Hafnarnes er eyðibyggð austarlega á suðurströnd Fáskrúðsfjarðar. Búsetan þar byggðist á útgerð og þorp myndaðist á seinni hluta 19. aldar á jörðinni Gvendarnes, sem er í eyði. Flestir urðu íbúar Hafnarness 105 árið 1907 og þarna undi fólkið hag sínum vel fram í síðari heimstyrjöld. Þá fór að halla undan fæti og plássið var komið í eyði árið 1970.
Vitinn var byggður árið 1912. Franski spítalinn, sem var byggður á Búðum, en fluttur til Hafnarness, var nýttur sem húsnæði fyrir 5 fjölskyldur, samkomuhús og barnaskóli um tíma. Árið 2011 var húsið flutt aftur til Búða, þar sem það var endurnýjað fyrir tilstuðlan frönsku stjórnarinnar, sem styrkti verkið.