Þerney er á Kollafirði. Milli hennar og Álfsness er Þerneyjarsund, sem var í alfaraleið á miðöldum, þegar þar var helzti verzlunarstaðurinn í þessum landshluta áður en hann fluttizt upp í Hvalfjörð. Eyjan var í ábúð fram á 20. öld og fyrrum var þar líka kirkja.
Árið 1933 voru fjórir tarfar af mismunandi holdakyni og kálffull Galloway kvíga sótt til Skotlands. Þessum gripum var komið fyrir úti í Þerney í einangrun, sem var skynsamleg ráðstöfun, því að einn tarfanna bar með sér sveppasjúkdóm, hringorm eða hringskyrfi. Kálfur kvígunnar var geymdur í eldhúsinu á bænum í eyjunni. Þessum gripum var, að kálfinum undanskildum, lógað í janúar 1934 eftir mikið japl, jaml og fuður milli ráðuneyta. Þessum kálfi, nauti, var skotið undan og hann fluttur til Blikastaða, þar sem hann var skírður Brjánn og var í umsjá Magnúsar bónda. Þaðan rataði Brjánn að Gunnarsholti, að Sámsstöðum og loks lenti hann á Hvanneyri hjá Runólfi Sveinssyni á síðustu árum hans þar.
Runólfur hóf að fikra sig áfram með markvissa skyldleikaræktun og hugðist sameina í afkomendum hans eiginleika holdakynsins og íslenzka mjólkurkynsins. Árið 1948 ákvað hann að taka upp holdanautabúskap að Gunnarsholti og safnaði saman stofninum víðsvegar að í hjörð holdanauta, meðal annars frá Hvanneyri og byrjaði að framrækta hana og kynbæta. Árið 1954 voru á þriðja hundrað gripir í nýrækt upp á 300 ha, sem voru að helmingi svartur foksandur 1947.