Brúará, bergvatnsá, kemur upp á Rótarsandi, fellur um gljúfur, Brúarárskörð, milli Rauðafells og Högnhöfða. Er talið hrikalegasta gljúfur í Árnessýslu, 3–4 km á lengd, grafið af Brúará gegnum laust þursaberg. Mikið vatn fossar úr gljúfurveggjunum. Niðri á sléttunni fellur Brúará á löngum kafla í mjórri gjá í miðjum árfarveginum. Áður lá steinbogi yfir ána en svo er sagt að brytinn í Skálholti hafi látið brjóta hann árið 1602 til að draga úr flökkumannastraumi. Sjálfur drukknaði hann skömmu síðar í ánni. Elsta manngerða brúin var á sama stað, þremur kílómetrum fyrir ofan núverandi brúarstæði. Þar er Brúarfoss, ákaflega fagurt svæði.