AKUREY
Ekki er kunnugt um byggð í þessari ystu eyju Kollafjarðar og ekki er kunnugt um eignarrétt fyrr en árið 1379, þegar Víkurkirkja átti þar akurland. Skúli Magnússon áttí í málaferlum við eigendur Ness fyrir hönd Víkurkirkju um eignarréttinn árið 1782 og fór halloka. Þarna er æðar- og lundavarp og aðalgrásleppumið Seltirninga auk talsverðar kofnatekju.
Fyrsta sjómerkið, sem var sett upp í nágrenni Reykjavíkur, var sett þar upp árið 1854. Snemma á 20. öld var þar kanínurækt á vegum Haraldar Sigurðssonar, fyrsta forstjóra Elli- og hjúkrunarheimilisins Grundar. Reykjavík keypti eyjuna árið 1969 og eftir árið 1978 taldist hún innan lögsögu borgarinnar.
Akurey er á Náttúruminjaskrá.