Árbæjarsafn er í senn útisafn og byggðasafn og tilheyrir Minjasafni Reykjavíkur. Safninu er ætlað það, að gefa almenningi innsýn í lifnaðarhætti, störf og tómstundir Reykvíkinga fyrr á tímum. Safnið er einnig varðveizlu- og skrásetningarstofnun safngripa, húsa og fornleifa. Árið 1957 var ákveðið, að á túni Árbæjar skyldi gerður almenningsgarður og komið upp safni gamalla húsa með menningarsögulegt gildi fyrir höfuðborgina.
Safnið var opnað strax sama sumar. Flest húsanna, sem safnið skartar eru úr Miðbænum. Húsin eru u.þ.b. 20 talsins og alltaf bætist við. Þau eru forvitnileg bæði innan- og utandyra. Safnsvæðinu má skipta í fimm hluta: Við Torgið eru stærstu húsin, reisuleg, tvílyft eða portbyggð timburhús frá s.hl. 19. aldar og byrjun hinnar 20. Í Þorpinu eru smærri íbúðarhús iðnaðar- og tómthúsmanna frá 19. öld og upphafi 20. aldar.
Gömlu bæjarhúsin voru byggð á árunum 1890-1918. Þau voru vinsæll áningarstaður ferðamanna og margir gerðu sér ferð þangað um helgar og nutu veitinga á staðnum. Þau voru gerð upp fyrir opnun safnsins.
Torfkirkjan er frá Silfrastöðum í Skagafirði. Hún var byggð 1842 og vék fyrir nýrri kirkju 1896. Viðir hennar voru notaðir í baðstofu, sem var síðan tekin niður og þeir voru notaðir við endurreisn í Árbæjarsafni. Systurkirkja hennar að Víðimýri í Skagafirði, sem var byggð á árunum 1834-35, er talin einhver fegursta torfkirkja landsins.
Önnur torfhús á sýningarsvæðinu eru skrúðhús kirkjunnar, sem er nýsmíði, fjós og geymsla Árbæjarins og smiðjan, sem er líka nýsmíði, sem geymir marga muni úr gömlum smiðjum í Reykjavík.
Á Hafnarsvæðinu eru tvö stór verzlunarhús (kjöthús og kornhús) frá Vopnafirði og leikfangasýning og aðstaða fyrir skólahópa í öðru þeirra. Fjölgað verður bátum og öðru, sem tilheyrir siglingum og útgerð á svæðinu. Í Sveitinni er gamli Árbærinn og fleira, sem tengist búskap og dreifbýli.
Í Vélasalnum er m.a. fyrsta eimreið landsins, gufuvaltarinn Bríet, slökkvibílar o.fl. Árbæjarsafn er aðallega opið yfir sumartímann en tekur á móti skólabekkjum og hópum allan ársins hring. Árbæjarsafn hefur árlega gengizt fyrir gönguferðum með leiðsögu um Elliðaárdalinn.
Árbæjarkirkja er í Árbæjarprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Kirkjan var upprunalega byggð árið 1842 að Silfrastöðum í Skagafirði. Hún er systurkirkja Víðimýrarkirkju, sem var byggð á árunum 1834-35. Upprunalegi kirkjusmiðurinn var Jón Samsonarson, bóndi, smiður og alþingismaður. Hún var endurreist í Árbæjarsafni árið 1960 og nýtt skrúðhús var byggt við hana árið 1964.
Kirkjusmiður var Skúli Helgason frá Selfossi. Hann fór að Silfrastöðum og tók tréverkið niður. Helzti vandinn við endurreisnina var að komast að réttum hlutföllum og útliti kirkjunnar.
Lausnin fannst í vísitasíu frá 1842 í Þjóðskjalasafni. Þar voru öll mál tilgreind. Skúli skar út
vindskeiðarnar sjálfur og lauk við bygginguna haustið 1960. Textinn um Víðimýrarkirkju lýsir nánar innviðum og nokkrum kirkjusiðum.
Skrúðhúsið stendur andspænis kirkjudyrum, sem er fátítt á Íslandi. Það var smíðað með skrúðhúsið að Arnarbæli í Ölfusi að fyrirmynd.