Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Berserkjahraun

berserkjahraun

Berserkjahraun þekur vestasta hluta Helgafellssveitar milli fjalls og fjöru. Það rann til sjávar suðvestan  og suðaustan Bjarnarhafnarfjalls, út í Hraunsfjörð og Hraunsvík. Þar sem Hraunsfjörður lokaðist næstum og gamli þjóðvegurinn liggur um, heitir Mjósund. Við brúna yfir það er stífla, sem kemur í veg fyrir, að flóðs og fjöru gæti í innri hluta fjarðarins og sunnan hans í Árnabotnum og vestan þeirra voru fyrrum nokkrir bæir. Þar var hluti þýzku sjónvarpsþáttanna um Nonna og Manna tekinn upp (einnig í Flatey).

Hraunið rann með einhverju millibili frá fjórum gjallgígum, sem liggja í röð yfir það frá Kerlingarskarði með austur-vestur stefnu. Rauðakúla (379m) er hæst og vestust gíganna, næst er Gráakúla (211m) og Smáhraunskúla, sem er minnst og vestast er Kothraunskúla (191m). Aldur hraunanna er u.þ.b. 4000 ár og gosið er talið hafa byrjað í Kothraunskúlu þaðan sem hraunið rann í átt til Hraunsvíkur. Næst gaus samtímis í Rauðukúlu og Gráukúlu með hraunstraumum til Hraunsvíkur og Seljavallavatns. Smáhraunkúla var síðust og framleiddi hraunin umhverfis Gráukúlu og armur teygði sig út í Hraunsfjörð og myndaði Mjósund. Ekki er ljóst, hve langur tími leið milli þessara goshrina en talað er um nokkra mánuði í mesta lagi. Hraunin mynduðu tvö stöðuvötn, Selvallavatn og Kothraunsvatn, sem hafa ekkert afrennsli á yfirborði.

Hraunið er afarúfið og lítt gróið og erfitt yfirferðar. Þar var farartálmi eftir að landið byggðist umhverfis það. Nú liggja þrír bílvegir yfir það. Áður en vegagerð hófst í gegnum hraunið urðu menn að ganga eða ríða sunnan þess milli hrauns og hlíða ofan Seljavallavatns. Eyrbyggja segir okkur frá för Snorra goða á Helgafelli, þegar hann fór til Saltseyraróss til að brenna skip Austmanna. Fær leið var framan við hraunið í Hraunsvík á stórstraumsfjöru til Bjarnarhafnar en líklega hafa flestir kosið sjóleiðina, sem var oftast lygn í skjóli eyjanna utar. Sums staðar eru vikurflákar í hrauninu, þótt ella sé lítið áfok í því, og snemma var hafizt handa við að ryðja vegir í gegnum það. Leiðin milli bæjanna Berserkjahrauns og Kothrauns yfir hraunið er kölluð Skollagata. Frægasta leiðin er Berserkjagata, sem liggur til Bjarnarhafnar skammt ofan Hraunsvíkur og vitað er hverjir unnu, ef treysta má frásögnum Eyrbyggju Hún er líklega elzta mannvirki sinnar gerðar á landinu og lengst. Hún og Berserkjadys eru friðlýst náttúruvætti.

Víða umhverfis hraunið eru skvompur, litlar gróðurvinjar og berjalautir. Þar sem það gengur í sjó fram eru fallegar víkur, Blámannavík og Básar í Hraunsvík. Sagt er að berserkirnir hafi hlaðið Krossrétt, sem er neðan túns á Berserkjaeyri. Þar rennur Hraunslækur meðfram hraunbrúninni og þar eru rústir fiskbyrgja og hjalla við hana og uppi á hrauninu. Ofar er stór hvammur inn í hraunið með fornum garði. Hann heitir Tröð og gizka margir á, að hann hafi verið kornakur Víga-Styrs. Uppi við Selvallavatn, á sléttum vikursöndum, sem eru kallaðir Hraunflöt, voru oft haldin héraðsmót í íþróttum í kringum 1940 og dansað á palli. Norðan vatnsins er er hraunbrúnin mjög úfin og hrikaleg. Margir una sér vel við útiveru á svæðinu norða, sunnan og vestan hraunsins, enda óvíða fegurri blettir á okkar fagra landi. Arnarsteinn er rétt við gamla þjóðveginn við Mjósund og talið er víst að ernir verpi í hrauninu reglulega eða af og til. Berserkjahraunið er allt á náttúruminjaskrá ásamt Hraunsfirði innan Seljaodda og Selvallavatni, Hraunsfjarðarvatni og Baulárvallavatni.

Sagan um berserkina er í Eyrbyggju og endursögn Jóns Ólafssonar frá Grunnavík af Heiðarvígasögu, sem er líklega elzt Íslendingasagna, rituð í lok 12. aldar, en Eyrbyggja í upphafi hinnar þrettándu. Eftirtalin fjögur mannvirki tengd sögunni hafa varðveitzt, Berserkjagata, Berserkjadys, landamerkjagarður og fjárrétt. Eyrbyggja segir, að Vermundur mjóvi í Bjarnarhöfn hafi flutt berserkina, Halla og Leikni, sem voru af sænskum ættum, með sér til landsins 982 frá Noregi. Hans bróðir var Víga-Styr, sem bjó undir Hrauni á bænum, sem síðast hét Berserkjahraun. Vermundur vildi ekki búa undir oki ofstopamannsins, bróður sins. Honum láðist þó að láta berserkina hafa nóg fyrir stafni og þeir fóru að ókyrrast. Þá snéri Vermundur sér til bróður sins og bað hann taka við þeim, sem hann gerði óviljugur. Hann hafði þá til aðstoðar við að vega menn en verkefnin voru ekki næg, þótt mikið blóð flyti. Halli vildi að Styr gæfi honum dóttur sína, Ásdísi, eða missa vináttu hans ella.

Víga-Styr ráðgaðist við Snorra goða á Helgafelli heilan dag vegna þessa vanda og fór heim með góð ráð. Þegar heim kom, var hann jákvæður í garð Halla, en sagði, að þeir yrðu að leysa nokkrar þrautir áður en af ráðahagnum yrði. Síðan sagði hann þeim að þeir yrðu að ryðja götu í gegnum hraunið til Bjarnarhafnar, leggja hagagarð yfir það og byrgi fyrir innan það. Það rann á þá berserksgangur og þeir luku þessum verkum á tiltölulega skömmum tíma. Á meðan hafði Styr látið grafa baðstofu í jörð niður heima við með glugga yfir ofninum, þannig að hella mátti vatni þar í gegn. Hann bauð berserkjunum til baðhússins, þegar þeir komu heim frá verkinu móðir mjög. Síðan lét Styr bera stórgrýti á hlemminn yfir innganginum og hellti sjóðandi vatni á ofninn. Þótt mikið væri dregið af berserkjunum, brutust þeir út en Styr tókst að leggja þá í gegn með sverði sínu. Skrokkarnir voru fluttir út á hraunið og dysjaðir í hraunlaut við sjálfa götuna.

Myndasafn

Í grennd

Grundarfjörður
er sérlega fagur fjörður, umluktur fjöllum á þrjá vegu, sem eiga vart sinn líkan að fjölbreytni, og er þar Kirkjufell mest áberandi. Samnefnt kauptún …
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Akrafjall Akrakirkja Akranes Akraneskirkja …
Stykkishólmur
Stykkishólmur er oft kallaður höfuðstaður Snæfellsness. Bærinn stendur á innanverðu Snæfellsnesi, yzt á Þórsnesi. Byggðin stendur á klettaborgum með f…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )