Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Víðgelmir

Víðgelmir er meðal lengstu (1585 m) og stærstu hraunhella heimsins, sem hafa verið uppgötvaðir.  Rúmmál hans er u.þ.b. 148.000 m³. Hann er, eins og Surtshellir og Stefánshellir, í Hallmundahrauni, u.þ.b. 2 km suðaustan Fljótstungu í Hvítársíðu. Eini inngangurinn í hann er nærri norðurenda hans, en þar er læst hlið fyrir og aðgangur aðeins veittur með fylgd frá Fljótstungu. Þegar inn er komið þrengist hellirinn verulega, þannig að skríða verður um þrönga smugu. Þarna safnast vatn, sem þiðnar ekki alltaf á sumrin, þannig að hellirinn lokast stundum af ís. Innar er hellirinn hár og víður og gólfið slétt á köflum.

Mestur hluti fagurra dropasteina í hellinum hefur verið brotinn og skemmdur, þannig að aðgangur er ekki frjáls. Mannvistarleifar fundust i hellinum og voru fluttar á Þjóðminjasafnið, sem hefur staðfest, að þær séu að líkindum frá víkingaöld. Hraundropasteinar myndast, þegar hraunið er að kólna og dropar niður úr hellisloftinu og víða er einnig að finna svokölluð hraunreipi á veggjum slíkra hraunhella. Víða í slíkum hellum eru líka fagrar íssúlur og aðrar ísmyndanir. Fært er á fjórhjóladrifnum bílum að hellismunnanum.

Skeggjahola er djúp hola með slútandi opi skammt frá Víðgelmi. Haustið 1923 fannst í henni beinagrind af manni með sömu áverkum á hauskúpunni og Grettir Ásmundarson lýsir í vísu eftir að hafa drepið sitt fyrsta fórnarlamb, Skeggja frá Ási í Vatnsdal, í móunum móti Víðgelmi.

„Ég hygg, að hamartröll (öxi)
hafi hlaupið harkalega í Skeggja.
Blóðþorsti var í öxinni.
Öxin gein harðmynnt yfir haus honum,
Sparaði lítt vígtönn og klauf enni.”

Hellaskoðun krefst alltaf varúðar og góðs útbúnaðar. Það er ekki lengur í tízku að ganga um hella með logandi kyndla. Nú á dögum eru notuð góð handrafljós og langbezt er að vera með hjálma búnum rafljósi að auki.

Myndasafn

Í grennd

Húsafell
Húsafell er vinsæll sumarleyfisstaður meðal Íslendinga. Þar eru fjölmargir sumarbústaðir og hægt er að leigja sér bústað eða tjalda í skóginum. Þarna …
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )