Dimmuborgir eru eitthvert vinsælasta og merkilegasta náttúruundrið við Mývatn. Mývetningar hafa gert það að bústað Grýlu, leppalúða og jólasveinanna.
Þangað liggur vegur frá Geiteyjarströnd. Talið er, að þunnfljótandi hraun hafi mætt fyrirstöðu á leið sinni fyrir 2300 árum, nógu lengi til að yfirborð hrauntjarnarinnar storknaði og gufur, sem leituðu upp um hraunið á mörgum stöðum, hafi víða valdið storknun alla leið í gegn.
Síðan er álitið, að restin af hrauninu hafi fengið framrás, hraunklettarnir staðið eftir og skorpan hrunið. Stígar liggja um þetta kringlótta svæði, sem er u.þ.b. 1 km í þvermál, og fólki er ætlað að halda sig á þeim og hlífa landslaginu eins og framast er unnt, því ágangur er mikill og eykst með ári hverju. Þeir, sem hafa eðlilegt ímyndunarafl, sjá margs konar höggmyndir náttúrunnar allt í kringum sig, þegar niður í Borgirnar er komið. Sandfok sunnan af öræfum hefur verið stærsta ógnun þessa svæðis í áratugi ef ekki aldir og hluti þess hefur þegar fyllzt.
Mikið er unnið að heftingu sandfoksins og árangur er farinn að sjást. Fálkar, smyrlar og aðrar fuglategundir verpa víða um Dimmuborgir og fólk er beðið að ganga með virðingu um svæðið og trufla fuglana sem minnst. Hraunið, sem Dimmuborgir eru í, rann fyrir u.þ.b. 2300 árum frá Þrengslaborgum. Mývatnshraun hið eldra, u.þ.b. 3800 ára, rann frá Ketildyngju. Gígaraðirnar, Þrengsla- og Lúdentsborgir liggja meðfram Bláfellsfjallgarði og Bláfelli suðaustan Dimmuborga.
Þessi svæði eru upplögð fyrir léttar gönguferðir, bæði stuttar og langar.