Speni er hóll milli Skreflna og Kolbeinsvíkur. Hann líkist konubrjósti, því að upp úr honum stendur þúfa sem álengdar minnir á geirvörtu. Við Spenann eru hreppamörk Kaldrananess- og Árneshrepps.
Gvendur góði og skessan
Sagan segir, að tröllskessa ein, sem bjó í Skreflufjalli (776m), sem er girt hrikalegum hömrum, hafi haft ímugust á bóndanum í Kolbeinsvík vegna þess, hve bær hans stóð nærri híbýlum hennar. Hún reyndi margt til að hrekja hann brott og vildi helzt drepa hann og allt hans hyski. Nótt eina settist hún á fjallseggjarnar fyrir ofan bæinn og spyrnti fram vænni sneið af fjallinu. Hugmyndin var sú að enginn sem fyrir skriðunni yrði þyrfti framar um sár að binda. Kerla varaði sig hins vegar ekki á því að þessa sömu nótt gisti Guðmundur biskup hinn góði í Kolbeinsvík. Hann vaknaði skjótt við skruðningana í grjóthruninu, vatt sér í snatri framúr og sá hvar fjallshlíðin skreið fram. Biskupinn hljóp út úr bænum og áttaði sig strax á hvers kyns var og myndi óvætturin valda. Hann breiddi út faðminn móti hrapandi fjallinu og hrópaði: „Hjálpa þú nú Drottinn, eigi má veslingur minn.“ Á sömu stundu og biskup mælti þessi orð stöðvaðist grjóthrunið þar sem það nú er og hefur ekki hreyfzt síðan.