en hér má sjá nokkra þeirra. Árneskirkja Bjarnarfjörður nyrðri Bjarnarfjörður syðri Djúpa…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )