Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Beinabrekka, Beinahóll

Þessi örnefni vísa til grasbrekku hraunborgar í Kjalhrauni. Þessi staður er skammt norðaustan undir Kjalfelli.

Enn þá finnst þar talsvert af beinum hesta og fjár Reynistaðarbræðra, sem urðu þar úti með förunautum sínum haustið 1780. Þeir hétu Bjarni og Einar Halldórssynir. Fjárfellir hafði orðið í Skagafirði og bræðurnir voru sendir suður til fjárkaupa um sumarið. Þeir voru ekki ferðbúnir norður fyrr en 28. oktober og lögðu af stað fimm saman með 180 fjár og 16 hesta.
Þegar þeir komu í Kjalhraun, brast á þá norðanstórhríð. Ljóst er, að Jón Austmann, félagi þeirra, reyndi að brjótast áfram norður, því að hestur hans fannst skorinn á háls hjá ánni Þegjandi og hönd hans sjálfs í Blöndugili. Fjórmenningarnir, sem eftir urðu, létust allir í tjaldi undir Líkaborg. Tjaldið fannst næsta vor, en þegar sækja átti líkin, voru lík bræðranna horfin. Bein þeirra fundust loks árið 1846 á melöldu talsverðan spöl frá tjaldstaðnum. Líkum er leitt að því, að líkum þeirra hafi verið rænt vegna peninga, sem bræðurnir höfðu meðferðis.

Þetta olli miklum málaferlum, sem leiddu lítið í ljós, og enn þá liggur hula yfir málsatvikum. Nokkrar skjátur og eitt hross komust lifandi norður af um veturinn og næsta vor. Björgu, systur bræðranna, dreymdi, að Bjarni kæmi til hennar og kvæði:

Enginn finna okkur má
undir fannahjarni,
dægur þrjú yfir dauðum ná
dapur sat hann Bjarni.

Hann birtist henni aftur síðar, þegar bein þeirra bræðra fundust ekki:

Í klettaskoru krepptir liggjum bræður
en í tjaldi áður þar allir hvíldum félagar.

Eftir þennan atburð þótti reimt á Kili. Margir sáu greinilega skuggum bregða fyrir utan á tjöldum en gripu í tómt, þegar svipazt var um úti. Jón Helgason orti í Áföngum:

Liðið er hátt á aðra öld;
enn mun þó reimt á Kili,
þar sem í snjónum bræðra beið
beisklegur aldurtili;
skuggar lyftast og líða um hjarn
líkt eins og mynd á þili;
hleypur svo einn með hærusekk
hverfur í dimmu gili.

Minnisvarðinn á Beinahóli var reistur árið 1971 að frumkvæði Guðlaugs Guðmundssonar, afkomanda Reynisstaðarfólksins. Hann er stuðlabergsdrangur norðan úr Skagafirði. Höfundur bókarinnar um Reynistaðarbræður (1968) var Guðlaugur Guðmundsson, kaupmaður í Reykjavík
f 1914 – d 2002)

Heimild: Ofangreind bók Guðlaugs.

Myndasafn

Í grennd

Hálendið, ferðast og fræðast
Þegar talað er um (Hálendið) miðhálendið, er yfirleitt miðað við landsvæði ofan 400 m hæðar yfir sjó. Þetta svæði nær yfir u.þ.b. 76% af flatarmáli la…
Kjölur
Kjölur er svæðið milli Langjökuls í vestri og Hofsjökuls í austri, Hvítár í Suðri og Seyðisár og í norðri.  Hvítár liggur leiðin um Bláfellsháls. Frá …
Reynistaður
Reynistaður er bær og kirkjustaður u.þ.b. 10 km sunnan Sauðárkróks utan Langsholts við Staðará  (Sæmundará). Þar hét áður Staður á Reynisnesi. Þar var…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )