Auðunarstaðir eru í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu.
Auðun skökull Bjarnarson byggði þar fyrstur og nam Víðidal. Afi hans var Hunda-Steinar, jarl í Englandi, og langafi Ragnar Loðbrók. Auðun var langafi Ástu, móður Ólafs helga, Noregskonungs. Dóttir Ólafs helga giftist Ordulf, hertoga af Brúnsvík. Enska konungsfjölskyldan á ættir til hans að rekja. Það er gaman að geta sýnt brezka háaðlinum Víðidalinn, þar sem rætur hans liggja.
Í landi Auðunarstaða er félagsheimilið Víðihlíð (1938), sem var stækkað 1965, veitingahús og ferðamannaverzlun. Konur í héraðinu hafa aðstöðu í Víðihlíð, saumastofu í kjallara og sölu alls konar ullarfatnaðar og minjagripa í sal hússins á sumrin.