Dyngjuháls er allbreiður og langur hryggur, sem teygist í átt til Trölladyngju undan vestanverðum Dyngjujökli, austan Gæsavatna. Yfir hann liggur u.þ.b. 20 km löng jeppaslóð, sem hverfur stundum undir stóra snjóskafla á austanverðum hálsinum. Skaflarnir og Flæðurnar austan Urðarháls eru einu torfærurnar, sem geta valdið fólki erfiðleikum á Gæsavatnaleið. Hæsti hluti jeppaslóðarinnar yfir hálsinn er í 1222 m hæð yfir sjó.
Eftir endilöngum hálsinum liggja fimm gígaraðir, þannig að þetta litla svæði mun vera hið eldbrunnasta á landinu. Eldsprungurnar á Dyngjuhálsi eru 5-10 km langar og framhald þeirra er að finna norðan Trölladyngju. Frá þessum sprungum hafa runnið hraun suðvestur í Vonarskarð og norður með Skjálfandafljóti austanverðu niður í Marteinsflæðu og Hraunárdal.