Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Búlandstindur

Búlandstindur við Djúpavog

Búlandstindur er eitthvert formfegursta fjall landsins og kennimerki Djúpavogshrepps á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar á Búlandsnesi. Það er stafli af blágrýtislögum, sem mynda 1069 m háan pýramída. Goðaborg er fjallsrani austur af Búlandstindi í u.þ.b. 700 m hæð. Sagan segir, að þangað hafi menn burðast með goðalíkneski sín eftir kristnitökuna og steypt þeim fram af. Fjallið er talið meðal fárra orkustöðva landsins. Búlandsdalur er sunnan undir Búlandstindi. Inni af botni hans er há tindaröð, þar sem Hrossatindur er hæstur, 1156 m.

Búlandsnes er eyðibýli, fyrrum stórbýli og læknissetur sunnan Djúpavogs. Snemma á 19. öld var þar sýslumannssetur en læknissetur á árunum 1899-1930. Búland er allstórt nes út af Búlandsnesi og Djúpavogi með miklum klettaröðlum og borgum og mýrlendi á milli. Nesið er mjög vogskorið og fjöldi hólma umhverfis það. Vogarnir hafa smám saman fyllzt af sandi. Breiðvogur, sunnan á nesinu, er baðstaður. Brandsvogur, yzt á nesinu, er að sögn kenndur við Þangbrand prest og kristniboða. Árið 1952 voru 5 ha lands girtir til skógræktar.

Hvergi annars staðar á landinu er hvílik mergð af tröllahlöðum og á Búlandsnesi og mörg þeirra eru listasmíð. Berggangar þessir urðu til við sprungufyllingar neðanjarðar í Álftaneseldsstöðinni fornu og komu í ljós við svörfun ísaldarjöklanna.

Búlandseyjar eru út af Búlandi sunnan Berufjarðar. Margar þeirra eru nú landfastar af framburði ánna. Þar var fyrrum gott varpland, sem tilheyrði bæjunum Búlandsnesi og Berufirði. Djúpasund er milli Búlands- og Þvottáreyja.

Myndasafn

Í grennd

Djúpivogur
Djúpivogur er kauptún við Berufjörð. Árið 1589 fengu Hamborgarkaupmenn leyfi til verzlunar á Djúpavogi og hefur verið verzlun þar síðan. Örum & Wu…
Sögustaðir Austurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landsins Aðalból Álfaborg Álfatrú Álftafjörður Ás í Fellum Ás í Fellum Áskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )