Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Dettifoss frá sjónarhorni ferðamanna

ÍSLANDSFERÐ 1973
JOACHIM DORENBECK

Glaugst er gest auga!!

Dettifoss
Að lokinni göngunni fyrsta daginn vorum við bæði ánægðir með að vera lagðir af stað og hreyknir af árangri dagsins. Á þessum dýrðardegi lágu leyndardómar Íslands fyrir fótum okkar og við vorum hingað komnir til að afhjúpa þá. Við hefðum jafnvel getað séð heimskautsbauginn í norðri, ef breiddarbaugar væru sýnilegir. Bezta tilfinningin var þó tengd tilhugsuninni um það, að skrifborðin okkar voru í 2000 km fjarlægð.

Gaumlisti fyrir göngufólk
Innskot Birgir Sumarliðason 2021

Það var tilvalið gönguveður, norðaustan gola og sólskin og skyggni ótakmarkað. Leiðin lá beint í austur og við gengum rösklega. Við einn bæjanna, sem á leið okkar voru, sáum við eina fullvaxna tréð á leiðinni. Það hallaði sér að húsinu, eins og það væri að leita sér skjóls. Vegurinn var næstum láréttur fyrstu tvo kílómetrana, eða jafnvel örlítið undan fæti. Litla kerran rann svo ljúflega áfram, að ég batt bakpokann minn líka á hana. Heildarfarmurinn var þá orðinn u.þ.b. 40 kg. Umferðin jókst með kvöldinu, þannig að við sáum bíl á fimm mínútna fresti um tíma. Eftir að hafa gengið í þrjá tíma komum við að vegamótum. Þar snérum við til suðurs og fylgdum sandborinni slóð, sem hlykkjaðist um stórþýft, kjarrivaxið land. Róðurinn þyngdist svolítið, svo að ég axlaði bakpokann aftur til að létta á kerrunni.

Um hálftíuleytið um kvöldið komum við að Undirvegg, sem við höfðum valið sem fyrsta næturstað. Þaðan lá ágætur vegur áfram til austurs og freistaði okkar. En við ákváðum, að nóg væri gert þann daginn, tjölduðum og Jean fór að bænum til að fylla 5 lítra brúsa af vatni. Sólin dansaði á sjóndeildarhringnum í norðri á meðan við elduðum og borðuðum síðbúinn kvöldverð. Birtan var næg um miðnættið til að skoða leið næsta dags á kortinu.

Sólin skein í heiði morguninn eftir. Við gengum einn og hálfan tíma í austur áður en við komum að slóð, sem lá beint í suður, örlítið á fótinn. Landslagið var svipað, kjarr og þýft mólendi. Það var fallegt að líta um öxl, niður á láglendið við flóann og snækrýnda Núpana í 25 km fjarlægð. Það var mikil bílaumferð þennan laugardag, bíll á tíu til fimmtán mínútna fresti. Kæfandi rykið rak okkur aftur og aftur út í móann og kjarrið, því að golan blés í sömu stefnu og slóðin lá. Þetta var þreytandi, hvort sem við burðuðumst með bakpokana um kargaþýfið eða losuðum okkur við þá aðeins til að hysja þá upp á herðarnar aftur. Ég ákvað að taka ekki af mér bakpokann en kerran safnaði stöðugt meira ryki á veginum, því að ég gat ekki burðast hana yfir torfærurnar.

Í bílunum voru fjölskyldur í helgarferð, allir veifuðu okkur kumpánlega og við á móti úr öruggri fjarlægð. Fáir bílar voru á norðurleið og langt á milli þeirra. Einn þeirra kom mjög hægt á móti okkur. Bílstjóri hans virtist gera sér betur grein fyrir óþægindunum, sem rykið olli okkur, því að það var sunnangola. Strax og hann sá að við ætluðum að taka til fótanna, blikkaði hann framljósunum og stöðvaði bílinn til að láta rykið setjast. „Takk fyrir”, sagði ég við unga, brosandi manninn við stýrið og var stoltur af íslenzkunni minni. Þetta voru reyndar einu orðin, sem ég kunni. Þegar við stigum út úr flugvélinni á Keflavíkurflugvelli, spurði ég eina flugfreyjuna, hvernig hún segði „Thank you” á íslenzku og notaði það á stallsystur hennar. Það er alltaf gott að kunna að þakka fyrir sig á máli innfæddra og okkur gafst oft tækifæri til að gera það.

Þegar líða tók á daginn, komum við að uppþornuðum árfarvegi, sem var stráður hnullungssteinum. Þar varð kerran fyrir fyrstu þolrauninni. Það hallaði undan fæti og við gengum niður í grænasta dalverpi, sem ég hef séð, með vel grónum grundum og kristaltærum lækjum, sem liðuðust um. Þegar niður var komið, sveigði aðalslóðin til vinstri. Við héldum beint áfram og yfir timburbrú inn í aðaldalinn. Samkvæmt kortinu var það Vesturdalur, en okkur fannst við vera komnir til paradísar í sólskin og hita. Vinstra megin við okkur gnæfði þverhníptur klettaveggur eins og brjóstvarnir risastórs kastala. Eftir að við höfðum slökkt mesta þorstann og fyllt vatnsflöskurnar í læknum, hélt Jean áfram á meðan ég hagræddi farangrinum svolítið á kerrunni. Þegar ég hélt af stað aftur og ýtti kerrunni á undan mér, sá ég mann ganga upp með læknum. Hann var ber að ofan og brúnn eins og Suðurlandabúi.

„Vous allez loin” („Eruð þér að fara langt”), spurði hann og leit á farangurinn á kerrunni.

„Assez loin” („Nógu langt”), svaraði ég og hélt mínu striki. Hvers vegna ávarpaði hann mig á frönsku? Líklega fannst honum helzt, að kerran hlyti að vera frönsk uppfinning.

Í hinum enda dalsins var rauður Volkswagen og blátt tjald á grænu grasinu milli lítillar tjarnar og lítils foss. Adam og Eva höfðu búið þarna um sig í paradís í tjaldferð fjarri amstrinu í Reykjavík, ef marka mátti bílnúmerið. Adam gaf sig á tal við okkur og Eva kom til að bjóða okkur kaffibolla. Áður en við gátum áttað okkur, sátum við að snæðingi við gnægtarborð þeirra og fengum svo íslenzka sérréttinn „skyr” á eftir.

Við eyddum kvöldinu með Gunnari Einarssyni og Jóhönnu Guðmundsdóttur og fréttum að dóttir þeirra færi innan skamms til Brussel til að starfa við íslenzka sendiráðið. Að lokum fór Gunnar með okkur í stutta gönguferð til að sýna okkur útsýnið yfir Jökulsá á Fjöllum, sem geistist framhjá neðan þverhnípis Skógarbjarga. Það má geta þess, að við hittum Helgu Gunnarsdóttir í Brussel u.þ.b. tveimur mánuðum síðar og Jean kom henni á óvart með því að bjóða henni að sjá foreldra sína á hvíta tjaldinu.

Áður en við yfirgáfum paradís morguninn eftir, þökkuðum Jóhönnu fyrir það, sem Íslendingar kalla „kaffibolla”. Þegar Gunnar kvaddi okkur með handabandi, brá okkur svolítið við alvöruna í orðum hans, er hann bað okkur að gæta okkar vel, sérstaklega, þegar við kæmum að jökulsánum uppi á öræfum. Við hugsuðum með okkur, að þær gætu nú ekki verið svo hættulegar. Gunnar vissi auðvitað ekki, hve nákvæmlega við höfðum skipulagt ferðalagið. Við höfðum lesið mjög nákvæmlega skýrslur British Schools Exploring Society, handbók hersins um baráttuna við náttúruöflin og haft samband við Dr. I.Y. Ashwell, leiðtoga BSES hópsins á Íslandi árið 1970. Hann hafði sent okkur nákvæmar lýsingar á því, hvernig bezt væri að haga sér við jökulsárnar. Við höfðum líka líka æft okkur í því að vaða ár í Ambléve i belgísku Ardennafjöllunum, þegar leysingar voru í Hautes Fagnes og vatnshitinn var ekki nema +1 gráða. Við studdumst við sterkar bambusstangir, bundum okkur saman með 30 m löngum kaðli, sem var brugðið um mittisólar með sérstökum festingum. Okkur var ljóst, að tveggja manna lið var ekki nógu fjölmennt til að takast á við erfiðar ár. En við vissum líka að vatnsmagn væri minnst eldsnemma að morgni og höfðum ákveðið að draga frekar í land en að sína einhverja fífldirfsku.

Jöklarnir voru langt í burtu enn þá. Þetta var sunnudagur og í dag var Dettifoss á dag-skránni. Þess vegna var þetta hátíðisdagur fyrir mig og ég hafði ákveðið að halda upp á hann, þegar við kæmum að fossinum og fá mér bjór í veitingahúsinu þar.

Það varð enginn bíll á vegi okkar allan daginn, þótt vegurinn væri þokkalegur. Hann hlykkjaðist suðureftir, mest á fótinn, um gróið land, vaxið fjalldrapa og fléttum, sem hurfu smám saman eftir því, sem meira bar á grjóti. Við rætur brattrar brekku, sem við urðum að klífa, ákvað ég að skrúfa hlífðarplötu úr krossviði framan á kerruöxulinn og tíndi til verkfæri. Hlífin var lófastór, en skipti miklu máli, þegar ég ýtti kerrunni á undan mér. Það var ekki nærri því eins erfitt að ýta henni upp á við en að draga hana á eftir sér.

Jean var oftast langt á undan með þunga bakpokann sinn en ég var sjaldnast aleinn. Oftast var ég umkringdur fuglum. Stundum flögraði lóan lengi samsíða og settist við og við en flaug upp, þegar ég nálgaðist um of, en settist síðan aftur lengra framundan. Hún var greinilega að reyna að lífga upp tilveruna fyrir þennan framandi gest, þótt söngurinn væri svolítið sorgbitinn. Systkini hennar slógust líka í fylgd með Jean og stundum heyrðum við í spóa, sem er miklu styggari og hélt sig fjær, þannig að við sáum hann sjaldan.

Vegurinn sveigði krappt niður á við til vinstri yfir sterklega timburbrú. Undir hana rann hvítfyssandi lækur, sem vegurinn fylgdi þar til hann hvarf í móðuna miklu, Jökulsá, djúpt niðri í gljúfrinu.

Jean beið eftir mér þar sem gljúfurveggirnir umhverfis okkur voru orðnir lægri. Hann sat í aflíðandi malarhlíð hægra meginn við veginn. Litlu lengra framundan, milli vegarins og hlíðarinnar var autt bílastæði. Samkvæmt kortinu átti vegurinn að liggja meðfram ánni alla leið að Dettifossi en ég sá hans engin merki, einungis troðna slóð á milli bílastæðisins og kamars.

Vonsviknir héldum við áfram eftir ökuleiðinni, sem lá í átt frá gljúfrum Jökulsár á Fjöllum og vegurinn versnaði stöðugt. Eftir að við höfðum gengið yfir nokkrar hæðir var hann orðinn mjög grýttur, svo að það brakaði í hverri spýtu í kerrunni. Nú þýddi ekki annað en að spenna á sig mittisólina og draga hana yfir torfærurnar.

Jean var að hvíla sig, þegar ég náði honum næst, svo að ég gerði slíkt hið sama og settist á stein við hliðina á honum. Venjulega spjölluðum við saman þar sem við settumst svona niður, en núna þögðum við. Landið var orðið talsvert örðugt yfirferðar.

Ég vaknaði upp með andfælum. Ég hlýt að hafa sofnað í nokkrar mínútur eða bara í nokkrar sekúndur, en samt nógu lengi til að dreyma ruglingslega um heimaslóðir. Jean hafði líka blundað.

Eins og alltaf, þegar við tókum okkur hvíldir, hafði ég farið í regnjakkann til að verða ekki kalt. Himinninn var að verða alskýjaður og vindurinn orðinn napur. Við fundum vel fyrir því á meðan við mauluðum Vitareal-stangirnar okkar. Það var kominn tími til að halda áfram. Með andvarpi öxluðum við byrðar okkar og reyndum að ganga taktfast áfram. Kortið okkar af fyrsta hluta leiðarinnar var í mælikvarðanum 1:250.000. Við höfðum vonað að það væri vandræðalaust að fylgja skýrri leið, en um kvöldið stóðum við frammi fyrir mörgum slóðum, sem sáust ekki á kortinu, svo að við vissum hvorki í þennan heim né annan.

Loks kom Jean auga á ský lágt á himni í austurátt og við sveigðum til vinstri. Þar ægði saman sporum og slóðum í allar áttir. Við urðum enn þá ruglaðri og settumst niður til að líta aftur á kortið. Þar sem við sátum hefði getað verið kolanáma einhvers staðar á milli Essen og Dortmund, alls staðar haugar af svörtum sandi. Sólin var björt en lágt á himni. Hún hafði brotizt í gegnum skýin einmitt þegar axlarhátt völundarhús af grjóthnullungum varnaði okkur vegar og Jean fór meðfram því til að finna leið. Þegar hann kom aftur, hafði honum ekki tekizt að komast alla leið að fossinum. Hann hafði gengið fram á lægðarbrún og séð klettabelti hinum megin og áin virtist vera einhvers staðar handan þess. Við bröltum með kerruna fram hjá stærstu steinunum og lyftum henni yfir þá minni. Svæðið, sem við fórum um, var 10-15 m djúpt og 300 m breitt og virtist vera gamall árfarvegur. Þar sem farið var að kólna talsvert, ákváðum við að tjalda þarna til næturinnar.

Það tók nokkurn tíma að flytja farangurinn og tóma kerruna niður fyrir klettabeltið. Á meðan ég tjaldaði og fyllti vatnsbrúsana okkar í tærum polli í grenndinni klifraði Jean upp stórgrýtta skriðu fyrir neðan klettabeltið fjær og alla leið upp á brún til að leita að Dettifossi. Hann fann fossinn en þoka var að myndast yfir ánni, þannig að hann sá hann óljóst, þótt hann heyrði vel drunurnar í honum. Honum virtist staðurinn auðnarlegur og litlar líkur til að þar væri veitingahús.

Á þessu stigi var ég of þreyttur til að láta það á mig fá. Þokan var að læðast að okkur. Við borðuðum matinn okkar þegjandi og um leið og ég var kominn í svefnpokann lokaði ég tjaldopinu með rennilásnum og þar með útsýninu yfir óaðlaðandi landslagið úti. Þetta var þurrasti afmælisdagur ævi minnar.

Næsta morgun var þokan þykk eins og baunasúpa en brátt glaðnaði yfir, þegar sunnanandvarinn leysti hana upp. Eftir morgunverð fór Jean til að athuga, hvort Dettifoss væri í betra skapi í dag en kom að honum í þokuböndum. Það var ekki nokkurt vit í að taka myndir við þessi skilyrði.

Eftir að hafa komið hafurtaski okkar fyrir til brottfarar fannst mér ég ekki geta haldið áfram án þess að hafa reynt að koma auga á öflugasta foss Evrópu og staulaðist því upp brekkuna að fossinum. Þokan var að mestu horfin og ég átti ekki erfitt með að finna leið yfir sléttan stall til að sjá fossinn í öllu sínu veldi.

Hæð fossins er næstum sú sama og Niagarafossanna. Þarna streyma hverja sekúndu u.þ.b. 150 m3 af vatni frá Vatnajökli, sem er í u.þ.b. 150 km fjarlægð. Vatnið steypist 44 m niður í sjóðandi iðuna fyrir neðan. Grasið undir fótum mínum var blautt og sleipt vegna stöðugs úða frá fossinum. Til að taka nokkrar myndir varð ég að sæta lags vegna úðans og vindsveipanna. Ég var ekki lengur hissa á því, að þarna væri ekkert veitingahús. Það var ekki einu sinni skyndibitastaður til að spilla útsýninu. Þarna var heldur ekki sála á ferli. Ég var aleinn og hafði náttúruundrið fyrir sjálfan mig. Nú, hvað sem öllu leið, höfðum við ekki komið til Íslands til að setjast niður og drekka bjór. Við vorum þarna til að njóta óspillts lands og þetta var hluti af því.

Megi Dettifoss haldast óbreyttur – afskekktur, ögrandi og fjarri allri sölumennsku.

Myndasafn

Í grennd

Dettifoss
Dettifoss á Norðlandri eystra Dettifoss er öflugasti foss Evrópu. Hann er 44 m hár og um 100 m breiður. Einum kílómetra sunnan hans er Selfoss, 10 m …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )