Tjaldsvæði í Þrastarskógi
Tryggvi Gunnarsson gaf Ungmennafélagi Íslands 45 ha svæði meðfram Soginu á 76. afmælisdegi sínum árið 1911 og það fékk nafnið Þrastarskógur árið 1913. UMFÍ hóf strax ræktun og sumar hvert er ráðinn skógarvörður til að hafa umsjón með svæðinu. Hvergi annars staðar á landinu eru fleiri sumarbústaðir en í Grímsnesinu í kringum Þrastarskóg.
Göngustígar liggja um allan skóginn og þar er tjaldsvæði með hreinlætisaðstöðu og aðstöðu til að elda utanhúss. Þrastarlundur er veitingastaður við innreiðina í skóginn. Þar eru allar almennar veitingar seldar og stundum eru þar málverkasýningar á sumrin. Hugmyndasamkeppni var haldin um framtíðarskipulag skógarins árið 1989 og síðan hefur verið unnið eftir hugmyndunum.