Dyrhólaey er 120 m hár höfði, þverhníptur að vestan og sunnan. Stórt gat er í gegnum syðsta hluta höfðans. Stórir bátar geta siglt í gegnum það í ládeyðu og árið 1995 var flogið í gegnum það í lítilli flugvél (Arngrímur Jóhannsson og Árni Johnsen). Útsýni er gott ofan af Háey. Höfðinn hefur orðið til á hlýskeiði síðla á ísöld á svipaðan hátt og Surtsey. Fyrsti vitinn var reistur þar árið 1910 en hann var endurbyggður árið 1927.
Fyrrum var útræði stundað frá Dyrhólaey og hafnargerð hefur borið á góma. Á austanverðum höfðanum, lægri hlutanum, sjást enn þá merki um útgerð, sem byggðist á því að hífa litla báta upp á hann og slaka þeim út. Dyrhólaey er friðuð um varptímann. Þar verpa kríur, æðarfugl, lundi langvía, álka, rita (skegla), fýll, lóa, spói, sandlóa o.fl. tegundir. Sunnan höfðans eru Dyrhóladrangar.
Eldeyjar-Hjalti kleif Háadrang og setti í hann nagla árið 1893. Í síðari heimsstyrjöldinni hernámu Bretar vitann og komu þar fyrir radar. Árið 1999 voru síðustu merki um veru Bretanna í vitanum, radarleiðslur o.fl., fjarlægð, þegar húsnæðið var gert upp til að hýsa gesti og starfsmenn Vitamálastofnunar. Enskir sjómenn nefndu Dyrhólaey gjarnan Portland.
Bærinn Dyrhólar hét áður Dyrhólmar. Þar var kirkjustaður og kirkja helguð Mikael erkiengli í katólskum sið. Þarna höfðu Kári Sölmundarson og Helga Njálsdóttir bú samkvæmt Njálssögu. Í Dyrhólahverfi eru frumherjar í lífrænni ræktun grænmetis.