Gamli Baukur:
Gamla sýslumannshúsið á Húsavík stóð uppi með Búðarárgilinu. Það var reist í kringum 1843 í sama stíl og dönsku verzlunarhúsin með háum þekjum en var minna og óásjárlegra en þau. Þar bjuggu sýslumenn og skammt frá húsinu var reist fangahús. Benedikt Sveinsson vildi ekki búa í húsinu, þegar hann fékk sýsluna og reisti sér hús á Héðinshöfða. Sveinn Magnússon frá Víkingavatni í Kelduhverfi keypti gamla sýslumannshúsið 1884 og hóf rekstur greiðasölu og gistihúss. Síðan var húsið kallað vertshúsið eða Baukur og Sveinn var oftast kallaður Sveinn víkingur eða Sveinn vert. Hann var faðir Benedikts Sveinssonar yngra, alþingismanns og föður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.
Uppruni Bauksnafnsins er ekki með öllu ljós, en Sveinn hóf veitingar á brennivíni í staupum og sveitakörlum fannst það skrítið tiltæki. Þannig gerðist Sveinn einskonar forgöngumaður vínmenningar í héraðinu, þar sem menn drukku venjulega af stút. Í kringum aldamótin voru Þingeyingar almennt meiri hófsemdarmenn á áfengi en aðrir án mikillar stúkustarfsemi. Sveinn byggði annað og minna hús í sama stíl við hlið sýslumannshússins sem svefnskála til gistingar.
Erlendum aðkomumönnum fannst lítið til þessarar gistiaðstöðu koma en héraðsmönnum fannst Baukurinn skemmtilegur samkomustaður, þegar þeir komu í kaupstaðinn og enn þá eimir eftir af sögum um ánægjulegar stundir þar á kvöldin yfir vínglösum. Þar gilti reglan um að hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta. Sveinn var hrókur alls fagnaðar, stjórnsamur samt og ákveðinn og neitaði að afgreiða þá, sem honum fannst vera orðnir nógu hífaðir. Hann var stór og sterkur og allir urðu að hlíða honum. Hann var góðmenni og vildi öllum vel, heiðarlegur, hjálpsamur og mikill persónuleiki. Kona hans, Kristjana Sigurðardóttir, frá Naustavík undir Bakranga vestan Skjálfanda var af Illugastaðaætt.
Baukurinn var nokkurs konar skemmtanamistöð Þingeyinga í rúmlega aldarfjórðung. Sveinn var hliðhollur verzlunarstjóra dönsku fastaverzlunarinnar og vinur Benedikts Sveinssonar sýslumanns. Allir áttu hæli á Bauknum og hann gerði ekki upp á milli verzlunarmanna eða kaupfélagsmanna. Sveinn andaðist fyrir aldur fram 1894 og Kristjana hélt rekstrinum áfram til 1904, þegar hún dó. Þá var stúkuandinn kominn yfir Húsvíkinga og áframhaldandi vínveitingaleyfið fékkst ekki endurnýjað. Þá lagðist veitingareksturinn niður.
Mikið var ort og sungið á Bauknum og hirðskáldið var Sigurbjörn á Fótaskinni (heitir nú Helluland á Múlatorfunni í Aðaldal). Honum var ekki skammtað, en nágranni hans úr Aðaldalnum, Jónatan, sem var dökkur yfirlitum og ofsafenginn við vín, fékk ekki meira en góðu hófi gegndi af veigunum. Tvær gerðir staupa voru notaðar, lítil, sem nefndust pínur, og stór. Jónantan þrábað eitt sinn Svein og sagði: „Eina pínu, eina pínu, Sveinn”, og þá var þessi visa ort:
Vertu Sveinn við seggi jafn,
sittu á skapi þínu.
Hvítum svan og svörtum Hrafn
seldu í eina pínu.
Fleiri vísur fuku um sal Bauksins og nokkrar þeirra má sjá innrammaðar á veggjum núverandi Bauks, sem hinir dugmiklu Norðursiglingarmenn byggðu í nákvæmlega sömu mynd og upprunalega Baukinn fyrir afgreiðslu sína en aðallega þó veitingarekstur. Gamli Baukur brann til kaldra kola 1960.
Baukurinn er nú (2022) eingöngu notaður undir veitingastarfsemina. Norðursigling er komin í rýmra húsnæði með skrifstofu og sölubás á bak við hann.
Gamli Baukur stendur í hjarta Húsavíkurbæjar með útsýni yfir sjóinn og höfnina.
Innandyra er Baukurinn hlýlegur, sjórekinn viðurinn kallast á við ýmsa muni tengda sjósókn og gömul gildi eru í hávegum höfð, gamlir skipakastarar og koparluktir skapa þægilega og rólega stemningu og fyrir utan gluggann vagga bátarnir í höfninni. Á Gamla Bauk er rekinn metnaðarfullur veitingastaður þar sem matseðillinn samanstendur af réttum úr ýmsum áttum og er hráefnið ávallt fengið brakandi ferskt frá birgjum úr nágrenninu. Bjór- og vínseðlar eru fjölbreyttir og starfsfólkið boðið og búið til ráðlegginga varðandi val á vínum með mat. Kaffidrykkir fást í úrvali ásamt eftirréttum. Á kvöldin skapast þægileg kráarstemning á Bauknum. Mikið úrval drykkja prýðir barinn og hægt er að panta sér smárétti eða grípa í spil. Um helgar dunar dansinn á Skipasmíðastöðinni, tónleikar, böll og diskótek meðan rólegri gestir geta haft það náðugra á Gamla Bauk yfir drykk.
Heimild: Gamli Baukur
Gamli Baukur
Hafnarsvæðinu
640 Húsavík
Tel.: 464-2442