Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 4. dagur

Frá Furufirði til Reykjafjarðar 12 km um Svartaskarðsheiði (393m) og Reykjafjarðarháls (150m)

Snemma morguns leggjum við upp frá Furufirði. Við göngum fyrst með fjörunni nokkurn spöl, en síðan troðna götu heim að bæ í Furufirði. Vaðið á ósnum er rétt ofan við bæinn, þar sem ósinn fellur í þremur kvíslum. Hærra upp gætir sjávarfalla ekki nema á mestu flóðum og er ósinn venjulega stígvélavæður þarna. Hinum megin óssins komum við upp á malarkamb, svonefnda Rana, sem við fylgjum yfir að Dalbökkum neðst í hlíðinni að austan. Þaðan liggur svo leiðin á snið upp og inn hlíðina og má sums staðar greina götuslóða, en víðast er hann horfinn, þar sem gróður er. Þar sem veginn þrýtur hjálpa okkur vörður og vörðubrot allt upp á Reiðhjalla, en svo heitir hjalli einn mikill, sem liggur út fjallið, ofarlega, allt frá dalbotni út undir fjarðarhorn. Um þenna hjalla lá gjarna leið manna af Skorarheiði austur á Strandir, ef þeir vildu ekki missa mikla hæð í Furufirði. Á hjallanum eru vörður og skýr gata, sem við fylgjum út að Svartaskarði, sem er í raun varla skarð, heldur ofurlítil lægð í Kjölinn, en svo heitir efst hluti fjallsins. Úr Svartaskarði má sjá vítt til allra átta; norður á Hornbjarg, austur á Geirhólm og upp á Drangajökul.

Leiðin niður í Þaralátursfjörð er vel merkt og gatan góð niður hjalla, lítt gróna, þar til kemur fram á brúnina, þar sem sér niður í fjörðinn. Þaðan niður er gatan nokkuð slitin, en vörðurnar vísa okkur veginn niður Enni, þangað sem áin Blanda beygir í smágili út með hlíðinni. Þegar niður er komið, taka við miklir jökulaurar, nokkuð grónir og er þar mest áberandi eyrarrós, jurt, sem fátt er um annars staðar á Vestfjörðum. Við göngum yfir aurana í átt að klettahöfða, sem er við Þaralátursós nokkru neðar. Rétt neðan við höfðann er vað á ósnum, þar sem heitir Skot.
Þessi höfði kom nokkuð við sögu í Eyrbyggju, er bændur Ströndum gerðu umsátur um vígi það, sem Óspakur á Eyri í Bitru hafði gert sér þar og farið þaðan með ránum um Strandir. Var Óspakur þaðan hrakinn ásamt óspektarliði sínu, en höfðinn mun kenndur við hann síðan og nefndur Óspakshöfði.

Þegar komið er yfir ósinn taka við lágir hjallar unz komið er up á Reykjafjarðarháls. Leiðin er vel vörðuð og gata skýr, þar sem ekki er gróið upp úr.

Uppi á hálsinum er gatan skýr allt að brún Reykjafjarðarmegin, en þar hverfur hún á köflum. Skyldu menn þá gæta að leiðarmerkjum, sem eru ekki alltaf stór fremur en víða annars staðar á þessum leiðum; stundum aðeins einn eða tveir steinar, sem settir hafa verið upp á stóran jarðfastan stein. Þannig má rekja sig niður í Reykjafjörð og þegar þangað er komið liggur leiðin um flóa og mýrasund milli jökulnúinna klettaborga að bæjarhúsum í Reykjafirði. Segja má að húsin í Reykjafirði standi í tveimur hverfum, þar sem gömlu bæjarhúsin eru á hæð snertispöl frá sjó fram af fjarðarhorninu að norðanverðu og síðan eru önnur þrjú hús nokkru innar. Rétt við þau er neðsta laugin af þremur, sem eru í firðinun hinar eru innar. Þessi laug hefur verið virkjuð til að hita upp húsin þrjú auk þess sem hún leggur til vatn í sundlaug, sem þarna er. Síðan Reykjafjörður fór í eyði um 1960 hafa heimamenn komið hverju sumri og dvalið í 2-3 mánuði við rekavinnslu og reyndar eru tvö húsanna byggð á síðustu árum að mestu úr rekaviði, sem unninn hefur verið að drjúgum hluta á staðnum. Fyrsta verk okkar, eftir að hafa leitað leyfis til að tjalda, er að fá okkur sundsprett í lauginni. Hún er kannski heldur heit til sunds, en mörgum þreyttum ferðalangnum hefur hún verið sælulind og hefur menn oft skort orð til að lýsa feginleika sínum að komast í heitt bað eftir erfiða göngudaga.

Við tjöldum og síðan er haldið af stað aftur, að þessu sinni aðeins stutt. Leiðin liggur upp á eina klettaborgina, sem er þarna rétt hjá. Heitir sú Viðarborg og má af henni sjá um mest allan fjörðinn. Við horfum fyrst til hafs og snúum okkur svo sólarsinnis og ber þá fyrst fyrir augu okkar Geirólfsgnúp, sem hér er reyndar ætíð nefndur Geirhólmur. Hann er fallegt fjall og af honum stórkostleg útsýn til allra átta. Auðvelt er að ganga á Geirhólm. Þá er vaðinn Reykjafjarðarós, sem oftast er vel væður rn 150-200 m frá sjó, og síðan er fylgt fjárgötum undir Sigluvíkurnúpi út í Sigluvík. Þaðan er hægt að fylgja götunni, sem liggur til Skjaldabjarnarvíkur, upp á hæstu brekku og beygja þar út á fjallið. Eru það léttar atlíðandi brekkur.

Eins og fyrr segir er stórkostleg útsýn af Geirhólmi og austan við hann sjást Drangar og Drangaskörð, sem vel eru kunn af myndum. En nær er Skjaldabjarnarvík, oft nefnd Skjaldarvík, nyrzti bær, sem byggður var í Strandasýslu og erum við þar með komin út fyrir sögusvið þessarar leiðarlýsingar. Ég stenzt samt ekki mátið að minnast a hana, því ar bjó um nokkurt skeið sá Hornstrendingur, sem þeirra hefur orðið hvað þekktastur, Hallvarður Hallsson frá sem Horni. Hann var stórvaxinn og stórskorinn og þótti mörgum sem þeir sæju tröll, sem hann var, enda var hann gjarna þannig klæddur að hann virtist enn stærri og meiri. Hallvarður var fróður maður og sögðu sumir hann fjölkunnugan sem föður sinn, Hall á Horni. Hann orti nokkuð og skrifaði listavel. Meðal þess, sem Hallvarður reit, var alllangt ljóðabréf og eru þessi erindi þar úr:

„Ef að greina eg skal þér í efnum vöndum
eyðiplássið allt á Ströndum,
ólíkt er það Suðurlöndum.

Á Hornströndum ekki jörðin ört er gróin.
Hæst eru fjöllin helzt við sjóinn;
hafa þau á sér jökulsnjóinn.

Víða er þar vandasamt og vegur stríður
allt um kring, á allar síður,
enginn maður hestum ríður.

Sjódraugarnir bæði bæi og byggðir kanna,
álíkt fyrir augum manna
eins og flokkur bjargbúanna.“

Þessar vísur voru ortar á síðari hluta 18. aldar og lýstu Hornströndum þeirra tíma. Allar gætu þær fullt eins vel átt við núna nema kannski sú síðasta – og þó. Hallvarður var grafinn heima í Skjaldabjarnarvík, en ekki í vígðri mold. Hefur það orðið til þess ásamt öðru, að viðhalda galdraryktinu, sem af honum fór. Þetta er sagt hafa verið að hans eigin ósk, því ekki vildi hann fá legstað hjá klerki, „sem engin ráð ætti upprisu sjálfs sín auk heldur annarra“. Leiði hans er nú afgirt og merkt.

En snúum nú aftur til þess, er við stöndum á Viðarborg í Reykjafirði. Nokkru ofar en vaðið er yfir ósinn má sjá skrúðgrænan blett neðan skriðu, sem fallið hefur úr brattri hlíð Sigluvíkurnúps. Þarna stóð forðum bærinn Sæból, sem lengi hefur verið í eyði. Á ofanverðri síðustu öld, meðan enn var búið á Sæbóli, var maður að flytja þaðan búferlum og að Bjarnarnesi. Fjölskylduna og búslóðina flutti hann á báti, en í Bolungavík setti hann konuna í land ásamt yngri dreng þeirra og kúnni og skyldu þau ganga það, sem eftir var leiðar. Var veður þá tekið að versna. Báturinn kom aldrei fram eftir að hann lagði af stað frá Bolungavík. Haft var við orð að þetta væri hefnd, sem huldukona hefði lagt á manninn er hann stækkaði útihús sín á Sæbóli og rauf þar með bannhelgi álagabletts. Litla trú hafði maðurinn haft á álögunum og fór sínu fram og „því fór sem fór“, sagði almannarómur. Einnig var rifjað upp að illa hefði farnast búskapurinn þá um veturinn, sem var sá næsti áður en hann fórst. Enn innar en Sæból, þar sem við sjáum mikla gufu stíga upp frá laug handan óssins, stóð annar bær og hét sá Kirkjuból. Þar er sögð hafa verið kirkja eða bænhús, sem lagðist af fyrir ævalöngu. Telja menn það hafa verið í tíð Panta þess, sem fyrr er nefndur prestur í Grunnavík. Samkvæmt mælingum Jóns Benjamínssonar á Orkustofnun er laugin sú heitasta í firðinum, 63-64ºC, og rennslið er mikið eða 20 lítrar á sekúndu.

Yfir tóttir Kirkjubóls að bera er hátt fjall og tigulegt. Það heitir Miðmundahorn og var, eins og nafnið bendir til, eyktamark frá Reykjafirði. Innar á þessum sama fjallgarði er annað fjall, ekki síður tigulegt, en miklu nafnfrægara. Þetta er Hrolleifsborg í Drangajökli, sem við sjáum skýrt héðan. Raunar er Hrolleifsborg ekki lengur jökulsker eins og var, því snjóa leysir í flestum sumrum af fjallsrimanum milli hennar og Miðmundahorns. Við sjáum einnig Hljóðabungu og Reyðarbungu. Þessi jökulsker eru gjarna nefnd einu nafni Borgir og eru að sjá beint upp af Reykjafirði. Handan Hálsabungu, sem er norðan við jaðar skriðjökulsins, sem teygir sig niður í fjörðinn, sést einnig hæsta bunga Drangajökuls, Jökulbunga, 925 m há. Íshella jökulsins virðist hafa þynnst verulega, en Reyðarbunga kom fyrst upp úr jöklinum á fyrstu áratugum þessarar aldar. Árið 193l var hún um það bil 2 m upp úr ísnum, en stóð um I00 m upp fyrir ísinn árið l963 (Jón Eyþórsson, l963).

Neðan við Hálsabungu er svo Reykjafjarðarháls, sem við komum yfir og þá Þaralátursnes, fremur lágt, en hækkar nokkuð yzt. Á Reykjafirði eru nokkur sker og við sjáum fáein þeirra úti undir hlíð Þaralátursness. Rétt innan við þau er klettur einn, ekki mjög hár en allstór, landfastur. Þarna hafa Reykfirðingar lengi haft sögunarhús, þar sem þeir vinna rekavið og heitir þarna á Hlein.

Myndasafn

Í grennd

Gönguleiðir Ferðast og Fræðast, á Vestfjörðum
Gönguleiðir á Íslandi eru miklu fleiri en getið er um í þessari umfjöllun. Hérna er aðeins getið helztu leiðanna og jafnframt bent á fjölda bóka og bæ…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )