Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 2. dagur

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR,
2. dagur:
Frá Dynjanda að Hrafnfjarðareyri 10 km (för inn að Jökulgarði 7 km)

Að morgni er risið árla og nú skal halda inn í Leirufjörð, yfir í Kjós og þaðan inn með Hrafnfirði að Hrafnfjarðareyri. Heldur er vegurinn tekinn að versna fyrir innan Dynjanda, en er þokkalegur þó, ruddur framan í sjávarbökkum, en nokkuð spilltur af vatni úr mýrum og lækjum fyrir ofan. En nú er komið að Dynjandisá, sem beljar fram með fossinn Dynjanda dynjandi nokkra metra frá fjörunni. Um foss þenna kvað Hannes Hafstein:

„Alla daga Dynjandi
drynur ramma slaginn.
Gull úr hrönnum hrynjandi
hverfur allt í sæinn.”

Fallegt er að sjá þegar ber saman fossinn og Tröllafell, sem rís upp milli Dynjandisdals og Múladals, með tröllin sín labbandi upp hlíðarnar.

Tröllafell er sennilega forn gosrásarfylling úr basalti, sem hef myndast í eldstöðinni innst í Jökulfjörðum. Mikið stuðlaberg er fellinu og standa suir stuðlarnir eins og stólpar í hlíðunum.
Brú var á Dynjandisá, nú fallin en stöplarnir standa. Vel mætti hugsa sér að lagfæra hana með því að leggja planka milli stöplanna svo ekki þyrfti að vaða eins og nú er, því áin er straumhörð og oft nokkuð vatnsmikil og ekki góð að vaða sökum stórgrýtis nema á fjöru þar sem hún dreifist. Plankana mætti setja á að vori og taka af á haustin svo þá tæki ekki af og ræki burt í vorleysingum.

Þegar við erum búin að þusa um samgöngubæturnar og vinda sokkana okkar höldum við á inn bakkana, þar sem vegurinn er nú ekki lengur fyrrverandi bílvegur heldur reiðgata. Þar sem við þokumst þarna inn eftir og sjáum fram Leirufjörðinn kemur fram í hugann vísa, sem ort var um Leirufjörð:

„Ljótur ertu Leirufjörður
lízt mér illa á þig.
Að þú sért af guði gjörður
gengur yfir mig.”

Annar var sá, sem ekki leizt á Leirufjörð, en það var Ólafur Olavíus: „Ekkert skemmtilegt er að segja um Leirufjörð. Þetta er lítill afkimi, 1 míla á lengd og ¾ mílu á breidd, og liggur til SA. Í fyrsta lagi er hann þakinn snjó nærri allt árið, í öðru lagi gengur andstyggilegur jökull ofan í hann, og falla undan honum vatnsmiklar, mjólkurlitar ár.“

Það er misjafn smekkur manna og ég held að fæstir, sem nú fara um Leirufjörð, séu sama sinnis og þessir tveir. Kjarri vaxnar hlíðar og blómgróður setja mikinn svip á landið og eru skemmtileg andstæða við jökulinn, sem teygir sig niður eftir hlíðinni fyrir botni dalsins. Áin, sem fellur úr jöklinum, hefur borið fram mikinn aur og hálffyllt fjörðinn. Þessir aurar eru nú að mestu uppgrónir, surns staðar þurrar malareyrar, annars staðar eru mýraflákar, þar sem fyllzt hefur upp í gamla farvegi árinnar. Þarna kvíslast áin nú um rennisléttar eyrar og móleitt jökulvatnið mætir tæru vatni lækja úr hlíðunum.

Víða á eyrunum finnast líparít- og flikrubergsmolar, sem áin hefur borið með sér undan jöklinum. Má því gera ráð fyrir, að eldstöðin nái inn undir jökulinn.

Yfir Leirufjörð er um tvær leiðir að ræða. Önnur er sú, að vaða jökulána, sem af heimamönnum var oftast nefnd Fjörðurinn, lengra inni á eyrunum þar sem ekki gætir flóða. Hin leiðin er að fara á fjöru um leirurnar í botni fjarðarins. Við förum þá leið og leggjum af stað frá lítilli eyri, sem heitir Sandeyri. Til að finna hana er gott að taka mið af töngum, sem skaga út í fjörðinn hins vegar. Þegar Kjósarnúpinn ber beint upp af þeim er Sandeyrin ekki langt undan. Síðan göngum við sem leið liggur yfir í tangana, en varast skyldu menn þó sandbleytu, sem oft gætir á leirunum. Rétt ofan og innan tanganna stendur fallegur sumarbústaður á fögrum stað í skógarhvammi. Hér er freistandi að leggja af sér byrðarnar og arka fram að steininum, sem Þorvaldur Thoroddsen klappaði stafi sína í er hann var hér á ferð árið 1887. Og við látum undan freistingunni.

Það eru á að gizka 3,5 km fram að Jökulgarði og á leiðinni komum við að Leiru, tóttum bæjar, sem stóð í hlíðarslakka austan megin í dalnum, rétt upp af áreyrunum. Þar hefur verið plantað barrtrjám, sem ekki virðist vegna eins vel í baráttunni við náttúruna og birkinu, sem vex hér víða. Alveg undir hlíðarrótum rennur silfurtær á, Landá, og við fylgjum henni fram undir Jökulgarð. Hann nær svo til þvert yfir dalinn, en er skorinn sundur af Firðinum nær vesturhlíðinni. Þar fyrir handan má sjá gil allmikið, nefnt Öldugil, og var þar eitt sinn bær, sem sagður er hafa lagzt eyði sökum ágangs jökulsins. En við göngum upp á ölduna. Þar fyrir framan má sjá þrjá aðra jökulgarða, sem þó eru minni þeim, sem við stöndum á.
Á móts við þriðju jökulölduna, niður undan fossi, sem þar fellur fram af klettabelti í hlíðinni er staðurinn, sem Þorvaldur Thoroddsen merkti. „Til þess seinni tíma menn geti séð hreyfingu jökulsins, þá klappaði ég krossmark í klöpp 90 skref frá jökulröndinni að norðanverðu. Þar eru ísfágaðar blágrýtisklappir nálægt jöklinum og engar aðrar klappir nálægt þeim megin.“ Sjá má að jökullinn hefur hopað mjög, því nú eru ekki aðeins 90 skref að honum, heldur 90 sinnum 90.

Þegar við komum til baka að farangri okkar er næsti áfangi Kjósarháls, lágur háls þar sem skiptast á klapparholt, birkirunnar og flóar miklir. Ekki er gatan auðséð fyrr en halla tekur undan fæti niður í Kjós, en þá er ekki mjög gott að ganga hana, því hún er niðurgrafin í blautan móajarðveg. Svo er háttað leiðinni fram hjá rústum Kjósarbæjar og allt út undir Kjósarhóla, en svo heitir jarðfall það, sem er niður undan Kjósarnúpi. Frá Kjósarhólum liggur gatan uppi á bökkum ofan fjörunnar unz komið er Kjósarhrygg, en þá er haldið niður í fjöru. Ekki er gatan þó greið því gróðurinn hefur lagt hana að mestu undir sig og bæði hylur okkur götuna og þyngir göngu. Sumum kynni því að finnast eins létt að halda sig við fjöruna alla leið. Kjósarhryggur er nokkuð miðja vegu milli hólanna og Hrafnfjarðareyrar, þar sem göngu okkar lýkur í dag.

Hrafnfjarðareyri á sess í sögunni meiri en margir aðrir staðir hérum slóðir. Um miðja 18. öld bjuggu á Hrafnfjarðareyri þau Halla Jónsdóttir og Eyvindur Jónsson, sem oftast er kallaður Fjalla- Eyvindur. Hann er líka sagður vera grafinn þar í túni. Er upphlaðið og merkt með krossi og áklappaðri hellu, sem sagt er vera leiði hans.

Á þessum slóðum gerðust einnig atburðir þeir, er greint er frá í Fóstbræðra sögu (sem og í Gerplu Laxness), er þeir fóstbræður Þorgeir Hávarsson og Þormóður Kolbrúnarskáld komu á bæ Sigurfljóðar á Hrafnfjarðareyri og hún eggjaði þá til víga feðganna á Sviðinsstöðum. Sviðinsstaðir sem nú eru nefndir Sviðningsstaðir, stóðu hinum megin fjarðar, nokkru utar, í snarbrattri hlíð Lónanúps. Ótrúlegt bæjarstæði.

Hrafnfjarðareyri var í alfaraleið og fóru fáir eða engir svo þar um, að þeir kæmu ekki við og þægju góðgerðir. Búendur á Hrafnfjarðareyri höfðu lítt fé milli handa og búið þótti fremur smátt en því meiri var gestrisni þeirra. Hef ég orð kunnugra fyrir því að sveitunga þeirra hafi oft furðað á því hve mikið mátti veita af nær engu. En minningu Eyvindar og Höllu hélt fólk á Hrafnfjarðareyri í heiðri og taldi þau hafa sér margt gott gert.

Nú eru á Hrafnfjarðareyri aðeins tóttir og má þar sjá skorsteinsbrot, en fátt er þar heillegt. Rétt innan við bæjarlækinn er kallaður Fljóðuhóll og á hin forna húsfreyja að vera heygð þar. Upp af eyrinni er Bæjardalur, hvilft nokkuð hátt uppi í fjallinu, og neðst í honum sérkennilegir klettahnjúkar.

Ýmsir draugar voru á ferðum um Strandir og Jökulfjörðu, m.a. Mópeys og Skupla. En því minnist ég á þetta hér, að á Hrafnfjarðareyri var mér fyrst sagt frá þeim Mópeys og Skuplu, en þau voru bæði þannig, að þau fylgdu ákveðnum ættum og gerðu vart við sig skömmu fyrir komu einhvers þeirra ættmenna. Mópeys var unglingsdrengur, klæddur mórauðri peysu, hrekkjóttur og spellinn. Skupla var nokkuð á svipuðu reki og sögð hafa verið vakin upp nýskilin við og ekki fullstirðnuð, en þess háttar drauga ku vera hvað erfiðast að kveða niður. Gerði Skupla marga glettu, en var fremur meinlaus þó. Og þar sem nú er hvort tveggja, að þessar ættir eru farnar til annarra héraða, og einnig er skyldleikinn við sameiginlega forforeldra, sem draugarnir áttu sökótt við, orðinn svo langsóttur, þá munu Mópeys og Skupla vera orðin dauf núna svo ekki er þess að vænta að við sjáum þau. Því ættum við að geta átt góðar svefnfarir í nótt á Hrafnfjarðareyri.

Til baka

Myndasafn

Í grennd

Hornstrandir
Hornstrandir Vestfjörðum Nyrsti hluti Vestfjarða er Hornstrandir, sem markast af Geirólfsgnúpi í austri og nú eru vesturmörkin oftast miðuð við Rit v…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )