Núpsstaður er austasti bær í Fljótshverfi, skammt vestan Skeiðarársands. Bændur þar fylgdu ferðamönnum gjarnan yfir vötnin og sandinn, þegar hann var riðinn. Ofan bæjar er fallegt hamrabelti með alls konar kynjamyndum.
Bænhúsið á Núpsstað er að stofni frá 17. öld og í umsjá þjóðminjavarðar. Það var endurbyggt árið 1972. Hannes Jónsson (1880-1968) póstur og ferða- og vatnagarpur liggur grafinn bak við bænahúsið.
Árið 2006 hóf Þjóðminjasafnið vinnu við varðveizlu muna í gömlu húsunum að Núpstað. Sagt er, að þau verði gerð upp að einhverju leyti. (Filippus Hannesson fæddist 2. desember 1909. Hann varð 100 ára 2009).
Vegalengdin frá Reykjavík er um 370 km.