Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Bustarfell

Bustarfell er bær undir samnefndu felli í Hofsárdal í Vopnafirði. Þjóðvegur # 85 liggur eftir klettabelti þess, sem er 6-7 km langt, endilöngu. Uppi á Bustarfelli er Þuríðarvatn. Jörðin er allstór, talsvert skógi vaxin og að hluta til friðuð.

Sama ættin hefur setið jörðina síðan 1532. Þá keypti Árni Brandsson, prestsonur frá Hofi Bustarfell. Kona hans var Úlfheiður Þorsteinsdóttir. Legsteinn þeirra hjóna er varðveittur í Þjóðminjasafninu í Reykjavík.

Einhver fegursti og bezt varðveitti torfbær landsins er að Bustarfelli. Elztu hlutar hans munu vera frá 1770, þótt hann hafi breytzt mikið síðan. Fremri stofan er frá 1851-52, miðbaðstofan og piltastofan eru frá 1877. Það var búið í honum til 1966.

Frægasti ábúandi Burstafells var vafalítið Björn Pétursson (1661-1744), sýslumaður, sem var svo mikill fyrir sér í skapi, vexti og kröftum, að öllum stóð ógn af honum. Hann fór sínu fram, hvað sem tautaði og raulaði en var raungóður, þegar í nauðirnar rak hjá fólki. Hann lét taka hollenzka duggu, búta hana í sundur og áhöfnina húsa Bustarfellsbæ með viðunum.

Árið 1943 seldi Methúsalem Methúsalemsson ríkinu gömlu bæjarhúsin með því skilyrði, að þeim yrði haldið við. Hann varðveitti og safnaði ýmsum nytjamunum í eigu fjölskyldunnar til safnins með mikilli fyrirhöfn. Suma þeirra keypti hann á uppboðum og aðra fékk hann gefins. Safnið var opnað opinberlega 1982 en hafði verið einkasafn fram að því. Þjóðminjasafn Íslands hefur umsjá með því.

Myndasafn

Í grennd

Austurland, ferðast og fræðast
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Jökulsárlóni að Bakkafirði. Þéttbýlis- og merkisstaða og afþreyingar innan svæðisins er sérstaklega getið neðan v…
Torfbæir og torfkirkjur
Nokkrir torfbæir á landinu Íslenski torfbærinn á sér sögu sem einstæð er í heiminum og er ekki rannsökuð til fulls. Torfbærinn er í raun þyrping húsa…
Vopnafjörður
Vopnafjörður er kauptún á austanverðum Kobeinstanga í innanverðum Vopnafirði, sem kauptúnið dregur nafn sitt af. Þar hefur verið verzlunarstaður frá f…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )