Álftamýri er eyðibýli við norðanverðan Arnarfjörð, fyrrum kirkjustaður og prestssetur til 1880, en þá var sóknin lögð til Hrafnseyrar. Katólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar Maríu guðsmóður og Jóhannesi skírara. Bærinn fór í eyði skömmu eftir 1950. Kirkjan, sem var byggð þar 1896 skemmdist í ofviðri 1966. Skömmu síðar var hún rifin og sóknin sameinaðist Hrafnseyrarsókn.
Mitt á milli Baulhúsa og Álftamýrar er Hlaðsbót. Hún er í landi Álftamýrar og þar var um skeið verstöð og löggiltur verslunarstaður 1893. Hvalveiðar í Arnarfirði voru löngum stundaðar frá Álftamýri og Stapadal, þar sem voru margir færir skutlarar í gegnum tíðina, enda æfðu þeir sig í listinni eins og hverri annarri íþrótt. Reyðarhvalir gerðu sig heimakomna í firðinum á vorin og dvöldu þar sumarlangt á meðan kálfarnir voru að stækka. Þeir voru mjög spakir og veiðin hófst skömmu áður en þeir sýndu á sér fararsnið. Arnfirðingarnir notuðu sérsmíðaða báta til veiðanna og skutluðu einungis kálfa. Hvalkjötinu var skipt niður á alla bæi sveitarinnar og þótti gott búsílag. Kunnugir fullyrtu, að sömu hvalirnir kæmu ár eftir ár með afkvæmi sín og sumir báru nöfn. (Skeifa, Skjalda, Halla Rafnseyrar-Kolla o.fl.). Þessi veiði var árviss þar til Norðmenn fengu leyfi til hvalveiða úti fyrir Vestfjörðum 1888. Þá hurfu allir hvalir úr firðinum og komu ekki aftur.