Búðarhálsstöð var gangsett 7. mars 2014. Uppsett afl hennar er 95 MW og í fullum afköstum vinnur hún um 585 GWst af rafmagni á ári. Stöðin stendur við Sultartangalón, vestan við svonefndan Búðarháls sem hún dregur nafn sitt af.
Með stöðinni er virkjað áður ónýtt 40 metra fall vatns frá Hrauneyjafossstöð að Sultartangalóni. Með henni er nánast allt fall vatnsins sem rennur úr Hofsjökli og Vatnajökli um Þjórsá, Tungnaá og Köldukvísl virkjað frá Þórisvatni niður fyrir Búrfell. Fallið er 450 metrar.
Lón stöðvarinnar heitir Sporðöldulón og er myndað með tveimur stíflum. Önnur þverar farveg Köldukvíslar og hin frávatn Hrauneyjafossstöðvar. Frá Sporðöldulóni liggja fjögurra kílómetra löng jarðgöng sem leiða vatnið gegnum Búðarháls að inntaki stöðvarinnar.
Í stöðinni eru notaðir tveir Kaplan hverflar sem henta vel þegar framleiða á rafmagn við fremur litla fallhæð en mikið vatnsstreymi. Hverflarnir eru framleiddir af og uppsettir Voith Hydro en Ístak sá um framkvæmdir við byggingamannvirki. Aðrir helstu verktakar voru Íslenskir aðalverktakar og Alstom. Verkhönnun var í höndum Eflu, Arkitektastofunnar OG, Verkíss, Mannvits og Landslags.
Ferðalög á miðhálendinu voru tíð á söguöld en síðan fór að draga úr þeim, þegar hjátrú magnaðist, og lengi lágu ferðalög niðri, eða allt fram á 18.öld. Nú á dögum er ferðast um hálendið allt árið. Vegakerfið er víða orðið fært flestum tegundum farartækja á sumrin, einkum fyrir tilstuðlan Landsvirkjunar.