Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Bjarnarhafnarkirkja

Bjarnarhafnarkirkja er í Stykkishólmsprestakalli í Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi. Þarna hefur verið   kirkja allt frá því á 12. öld. Í katólskum sið var þar kirkja helguð heilögum Nikulási, aðallega útkirkja frá Helgafelli og frá 1878 frá Stykkishólmi, en núverandi kirkja var vígð 1857. Þetta er lítil og athyglisverð timburkirkja og stolt Hildibrands bónda á staðnum. Hún þjónar aðeins sem heimiliskirkja Bjarnarhafnar, því að engir aðrir bæir eiga sókn til hennar.

Meðal merkra og fagurra gripa hennar er predikunarstóllinn, sem danskur kaupmaður, Benedix Bastiansen, í Kumbaravogi (gömlu Bjarnarhöfn) gaf henni 1695. Hann er prýddur myndum af guðspjallamönnunum fjórum og áletrun, sem gefandinn samdi. Kaleikur kirkjunnar er ævagamall, líklega frá 1280, en hans er getið í máldaga frá þeim tíma. Altaristaflan er hið mesta listaverk. Hún var gefin kirkjunni á 17. öld vegna áheits, þegar Hollendingar stunduðu fiskveiðar af kappi við landið. Hún var máluð í Hollandi á dögum Rembrandts en ekki er vitað um listamanninn. Hún sýnir atvikið, þegar postularnir báru kennsl á Krist upprisinn að útdeila brauðinu.

Altarisdúkinn saumaði Ingileif, kona Páls Melsteð. Hökullinn, sem er fölgrænn með ísaumuðum krossi, er líklaga frá katólskum tímum og hefur verið páskahökull. Oblátudósir úr silfri eru ævagamlar og einnig skarbítur. Upphaflega voru þverbitar í kirkjunni og fyrirhugað er að koma þeim fyrir aftur. Hurðarlæsingin er völundarsmíð frá Breiðafjarðareyjum. Kirkjan er Bjarnarhafnarfólkinu til sóma og umhverfis hana er kirkjugarðurinn girtur steinsteyptum grindum. Legsteinar í honum gefa til kynna, að fyrirfólk í Stykkishólmi hafi kosið að láta jarðsetja sig þar fremur en í Maðkavík.

Myndasafn

Í grennd

Bjarnarhöfn
Bærinn Bjarnarhöfn í Helgafellssveit stendur undir Bjarnarhafnarfjalli (575 m), sem rís stakt við mynni   Hraunsfjarðar. Í katólskum sið var þar kirkj…
Kirkjur á Vesturlandi
Flestar kirkjur í landshlutanum Akrakirkja Akraneskirkja Álftaneskirkja Álftartungukirkja Bæjarkirkja Bjarnarhafn…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )