Drangaskörð eru eitt af mest áberandi náttúrufyrirbærum landsins norðan Drangavíkur. Þau ganga fram úr Skarðafjalli milli Drangavíkur og Dranga og ganga um þau er ógleymanleg.
Drangavík og Drangar draga nöfn sín af Drangaskörðum. Þau sjást mjög víða að og laða fólk til sín. Flestir þekkja þau með nafni en fæstir kunna nöfn skarðanna milli þeirra og fjöldi dranganna veldur deilum.
Flest bendir til, að þeir, sem bjuggu næst þeim hafi talið þá fimm, þótt tveir þeirra séu klofnir.
Fjölfarnasta leiðin um Drangaskörð var Signýjargata um Signýjargötuskarð, sem er yzt og Litlitindur utar. Á veturna var stundum farið um Kálfskarð á milli klofnu dranganna tveggja, þegar ís og harðfenni var yfir öllu. Sjaldnast var farið um önnur skörð.