Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Bjarnarhöfn

Bærinn Bjarnarhöfn í Helgafellssveit stendur undir Bjarnarhafnarfjalli (575 m), sem rís stakt við mynni   Hraunsfjarðar. Í katólskum sið var þar kirkja helguð heilögum Nikulási, aðallega útkirkja frá Helgafelli og frá 1878 frá Stykkishólmi, en núverandi kirkja var vígð 1857. Þetta er lítil og athyglisverð timburkirkja og stolt Hildibrands bónda á staðnum. Hún þjónar aðeins sem heimiliskirkja Bjarnarhafnar, því að engir aðrir bæir eiga sókn til hennar.

Björn hinn austræni Ketilsson, landnámsmaður byggði fyrsta bæ þar. Hann var bróðir Auðar djúpúðgu og Helga bjólu og hinn eini systkinanna, sem samdi sig ekki að hinum nýja sið. Sagt er að Björn hafi fyrst lent í Kumbaravogi, þar sem er góð höfn, og uppsátur hans þar var og er kallað Bjarnanaust. Þarna var líka verzlunarstaður eins og friðaðar minjar og merki sjást um enn þá. Bjarnarhöfn var stórbýli um aldir. Þar bjó meðal annarra Þorleifur Þorleifsson (1801-1877), smáskammtalæknir. Hann var sagður skyggnastur allar Íslendinga síns tíma (sjá Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar eftir Þórberg Þórðarson). Oddur Hagalín (1782-1840), sem bjó líka að Bjarnarhöfn, var líka læknir, maður stórbrotinn og gáfaður.

Hann skrifaði um heilbrigðismál, læknisráð og grasafræði (1830). Hann var landlæknir um tíma og þjóðsagnapersóna. Enn einn læknir, Hallgrímur Bachmann (1740-1811), var fyrstur þeirra til að taka sér bólfestu að Bjarnarhöfn. Hann var í riddaralífverði Danakonungs og lærði síðan læknisfræði hjá Bjarna Pálssyni, landlækni, og erlendis. Hann varð fjórðungslæknir í syðra umdæmi Vestfjarða 1767 með búsetu í Bjarnarhöfn frá 1773 til æviloka.

Það er upplagt að heimsækja Bjarnarhöfn til að skoða hákarlabeiturnar í hjöllunum, smakka á og kaupa hákarl, hákarlalýsi og harðfisk. Þar er líka lítið steinasafn og vísir að hákarlasafni.
Mynd: Hildibrandur bóndi með hákarl.

 

Myndasafn

Í grennd

Bjarnarhafnarkirkja
Bjarnarhafnarkirkja er í Stykkishólmsprestakalli í Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi. Þarna hefur verið   kirkja allt frá því á 12. öld. Í katólskum s…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )