Víðistaðakirkja er í Víðistaðaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Víðistaðaprestakall var stofnað árið 1977. Fyrst var guðsþjónustuhald í Hafnarfjarðarkirkju en síðar í kapellu í Hrafnistu. Var sú kapella vígð af biskupi 27. nóv. 1977. Var fljótlega farið að huga að kirkjubyggingu. Úthlutaði bærinn söfnuðinum lóð í landi Víðistaða fyrir kirkju og safnaðarheimili. Var kirkjan teiknuð af Óla G. H. Þórðarsyni, arkitekt.
Fyrsta skóflustungan var tekin 23. apríl 1981. Kirkjan var vígð 28. febrúar 1988. Er gert ráð fyrir að um 600 manns geti rúmast í sætum kirkjunnar. Athyglisverð er listskreyting eftir Baltasar Semper, freskumyndir.