Blönduóskirkja er í Blönduósprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi.
kirkjan á Blönduósi, hin fyrsta á staðnum, stendur vestan ár (staðarmenn segja sunnan ár) en hin nýja austan ár. Hún er úr timbri, var flutt frá Hjaltabakka 1894 og vígð 1895. Í henni er altaristafla eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval. Blönduós hefur verið prestssetur síðan 1968 og þjónar Þingeyrarprestakalli. Gamla kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Samkvæmt fréttum 29. ágúst 2007 ákvað fjölmennur safnaðarfundur að gefa Sveini M. Sveinssyni, kvikmyndaforstjóra hjá +Film, og Atla Arasyni, hönnuði, kirkjuna. Þeir eiga að vera búnir að koma henni í viðunandi ástand um áramótin 2009-10. Kirkjan verður afhelguð og hana má nýta til verkefna, sem hæfa fyrrverandi guðshúsi. Nýju eigendunum er óheimilt að ráðstafa kirkjunni nema í samráði við sóknarnefnd. Nýju eigendurnir hyggjast koma upp alhliða aðstöðu fyrir listamenn af öllum toga í kirkjunni.
Nýja kirkjan var vígð 1. maí 1993. Dr. Maggi Jónsson teiknaði og hannaði hana og sótti hugmyndir að í fjöllin og landslagið í umhverfinu. Kirkjan tekur 250 manns í sæti. Byggingarframkvæmdir hófust 1982. Í kjallaranum er aðstaða fyrir safnaðarstarf. Munir gömlu kirkjunnar prýða hina nýju, s.s. altaristaflan (Emmausgangan eftir Jóhannes Kjarval) og skírnarfonturinn (Ríkharður Jónsson skar út; gjöf frá Guðbrandi Ísberg, fyrrum sýslum. til minningar um konu hans). Orgelið var vígt um leið og kirkjan (4 radda; Marcusen og søn D.)