Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Álftaneskirkja

Álftaneskirkja Borg Mýrum

Álftaneskirkja er í Borgarprestakalli í Borgarfjarðarprófastsdæmi. Kirkjustaðurinn Álftanes er á samnefndu nesi, sem skagar lengst út með Borgarfirði að norðan. Kirkjan, sem nú stendur, var byggð 1904. Katólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar Maríu guðsmóður. Altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson, máluð eftir upprisumynd danska málarans Wegener. Gert var við kirkjuna skömmu fyrir 1990 Kirkjunni er þjónað frá Borg.

Leirulækjar-Fúsi kom sjaldan til kirkju og átti erfitt með að sitja kyrr undir messu. Eitt sinn var hann á ferð og flugi um kirkjuna við messu og presturinn bað hann setjast og vera rólegan. Fúsi kvaðst þurfa oft að kasta af sér vatni og betra væri að hann færi út til þess en að væta kirkjugólfið. Hann kom til kirkju næsta sunnudag á eftir og gekk í kirkju milli pistils og guðspjalls. Hann var með kopp sinn bundinn á bak sér og kvað þessa vísu inn kirkjugólfið:

„Koppin ber ég hægt á herðum,
hallast hvergi má.
Fallegt þing með fjórum gjörðum
Fúsi karlinn á.”

Þá leysti hann koppinn af herðum sér og setti hann undir bekk og settist niður. Þegar presturinn snéri sér fram til að tóna guðspjallið stóð Fúsi upp eins og siður er. Hann tók þá koppinn og pissaði í hann og bauð sessunautum sínum afnot af honum. Þeir fussuðu og sveiuðu og þáðu ekki boðið, svo að Fúsi setti koppinn aftur undir bekkinn á meðan Credo var sungin. Þegar prestur gekk frá altarinu til stóls, tók Fúsi koppinn og kastaði aftur af sér vatni og var kyrr meðan prestur predikaði. Hann talaði um, hve hættulegt sé andvaraleysið og hræðilegt muni á dómsdegi ástand hinna andvaralausu, þegar dómarinn mikli segi við þá: „Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem fyrirbúinn er djöflinum og öllum hans árum.” Í því stóð Fúsi upp, gekk til prestfrúarinnar, þreif í hönd hennar og sagði stundarhátt: „Komum við þá, Randalín, til okkar talar presturinn.” Frúin streittist á móti og sat kyrr og Fúsi gekk aftur til sætis sins. Þegar prestur gekk úr stól til altaris á ný, tók Fúsi koppinn í báðar hendur og lagði af stað með hann fram eftir kirkjunni og kvað um leiðs við raust:

„Mikið tek ég mér í fang,
maðurinn handaloppinn.
Ljáið þið mér nú liðugan gang
að labba út með koppinn.”

Myndasafn

Í grennd

Kirkjur á Íslandi
Það er erfitt að draga skörp landfræðileg skil milli kirkna, kirkjustaða og sögu kristninnar á milli. Á þessum vef fer skiptingin ekki eftir prófastsd…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )