Eldey er 77 m hár, þverhníptur, 0,03 km² klettur u.þ.b. 15 km sunnan Reykjaness. Hún er úr móbergi og er innsta skerið á grynningum, sem ná u.þ.b. 84 km frá landi. Þessi skerjaklasi kallast Fuglasker eða Eldeyjar. Þarna stóð eitt sinn fyrrum eitthvert síðasta vígi geirfuglsins, Geirfuglasker, sem hvarf að mestu í hafið í eldsumbrotum 1830. Á Eldey er ein mesta súlubyggð í heimi, a.m.k. 70 þúsund fuglar.
Það var ekki vitað til þess, að eyjan hefði verið klifin, þegar þrír vaskir Vestmannaeyingar klifu hana 30. maí 1894. Þeirra á meðal var Hjalti Jónsson, sem hafði áður klifið Háadrang hjá Dyrhólaey. Þremenningarnir töldu sig hafa séð bolta á nokkrum stöðum í berginu í Eldey, sem gaf til kynna, þetta væri ekki í fyrsta skipti. Það var farið árlega í Eldey til fugla eftir þetta þar til hún var friðuð árið 1940.
Talið er, að a.m.k. 10 eldgos hafi orðið á þessu svæði á sögulegum tíma og gosið 1783 er einna þekktast. Þá myndaðist eyja, sem var kölluð Nýey. Hún var strax eignuð Danakonungi með úrskurði hans hátignar. Þegar hennar var svo vitjað næsta ár, var hún horfin. Einhver eldsumbrot voru á þessum slóðum á árunum 1970-71.
Í munni brezkra sjómanna hét Eldey „Count Rock” og „Flour Sack”. Eldeyjarboði er blindsker u.þ.b. 57 km suðvestan Reykjaness. Stundum eru brotin þar tugir metra á hæð og fiskimið eru góð þar í kring. Líklega er þessi boði leifarnar af Nýey. Brezkir nefndu boðann „Blinders”.
Á Eldeyjarbanka voru fyrrum góð fiskimið, m.a. síld og humar. Aðalsiglingaleið skipa liggur milli meginlandsins og Eldeyjar. Geirfuglasker eru blindsker u.þ.b. 5 sjómílum utan Fuglaskerja.
Eldey er önnur eyja við Vestmannaeyja
Photo : Dagur Brynjólfsson