Bræðratungukirkja er í Skálholtsprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Þar var kirkja, sem var helguð Andrési á katólskum tíma og útkirkja frá Torfastöðum til 1952, er sóknin var lögð undir Skálholt. Kirkjan, sem enn stendur var vígð 1911.
Magnús Sigurðsson (1651-1707) bjó í Bræðratungu á síðari hluta 17. aldar. Hann var mikill drykkjumaður, auðugur og á margan hátt vel gefinn. Hann varð óður við drykkju og kona hans, Þórdís Jónsdóttir, flúði frá honum til systur sinnar, biskupsfrúarinnar í Skálholti. Þá var Árni Magnússon, prófessor, í heimsókn í Skálholti, sem varð til þess, að hneykslanleg málaferli urðu milli hans og Magnúsar í Bræðratungu. Magnús hélt því fram, að Árni hefði fíflað konu sína.
Þarna var kominn efniviðurinn í skáldsögu Halldórs Kiljan Laxness „Hið ljósa man“ (Íslandsklukkan). Magnús Gíslason (1704-1766), amtmaður, bjó um tíma í Bræðratungu. Hann stuðlaði mjög að ýmsum framförum, mikill ættjarðarvinur og skörungur.
GPS co-ordinates: N 64°09.738 W 20°.22.747.