Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Veiðisögur

Veiði á Íslandi

Menn eru alltaf að lenda í skrítnum uppákomum. Missa fiska fyrir einskæran klaufagang eða óheppni. Sérstaklega komast slíkar sögur á flug þegar skilyrði til veiða fara versnandi og hver fiskur sem tekur er orðinn dýrmætari en orð fá lýst.

Þetta með stórlaxana í Hólmsfossi
Lesendur okkar hafa iðulega sent okkur skemmtilegar veiðisögur og þessi barst reyndar svo snemma árs að hún er frá 2006. Hún var því ekki í síðustu árbók, og af því að hún er skemmtileg þá látum við hana fjúka hér með, enda verður góð veiðisaga aldrei of gömul. Þessi lesandi kaus þó nafnleynd til þess að hlífa mannorðinu! En hér kemur skemmtileg frásögn af ævintýri í Stóru Laxá í Hreppum:

“Það var um miðjan ágúst að ég vaknaði á miðvikudegi með veiðisting í maganum. Ég var að fara í tveggja daga túr upp í Stóru Laxá svæði 4. Þetta var í annað skipti um sumarið sem ég fór á svæðið. Það hafði verið gaman eins og alltaf í fyrra skiptið þó að veiðin hafi nú svo sem ekki verið merkileg. En það vill nú stundum vera þannig þegar maður reynir að egna fyrir laxinn í Stóru.

Við komum í blíðskaparveðri og hittum góðan hóp manna í skálanum og fengum okkur hressingu. Eftir nokkrar hressingar var farið í háttinn og tugir laxa veiddir í svefni eins og alltaf á sumrin.

Við höfðum dregið svæði 3, það er frá Hólmsfossi og niður að Flatabúð. Fínt veiðisvæði og óvenjulega lítið labb miðað við það sem á að venjast þarna uppfrá. Það hentaði okkur vel þar sem við höfðum verið mjög hressir um kvöldið. Við byrjuðum í Hólmsfossi svona til málamynda. Við notum afar sjaldan maðk, en ég vil nú taka það fram að við höfum ekkert á móti honum, við erum bara svo skelfilega lélegir að veiða á hann að við gætum alveg eins beitt blómum, sem við höfum nú reyndar gert en það er nú önnur saga.

Þar sem að ég er eftirbátur veiðifélaga míns sem ég er alltaf með á stöng þá fæ ég vanalega að byrja, sem gerir það náttúrulega ennþá meira óþolandi þegar hann nær í fisk á staðnum sem ég tel mig vera búin að fullreyna, en svona er þetta með veiðina sumir eru einfaldlega veiðnari(heppnari) en aðrir. Ég opnaði fluguboxið og kíkti á gripina. Þar sem maður hefur nú farið ansi oft upp í Stóru-Laxá þá veit maður að tommur og hálftommur eru yfirleitt það sem blífur þarna uppfrá en ég leit í boxið og staldraði við hjá Kröflu, stærð 12, ekki hentugt val í hvítfryssið en ég lét mig hafa það. Kastaði flugunni upp í fossinn til þess að ná að kafsigla henni niður í dýpið. Og hvað haldiði, flugan er gersamlega nelgd. Ég missi næstum stöngina og þvílíkur kraftur. Veiðifélaginn hoppar og skoppar, þetta er rosalegt, stöngin kengbogin og ég segi eins og fagmaður að þessi sé örugglega yfir 20pund. Ekki það að ég hafi haft nokkra hugmynd um það, enda aldrei fengið slíkan lax, vakandi allavega.

Ég tek fast á honum, eða eins og ég þori og nú fara efasemdirnar að leita upp í hugann, hversu góður var þessi taumur, hversu vel er línan splæst saman, þolir stöngin þetta? Hvað get ég gert ef hann fer af stað? Við félagarnir bjuggum til plan, hvert skyldi hlaupa, hvað skyldi gera ef hann færi af stað. En allt kom fyrir ekki, hann hreyfði sig ekki, bara rétt svamlaði fram og til baka.

Þegar leið á viðureignina rifjaðist upp fyrir mér veiðisaga sem hafði hent einn veiðifélagann fyrir nokkrum árum á nákvæmlega sama stað. Hann henti reyndar rauðum Frances upp í fossinn og flugan var nelgd. Hann var með hann í 1 og hálfan tíma áður en hann tók á rás niður ána og hann sleit úr honum þegar hann þorði ekki að fara undir tré eitt sem er þarna fyrir neðan klaufina. Tré sem margir hafa séð. Ég mat ástandið, horfði á tréið úr fjarska, ég ætlaði nú aldeilis að láta mig vaða undir tréð ef ég myndi lenda í þeim aðstæðum, ég hugsa að ég myndi láta mig vaða í ána ef ég myndi þannig ná að landa 20 punda fiski.

Tíminn leið og myndir voru teknar í tugatali. Ég leyfði félaganum að taka í, leyfa honum að finna hvernig væri að vera með svona fisk á, hann dauðöfundaði mig. Rúmur klukkutími var liðinn og fiskurinn hafði ekki hreyft sig neitt að viti. Ég ákvað að núna væri komin tími til að gera eitthvað í málunum, enda var hendin hreinlega að detta af mér. Hugurinn reikaði og fletti í gegnum greinar í Veiðimanninum þar sem menn sögðu hetjusögur af sér og stórfiskum og hvernig þeir báru sig að. Grýta hylinn, það var svarið, þannig myndi ég fá hann á hreyfingu, það hafði ég lesið einhverstaðar. Ég hreinlega skipa félaganum að henda steini í fossinn, byrja smátt og sjá hvað gerðist. Ekkert gerðist, stærri stein takk, og svo stærri steinn, ég tek fastar á laxinum og viti menn hann fer á hreyfingu en upp ána. Hann stefnir á fossinn ég tek fastar á honum, ég hafði aldrei heyrt um að lax stykki upp foss með fluguna fasta á kjaftinum, hvað var að gerast? Þar að auki leist mér ekki á vígstöðu mína ef hann myndi fara upp fossinn því þar er djúpur og hægur pyttur sem endar í þverhníptu bergi sitthvoru megin við ána og ekki nokkur leið að gera neitt nema að synda á eftir honum og þar sem ég er maður þá áleit ég mig ekki eiga neinn möguleika á að vinna laxinn í sundkeppni.

En hvað gat ég gert? Ég tek fastar en áfram stefnir laxinn upp ána og er alveg kominn við fossinn, ég gef þá smá slaka og fiskurinn gefur eftir og fer til baka. Ég tek síðan á honum í seinasta skiptið og fiskurinn fer alveg upp fossinn, þangað til að ég fæ fluguna í andlitið. Þá var blótað og blótað, öskrað og öskrað. Eftir að ég áttaði mig á hlutunum, áttaði ég mig á því að ég hafði verið að glíma við vatnið allan tíman. Fiskurinn var engin fiskur, fiskurinn hafði verið línan sem hafði verið í gríðarmiklum straumi og þar af leiðandi alltaf þegar ég gaf eftir þá fór línan niður ána og þegar ég var ákveðin í að taka almennilega á honum þá endaði það með því að ég tók alla línuna úr áni og flugan losnaði.

Ég get ekki sagt að ég hafi hlegið dátt og ekki veiðifélaginn sem hefur verið að leiðbeina mönnum í Norðurá og sagðist aldrei hafa tekið á öðrum eins laxi. Hugurinn reikaði í átt að myndavélinni og öllum bjánamyndunum sem voru til af mér í glímu við strauminn, skælbrosandi með þumalinn upp. Ég ætlaði nú aldeilis að næla mér í filmuna og týna henni. Nú voru góð ráð dýr, myndi ég segja einhverjum frá þessu? Við ræddum þetta fram og tilbaka og ákváðum loks að af þessu myndi enginn frétta, og aftur reikaði hugurinn, en þá til veiðfélagans sem hafði lent í alveg þessu sama en hann átti að hafa misst hann af því að hann gat ekki farið undir smá hríslu og þessi maður er veiðigráðugur með meiru. Gæti verið möguleiki að hann hafi lent í því nákvæmlega sama en ákveðið að ljúgja því að hann hefði séð laxinn og hann var víst næstum 30 pund? Ég leyfi ykkur að ákveða hvort þið trúið honum eða ekki, ég geri það allavega ekki lengur.

Stöngin bara hvarf og hefur ekki sést síðan

Við vorum að spjalla við Birgi Sumarliðason, rit/vefstjóra nat.is í vikunni. Hann er mikill stangaveiðimaður og hefur verið á silungsveiðum hér og þar síðustu vikur. Hann sagði okkur skemmtilega veiðisögu úr Fellsendavatni, sem liggur nærri Þórisvatni. Í Fellsendavatni er vænn urriði og sögur hafa verið sagðar af miklum boltum.
Sem sagt, Birgir var þarna við annan mann og var rólegt yfir öllu saman. Eftir að hafa reynt eitthvað með flugu, gerðust menn latir, græjuðu beitu og grýttu út. Var síðan sest í góða veðrinu og kaffið dregið fram. Um stund sátu þeir þarna og ræddu um daginn og veginn, en skyndilega var friðurinn úti, er mikill smellur hvað við og stöng félaga hans sviptist á loft og flaug út í vatnið. Var hún þó kirfilega skorðuð með grjóti. Og það sem meira var, stöngina hafði enga viðdvöl á grynningunum við landið, heldur þaut út í vatn, en að sögn Birgis snardýpkar vatnið ca 4 til 5 metrum utar þar sem þeir sátu. Ofan í dýpið þaut stöngin og hefur ekki sést síðan!

Ég hef heyrt sögur af boltafiskum í þessu vatni, en þeir hafa þá verið 5 til 6 pund. Þetta er sprækir og feitir urriðar þarna, en spurning hvort að slíkur fiskur ræður við svona eða var þetta e.t.v. enn stærri fiskur, maður fær aldrei að vita það,” sagði Birgir.

Sjóbleikjur í baðkeri
Fregnir herma síðustu árin að sjóbleikjan sé í niðursveiflu og það umtalsverðri. Þetta er óumdeilt hverjar sem skýringarnar kunna að vera. En sums staðar er sjóbleikjan afar mikilvægur fiskur og víða á austan- norðan- og vestanverðu landinu hefur hún ráðið ríkjum í mörgum ám. Ein slík er norður á Ströndum og hér kemur lítil saga sem varðar ástandið í heild sinni.

Veiðimaður einn kom að máli við okkur. Hann vildi ekki láta nafns getið og vildi alls ekki nefna ána. Taldi það vera í verndarskini fyrir hana og munu menn skilja það betur þegar lesið er lengra. Lax er í mörgum ám á Ströndum og sjóbleikja í þeim enn fleiri. Margar eru ár þessar vatnslitlar og verða algjörir ræflar í löngum þurrkum eins og voru á þessu merka veiðisumri. Best veiðist í þeim þegar rigningarskot hleypa þeim upp.

Fyrir skemmstu kom okkar maður að á sinni og hefur hann þekkt hana lengi og farið til veiða í henni árlega. Honum leist illa á ána við komuna. Taldi sig aldrei hafa séð hana jafn vatnslitla. Þannig stóð á, að staða sjávarfalla var hagstæð til að líta fyrst á ósinn. Þar var líf og fjör og á næstu 3-4 klst landaði hann 30 sjóbleikjum og missti líka fjöldan allan. Þetta voru mest fiskar á bilinu 1,5 til 2 pund. Af þessum 30 fiskum, hirti okkar maður 12 en sleppti hinum. Þegar fór að hægjast um í ósnum varð honum litið upp með á og leist þannig á hana að fiskur myndi varla geta gengið upp ána og því væri svona fjörugt við sjávarmálið. Hann langaði þó til að kíkja á einn stóran og góðkunnan hyl ofar í ánni, fyrst hann var kominn norður á annað borð.

Hann ók því upp dalinn og sá sér til hryllings að áin rann vart milli hylja. Og þegar á leiðarenda var komið blasti hylurinn góði við og var bara eins og stórt baðker. Það rann hvorki í hylinn eða úr honum, en í því sem eftir var af vatninu var risatorfa af stórri hrygningarbleikju, einhvers staðar á milli 100 og 200 stykki, sem dormuðu í súrefnissnauðum pyttinum.

En nú skilja lesendur hvers vegna nöfn veiðimanns og árinnar eru ekki nefnd. Það er hægt að sjá í hendi sér að á einni dagstund væri hægt að uppræta allan hrygningarstofn þessarar litlu sjóbleikjuár. Okkar maður kastaði ekki í baðkerið heldur hélt hugsi heim á leið og eiginlega sá eftir að hafa drepið 12 bleikjur í sjávarstrengjunum.

Krókodíll rotaður með 9 járni, tók Phesant tail

Það er til orðatiltæki sem segir að fleira sé fiskur en lax, en hér er komið tilvik sem segir að fleira sé bráð en lax. Reyndar var ekki egnt fyrir lax, veiðimaður með Phesant tail og fimmu, en aflinn var heldur óvæntur og jafnvel vígalegur!

Guðjón Guðjónsson sendi okkur eftirfarandi pistil og meðfylgjandi mynd og er ljóst að menn geta átt á ýmsu von þegar agninu er kastað út í straumin bláa eða vatnið tæra. Guðjón segir: “þennann krókódíl veiddi ég á Flórída nú í sumar með flugustöng, Sage fimmu á Phesant tail no 12. Veit ekki hvort hann tók eða hvort hann húkkaðist, en flugan var í kjaftinum, og var hann rotaður með 9 járni, væntanlega ekki hefðbundnum rotara. Datt í hug að senda ykkur þessar myndir , nokkuð skondin tilviljunn.”

Það er orðinn fjölbreyttur listinn yfir annað en hreistruðu íbúa undirdjúpanna sem menn hafa fengið á fluguna sína, má nefna folöld, mannýg naut, kríur, æðarfugla, dílaskarfa, heimilsketti, sveitahunda, veiðifélagana, girðingarstaura, hríslur af öllum toga, raflínur, símalínur, minka omfl. Nú má bæta krókodíl við listann.

Menn dóu ekki ráðalausir

Ritstjóri VoV var staddur á góðu laxveiðiheimili fyrir skemmstu og flugu margar veiðisögur. Ein bar af þeim öllum og er þá mikið sagt, því þarna var samankomið fólk sem hefur mikið veitt og víða og svo áratugum skiptir. Þetta er einfaldlega ein skemmtilegasta veiðisaga sem undiritaður hefur lengi heyrt.

Tilgreindur var laxveiðimaður einn sem þótti mikil aflakló. Hann er látinn og við erum ekkert að nefna hann. En þegar viðkomandi var upp á sitt allra besta þá var það sannarlega lenska að veiða og veiða mikið, því hér var um miklar tekjur að ræða. Menn voru búnir að veiða upp í veiðileyfið eftir að hafa landað 4 til vænum löxum og allt umfram það var hreinn bónus, upp í næstu veiðileyfi og síðan drjúgar tekjur þar fyrir utan.

Nýr lax var mikil munaðarvara í þá daga og dýr eftir því. Þeir sem eru ríflega miðaldra og þaðan af eldri muna eftir því þegar Melabúðin var alltaf með fyrstu vorlaxana úr netunum í Hvítá í Borgarfirði. Netin voru lögð í Hvítá strax 20.mai og það brást ekki að það veiddist meira eða minna. Stundum lítið, stundum mikið, en alltaf eitthvað. Mai-laxinn úr Hvítá var dýrastur, en framan af sumri var verðið einnig afar hátt og síðan dró úr eftir því sem nær leið haustinu. Síðsumars voru menn farnir að lenda í lækkandi verði og jafnvel tregðu kaupmanna til að kaupa leginn lax af þeim.

En þá var að deyja ekki ráðalaus. Þegar viðkomandi veiðimaður varð þess áskynja af kaupmanni sínum að hann væri tregur í legna laxinn og ekki dugði að tala um hversu æðislegur hann væri reyktur, fann okkar maður það út að með því að vefja legna laxinum í hvítt lak þá lýstist hann mjög á litinn. Um tíma tókst honum að koma út laxinum með þessum hætti, þ.e.a.s. að láta líta svo út að hann væri miklu nýgengnari úr sjó en hann raunverulega var.

Var kaupmaðurinn sem sagt farinn að sjá í gegnum þetta og hafði orð á því að “næsta ár” þýddi ekkert að koma og bjóða upp á (lak)leginn lax.

En þá er enn að deyja ekki ráðalaus. Næsta vor greip okkar maður til sinna ráða og skrapaði sjólúsinni af vor- og snemmsumarslöxunum sínum og frysti þær. Þegar haustaði og laxinn gerðist leginn, tók hann frosna plastpokana með sér í veiðitúrana og raðaði síðan lúsunum á legna laxana eftir að hafa vafið þeim inn í hvíta lakið. Herma fregnir að þessi brella hafi virkað eitt sumar, en síðan ekki söguna meir!

Þessi veiðikappi veiddi mikið á flugu, en notaði líka mikið maðkinn. Flugan þótti honum þó skemmtilegust. Eitt sinn ætluðu nokkrir félagar hans að hrekkja hann og földu öll fluguboxin fyrir eina vaktina. Í vaktarlok kom kappinn með sína venjulegu hrúgu og bókaði allt á Blue Charm þó að engin hafi hann haft fluguboxin. Skemmtu menn sér vel yfir þessu.

Þessi saga rifjaði upp fyrir ritstjóra uppákomu sem hann varð vitni að við Grímsá snemma í júlí 1968, þá aðeins 13 ára gamall. Þá var Grímsá leigð í bútum og karl faðir minn þekkti leigutaka “Hestsveiða”, sem innihéldu m.a. Strengina, Laxfoss, Svartastokk og Lambaklettsfljót. Gestur föður míns var að veiðum í Myrkhyl. Mikill lax var í hylnum og margir þeirra verulega stórir, ekkert í líkingu við það sem sést í ánni í dag.

En það var sól og lítið vatn og laxinn ekki að taka. Gesturinn vildi ekki una því og kom í ljós að hann var vanur að klóra sig útúr fiskleysi. Hann tók sem sagt fram húkkgræjurnar og var von bráðar búinn að hífa einn 5 punda upp á klappirnar til sín.

En það var ekki allt. Uppúr vasanum dró hann smyrslbauk og smurði í kringum svöðusárið á baki laxins. Ekki veit ég hvaða gums það var, en að því loknu sótti hann í vasa sinn kveikjara og bar eld að sárinu. Og þetta voru töfrar: Sárið lokaðist þannig að lítil sem engin merki sáust á búk laxins! Hann mátti eiga það, að við svo búið hætti gesturinn veiðum.

DULARFULL AÐKOMA AÐ MORGNI

Tveir félagar voru í Hlíðarvatni síðast liðið vor. Komu síðdegis til að veiða fram á kvöld og ætluðu síðan að veiða fram eftir næsta degi. Veður var kalsamt framan af og veiði treg, en samt náðu þeir sinni bleikjunni hvor fyrir nóttina. Slægðu þeir fiska sína og að ráðum annars þeirra hengu þeir slógpokann á krók við geymsluskúrinn með vaskinum til frekari notkunar daginn eftir…..sem sagt hann vonaðist til þess að bleikjurnar yrðu fleiri!

Það lygndi um kvöldið og það gerðist kyrrlátt og fagurt um að litast. Félagarnir sátu úti á verönd og grilluðu sér eitthvað gómsætt og supu á bjór fram í vornóttina og voru aðeins truflaðir af branduglu sem sveif hljóðlega yfir höfuð þeirra í náttleysinu.

Eftir nokkra setu tóku menn á sig náðir. Báðir áttu nokkrar bjórdósir eftir í pokum og fór annar þeirra með sinn poka inn í hús, en hinn geymdi sinn poka á bekk við húsið. Þar í voru þrjár litlar Carlsberg.

Morguninn eftir voru menn snemma á ferli. Sá er átti bjórpokann úti á bekk var fyrri til að fara útúr húsi og fannst honum strax eitthvað vera bogið við sviðið. Áttaði sig ekki alveg strax, en jú, pokinn hafði verið færður úr stað. Hann var allur skítugur og úr honum hafði lekið…..bjór!

Við nánari skoðun kom í ljós að ein dósin í pokanum var með stungugat á miðjunni og var innihaldið um það bil hálfnað. Þetta var með ólíkindum. Hver eða hvað hafði verið hér á ferðinni. Fugl eða ferfætlingur? Félögunum þóttu allir kostir langsóttir og felldu niður umræðuna, en tóku hana þó hvað eftir annað upp á nýjan leik er leið á morguninn, enda áleitin vangavelta.

Það fór að blása afar hressilega eftir því leið á morguninn og tóku menn miðdegishléið með fyrra fallinu, gersamlega útkeyrðir eftir barninginn við rokið. En er ekin var heimreiðin að veiðihúsinu vippuðu sér tveir hrafnar frá geysmluskúrnum og flögruðu gargandi á brott. Annar raunar tyllti sér á þak veiðikofans, krunkaði þar fremur reiðilega áður en hann lét sig hverfa. Þótti mönnum nú heldur betur berast böndin að Krúnki, en þeir svörtu voru þó ekkert áberandi þunnir eftir bjórdrykkjuna.

Var nú farið að vaskinum til að líta eftir verksummerkjum og þau blöstu strax við: Slógið hafði verið í laxaslöngu sem krækt var, eins og fram var komið, á krók á skúrveggnum. Krummi var búinn að lyfta pokanum af króknum, draga hann upp á aðgerðarborðið og sturta úr honum ofan í vaskinn. Þarna höfðu hrafnarnir tveir síðan setið að krásunum og étið allt upp til agna uppúr vaskinum, nema allar svörtu blóðlifrurnar, þær höfðu þeir einhverra hluta ekki viljað, en í stað þess að skilja þær eftir ofaní vaskinum þannig að félagarnir gætu einfaldlega skolað þeim niður, höfðu þeir þeytt þeim uppúr vaskinum og út um allan viðarpallinn sem staðið er á við aðgerðina. Var þetta verulegur sóðaskapur og kostaði talsverða hreingerningu.

Í holli einu í Vatnsdalsá hefur lengi verið einn veiðikappi sem hefur haft verulega sérstöðu í hópnum. Hann hefur jafnan verið á silungsveiðum með tilheyrandi græjum á sama tíma og félagar hans hafa verið að eltast við laxinn. En sl sumar ákvað umræddur veiðimaður að taka þátt í laxaleiknum. Þessa veiðisögu fengum við hjá Pétri Péturssyni leigutaka Vatnsdalsár.

Dr. Magnús hefur verið hér að veiðum með bræðrum sýnum í mörg ár en ávalt verið á höttunum eftir sjóbleikju og birtingi. Hann hinnsvegar söðlaði um þetta árið og ákvað að gerast laxveiðimaður. Bræðurnir voru staddir við Torfhvammshyl og voru þar að setja í og landa góðum fiskum. Doktorinn hugðist fara út með tvíhendu og reyna nokkur köst. Þegar hann var um það bil að fara útí stökk líka þessi fallegi moli (eins og hann orðaði það) rétt við landið. Hann kallaði á Valla bróðir sinn, skipaði honum að koma með fimmuna sína því nú dygði ekkert nema Krókurinn og tökuvari. Hann kastaði á laxinn andstreymis og í þriðja kasti hélt hann að hann hefði fest í steini Doktorinn hristi stöngina til að reyna að losa krókinn en viti menn steinninn hristi sig á móti. Þá skellti hann bremsunni í botn og hófst þá geysilega hörð rimma og eftir tæpar 20 mínútur reyndi Hlöðver bróðir Magnúsar að að háfa laxinn. En þar sem eini háfurinn á svæðinu var í eigu Magnúsar og þar með silungaháfur var honum hreinlega skellt yfir hausinn á laxinum og hann síðan sporðtekinn. Jú, hann reyndist 96 cm.

Og Pétur sagði fleira: Nú er það ævintýrið. Þar koma við sögu Loop stöng 12,6 og nokkuð öflugur veiðimaður og Rofabakki. Veiðimaður labbar rólega en annarshugar að veiðistaðnum, fiktar eitthvað við bremsuna á mjög góðu veiðihjóli sínu og byrjar að kasta. Nær góðu kasti og viti menn hann fær svaðalega grimma töku reisir stöngina snögglega. Það söng og hvein í stöngini, allt í keng, en skyndilega kubbaðist stöngin í sundur um það bil 30 cm frá skeftinu. 20 punda taumurinn slitnaði við loopuna. Jú bremsan var í botni, hugsið þið ykkur veiðimannin, hann stóð með stangarstubb í höndunum, allur efri hlutinn farinn og hann alveg gáttaður á þessum látum. Hann spólar inn línununa og hugsar brosandi vaá getur maður nokkurn tíman lent í öðru eins aftur, Juúú það er möguleiki sama tíma að ári í Vatnsdal.

Þetta var annig að veiðimaðurinn hélt eftir 2.6 fetum en hin 10 fetin hurfu með laxinum. Enn hvað!!! 10 fetin fundust tveimur dögum seinna tveimur hyljum neðar, eða í Árnahyl. Það er svo sannarlega alltaf eitthvað óvænt að gerast í veiðinni, þess vegna eru til svo margar skrítnar og ótrúlegar sögur frá veiðimönnum.

T.d. var holl í Flekkudalsá sl sumar og veiði var léleg. Skilyrði ömurleg, hafði ekki rignt vikum saman og áin rétt að seytla milli pytta. Nokkrir útbarðir og legnir laxar í fáeinum hyljum og engin taka. Eigi að síður litu menn á þetta sem áskorun og voru duglegir við hinar ýmsu tilraunir og var allt reynt sem hæfði reglugerðum. Sem þýðir að allar útgáfur af fluguveiði voru reyndar, en án árangurs.

Nema jú, allt í einu var einn í hópnum að strippa smáflugu og rauk þá allt í einu lax af stað og negldi fluguna. Vúhúúúú….þetta var þá hægt og kappinn tók inn slakann og byrjaði að þreyta. En þetta stóð stutt, skyndilega fór taumurinn í sundur og voru átökin þó ekkert stórkarlaleg. Það hafði verið vindhnútur, ummerkin leyndu sér ekki. Og það tóku ekki fleiri laxar og hollið núllaði. Var þó skipað nauðakunnugum og flinkum veiðimönnum.

Annar var að veiða í Kjósinni um líkt leyti og þar hafði ástandið verið svipað, mikið af fiski, en lítið vatn og tökur litlar. Laxar og birtingar rétt að hoppa af og til. Menn stóðu þó vaktina og reyndu og reyndu. Loks fékk einn rosalega töku í Káranesi og var sá búinn að reyna ýmislegt. Var kominn út í tilraunastarfsemi með Beyglu á taumnum, en það er fyrst og fremst silungafluga framleidd hjá Kröflungum. Hann sá þegar stór fiskur, tveggja ára lax, reif sig allt í einu af stað á eftir strippaðri flugunni og hvolfdi sér yfir hana í vatnsskorpunni með boðaföllum. Laxinn stríkkaði á línunni, en síðan flaug flugan upp í loft. Hafði ekki náð neinu haldi. Veiðimanni var brugðið og tók til sín fluguna til að athuga að allt væri í lagi. En það reyndist ekki vera, því flugan hafði krækst upp á tauminn og stóð því á haus. Það voru því hverfandi líkur á því að þessi lax myndi nokkru sinni festa sig á þeim öngli, enda Beyglan einkrækja.

Þetta atvik minnti viðkomandi veiðimann á atvik sem hafði orðið nokkru áður í sömu á. Veiðifélagi einn hafði heimsótt hann í einn dag og fékk að reyna mest og lengst. Hann var afar duglegur og reyndi margar flugur í mörgum hyljum. Hann varð þó ekki var fyrr en þegar tíu mínútur voru eftir af veiðideginum í Stekkjarfljóti. Þá kom loks taka á stóra straumflugu af gerðinni Veiðivon. Lax kom og negldi fast, en flugan skrapp strax úr laxinum og syndi hann ekki fleiri tilburði til að taka fluguna í næstu köstum, hvað þá aðrir laxar. Sem var eins gott, því í ljós kom að öngullinn var brotinn og þar sem þetta var einkrækja þá var þetta veiða-sleppa veiðiskapur á mjög háu stigi!

AÐ KOMA EÐA FARA?

Stundum vita menn ekki hvort þeir eru að koma eða fara og á það við um stangaveiðimenn sem aðra. En stundum vita fiskarnir það ekki sjálfir og eru þá alveg úti á þekju. Birgir Sumarliðason var að veiða sjóbirting í Hvítá eystri sl vor og lenti þá í fiski sem vissi ekki hvort hann var að koma eða fara.

Birgir er inn þeirra stálheppnu manna sem eiga í Iðu og er með bústað þar á bökkunum. Eru húsin á þeim slóðum sumarparadísir og ekki spillir að eigendur þeirra hafa aðgang að veiðisvæðinum goðsagnakennda, sem þó má muna sinn fífil fegri. En Birgir hefur í gegnum árin fundið nokkra veiðistaði í Hvítá þar sem hann veiðir oft sjóbirting, bæði á vorin, sem og þegar líður á sumar og haust. Þetta eru ekki Þekktir stangaveiðistaðir og við láum honum ekki að hann vill ekki deila þessari vitneskju með okkur. Hann segir enda, að þetta séu bara smápollar og bollar og stundum sé þar ekkert að hafa og stundum sé þar fiskur.

“Ég var með tvo Norðmenn með mér og við gistum í húsinu mínu á Iðu. Það var 4 stiga gaddur um morguninn og ég ætlaði að sofa út, en þeir voru allir á iði og vildu komast í veiði. Ég lét það eftir þeim, en við létum það vera að setja saman flugustangirnar. Spúnninn varð að duga í gaddinum. Í einum pollinum sem ég veit um virtist vera fullt af fiski og þeir voru alltaf að hrifsa í, en toldu illa á, hafa tekið grant í kuldanum. Við lönduðum samt nokkrum og slepptum flestum, en hirtum þrjá sem voru særðir og tókum þá heim og grilluðum. Þetta voru svona 3 til 6 punda fiskar og eins og ég sagði, þá slepptum við þessu nánast öllu. Einn var þó eitthvað tregur í það, var alveg úti að aka, þannig að þegar ég sleppti honum, snéri hann við og strandaði sér upp í fjöru. Þetta gerði hann svo aftur og ég var að því kominn að sparka honum með illu útí aftur, en sat á mér og óð með hann lengra út í staðinn. Hann reyndi að snúa við, en ég rak stígvélið þá framan í hann og lét hann þá segjast og hvarf út í ána,” sagði Birgir

Veiðiaðferð sem dugði!

Veiði var slök í Laxá í Leirársveit í sumar, sérstaklega í ágúst og sum hollin hafa nánast verið að lepja dauðann úr skel. Það er samt talsverður fiskur í ánni, bæði lax og birtingur, en í vatnsleysi ágústmánaðar tók hann djöfullega.

En svo kom holl og veiddi heilan 21 lax! Í sjálfu sér engin stórveiði þar á ferð, en menn fundu þar upp veiðiaðferð sem fékk laxinn til að nenna að hreyfa sig. Má segja aðferðina vera einhverskonar útfærslu á andstreymisveiði. Það var ein “stöngin” sem fitjaði uppá þessu uppátæki í Miðfellsfljóti og landaði þar nokkrum löxum, endaði síðan með átta samanlagt og alls veiddust 11 í hollinu af 21 á þetta trix. Meðal persóna og leikenda í hollinu voru Jón Gunnar Ottósson, Sigurður Tómasson, Magnús Stefánsson og Hjálmar Árnason. Sannkallað framsóknarholl sem sagt. En aðferðinni var svo lýst fyrir VoV: “ Hollið á undan var með 4 fiska enda afar lítið vatn í ánni og hún erfið til veiða (svipað og víðar, t.d. Norðurá). Við náðum þó 21 laxi. Aðferðin sem dugði felst í því að kasta upp í strauminn og hamast við að draga inn. Þegar flugan er að koma að ætluðum legustað lyftum við stönginni snöggt upp og þeir NEGLDU sig á hana.

Við þetta má svo bæta skemmtilegri frásögn Gunnars Örlygssonar þingmanns D þar sem hann sagði frá því að hann hefði einmitt verið í Laxá í Leirársveit við slæmar aðstæður, en að andstreymisveidd Mýsla hefði gert allt vitlaust, einkum þó einmitt í Miðfellsfljóti. Fengu hann og veiðifélagi hans 9 stykki, 4 laxa og 5 birtinga á Mýsluna, sem eins og kunnugt er, er ein magnaðasta silungafluga landsins, en er greinilega meira en liðtæk í laxinn einnig. Ritstjóri VoV hefur dregið laxa úr Straumfjarðará á Mýslu, en þá var veitt hefðbundið með 45 gráðu kasti yfir streng og notuð flotlína. Tveimur var landað en sá þriðji lak af í fjöruborðinu.

HATTURINN SKILAÐI SÉR

Afar skemmtileg veiðisaga fæddist á bökkum Langár sl sumar er harðsnúið holl Suðurnesjamanna fór þangað til veiða. Þetta var maðkaholl númer tvö og voru menn í góðum málum, þó rólegri veiði en oft áður. En Páll Ketilsson fréttamaður sendi okkur þessa skemmtilegu veiðisögu og myndir að auki…

Páll skrifaði: Hér eru myndir úr veiðiholli í Langá 23.-26.ág. (2.maðkaholl). Hollið veiddi talsvert minna en undanfarin ár, fékk þó 107 laxa. Mikið af laxi í ánni en tók verr en áður. Veður var frábært alla veiðidagana, skýjað og hiti. Frábær saga: Veiðimaðurinn Geir Newman úr Keflavík missti veiðihattinn sinn á efsta svæði árinnar fyrir 3 árum, árið 2003, en veiddi sama hatt um 5 km. neðar á svæði 79, Koteyrarbroti, nú í þessum túr. Geir þekkti hattinn um leið á nælu sem var í honum. Menn höfðu mikið gaman að þessu!

Og meira um Langá. Við hittum Ingva Hrafn leigutaka árinnar á förnum vegi fyrir skemmstu og sagðist hann hafa fengið verulega lofsamleg ummæli um seiðastatus árinnar frá Sigurði Má Einarssyni fiskifræðingi í Borgarnesi. Að sögn Ingva hafði Sigurður ekki lokið skýrslugerð, en hann hefði sent sér eftirfarandi ummæli:

“Árlegum mælingum á seiðamagni Langár er lokið en þær fóru fram dagana 23 til 24 ágúst 2006. Sambærilegar mælingar hafa farið fram allt frá árinu 1986. Í mælingunum er seiðamagn kannað á sömu stöðum á sama árstíma til að gögn séu sambærileg á milli ára. Veitt er vítt og breytt um ána á 12 stöðum allt frá Langavatni að Sjávarfossi. Úrvinnslu gagna er ekki lokið og eftirfarandi umsögn er gerð með þeim fyrirvara. Seiðamagn Langár virtist með því mesta sem mælst hefur í Langá. Klakárgangur 2006 er mjög öflugur og eldri árgangar eru einnig sterkir. Sértaklega var ánægjulegt á veiðistað fyrir neðan Langavatn fundust allir aldurshópar laxaseiða frá 0+ til 2+, en laxinn hefur verið að nema land á þessu svæði undanfarin ár. Seiðin voru feit og vel haldin, en á þessu svæði er mikil fæða fyrir seiðin vegna lífræn reks úr Langavatni. Efsta svæði árinnar er því væn búbót við laxaframleiðsluna þegar svæðið verður fullsetið. Allt bendir því til að Langá skili af sér sterkum seiðaárgöngum

LAXINN GERÐI VART VIÐ SIG MEÐ ÓVENJULEGUM HÆTTI

Veiðifélagar tveir sem voru að veiðum í Eystri Rangá sl sumar lentu í ánni mjög gruggugri, en fengu eigi að síður að reyna að það er hægt að veiða þó vatn sé vel skolað. Nauðsynlegt er að finna hvar fiskurinn liggur við þær aðstæðurog umrætt atvik sýnir að hægt er að fara óhefðbundnar leiðir til að grafast fyrir um það.

Sem sagt, tveir félagar deildu stöng og þeir vissu að svæðið þeirra hafði verið að gefa vel. Það var því mikið af laxi á svæðinu. En hvar væri best að leita? Það kom í ljós með óvæntum hætti.

Það var þannig að annar félaganna óð út á þekktum veiðistað og byrjaði á því að þenja köstin þangað sem líklegast væri að laxinn væri við venjulegar kringumstæður. Ekki gekk það upp og vinurinn færði sig neðar, óð í vatni upp í mið læri. Þá brá honum illa við að eittvað snerti annan fótinn og svo var eins og hann væri sleginn í hinn fótinn. Áður en hann gat velt þessu nánar fyrir sér, stökk lax beint fyrir neðan hann og lenti á vöðlunum! Annað högg á stígvélin og enn hoppaði lax sem lenti á mjöðminni á veiðimanninum…..vinurinn bakkaði hratt til lands. Laxinn var fundinn. Næsta klukkutímann settu félagarnir í og lönduðu þremur löxum á þessum stað.

LAXAR SEM TAKA AFTUR OG AFTUR…..OG AFTUR?

Laxinn sem Vilhjálmur Þ.Vilhjálmsson borgarstjóri sleit úr og náði svo aftur seinna um daginn er hann opnaði Elliðaárnar er ekki sá eini og sennilega er þetta algengara heldur en margan grunar. Tvö önnur lík atvik áttu sér stað í öðrum ám um líkt leyti.

Hann Jón Þór Júlíusson hjá Lax-ehf sagði okkur frá þessu. Hann sagði sögu af félaga sínum Gísla Ásgeirssyni, Gísli hefði verið að leiðsegja viðskiptavini í Laxá í Kjós þegar hann kom auga á lax sem lá í norðurkvíslinni í Kvíslafossi. Kúnninn renndi maðki á laxinn sem tók um leið. Þetta var 5 til 6 punda fiskur og í koki hans var öngull og uppúr honum stóð lína með sökkum. Fyrr um morguninn hafði veiðimaður slitið í þessum laxi í Skáfossum.

Jón sagði frá öðru dæmi, Þórður bróðir hans hefði verið á Eyrinni í Norðurá skömmu eftr opnun og setti þar í og landaði tæplega 10 punda hrygnu á írska flugu að nafni Cascade. Þórður skaut merki í bakugga laxins og sleppti honum aftur. Fjórum dögum seinna tók hrygnan maðk á Brotinu og lauk þar æviskeiði sínu. “Það eru ótrúlega margir, sérstaklega í eldri kanti stangaveiðimanna, sem hafa bara alls ekki náð þessum nýju fréttum, að menn séu að veiða alveg fjórðung þessara slepptu laxa aftur,” sagði Jón Þór. Og bætti við að menn gætu vel leyft laxi að njóta vafans og sleppa honum með öngul í koki og línu með, því mörg dæmi væru um að laxar sem þannig væri komið fyrir lifðu nógu lengi til að gagnast við hrygningu. “Þröstur Elliðason sagði mér að margir af þeirra klaklöxum í Breiðdalsá veiddust á maðk um mitt sumar og væru settir í klakkisturnar með maðköngla oní koki. Flestir þeirra eru síðan sprellifandi um haustið þegar þeir eru teknir í klakhúsið,” sagði Jón Þór.

Versta martröðin?
Hver er versta martröð stangaveiðimannsins? Að klaufast við löndun á draumafiskinum og missa hann? Að grípa fram fyrir hendurnar á frúnni eða barninu með Maríufiskinn til að hjálpa til….og missa dýrið í löndun? Þetta eru vissulega martraðir, en að okkar mati slær ekkert út….

…það sem Jón Eyfjörð lenti í úti í Steinbogaey í Laxá í Mývatnssveit sl sumar. Jón var að nálgast veiðistað og einbeitti sér að því að nálgast staðinn með hægð og lipurð. Skyndilega rann hægri fóturinn niður á milli þúfna, en Jón hugsaði ekkert nánar útí það….þ.e.a.s. fyrr en hann fékk snarpa stungu í handarbakið á vinstri! Honum varð að vonum hverft við og leit á hendi sína og gersamlega fraust er hann sá að sjö holugeitungar höfðu raðað sér á handarbakið, einn var búinn að stinga og hinir augljóslega að munda græjurnar. Og undan þúfunni birtist þykkt óveðursský.

“Það var óbeislaður hryllingur sem greip um sig, ég æpti upp og sópaði kvikindunum af hendinni og óð af stað á harðahlaupum með suðandi sveiminn á hælunum. Ég veit ekki hvað ég hljóp langt eða lengi áður en ég var öruggur um að þeir höfðu látið af eftirförinni,” sagði Jón í samtali við VoV . Hann lét þess getið að hann hefði því næst valið annan veiðistað og myndi líklegast gefa Steinbogaey frí einhvern tíma. Þess má geta, að Jón Eyfjörð er bæði langur og grannur og hefur örugglega verið bráðskemmtilegt að sjá hann á harðahlaupum í þúfóttri eyjunni með dökkan sveiminn af reiðum geitungum á hælunum!!! Þetta var borið undir Jón, en hann sá ekki broslegu hliðina á málinu.

Jón gat þess einnig að það hefði verið skrítið ástand í Laxá í Mývatnssveit. Árvatnið hefði verið tært, en átti með réttu að vera grænleitt af þörungum og átu úr Mývatni. Enn fiskur var þó í góðum holdum, flestir í það minnsta, en neðan úr Laxárdal bárust váleg tíðindi, þar væri nánast ördeyða. Hann vissi um nauðakunnugan Laxárdalsmann sem var þar í þrjá daga á topptíma, en fékk aðeins einn horaðan fisk.

Stórlaxinn og stórlaxabaninn
VoV greindi sl sumar frá strákpjakki sem svaf hálfan morguninn á meðan pabbi gamli barði Miðfjarðarána, en drattaðist svo útúr bílnum við Grjóthyl og tók ríflega 16 punda lax í öðru kasti. Hér er komin mynd af Bjarna Fannari Bjarnasyni, en svo heitir strákurinn og….

….nákvæm vigt laxins var 8,3 kg, eða ríflega 16,5 pund. Glæsileg frammistaða og glæsilegur lax. Til hamingju Bjarni Fannar og velkominn í hóp stangaveiðimanna. Ein og sjá má, er laxinn engin smásmíði. Hnöttóttur af spiki og vöðvum. Þetta var og maríulax eins og þeir gerast bestir. Veiddur á svartan Tóbí með bensínstöðvarstöng, en augljóst að menn höfðu haft vaðið fyrir neðan sig og skipt um línu, ella hefði vart þurft að spyrja að leikslokum.

STÓRA hollið í Hólsá
Það var nokkuð tíðrætt um “stóra” hollið á vesturbakka Hólsár og voru veiðitölur þar í stíl við gömlu “maðkaopnanirnar” í frægu ánum í gegnum árin, nema bara að í þessu tilviki var aðeins veitt á fjórar stangir og aðeins veitt á flugu. Að fjórar stangir taki á annað hundrað laxa á tveimur dögum er fágætt. En hér er engu logið, Hólsá var alltaf að gefa góð laxaskot af og til, en hér gerðist eitthvað sem gerist tæplega aftur og þó, aldrei segja aldrei. En eftir risaskotið var veiði með ólíkindum góð á “Vesturbakkanum” og skipti ekki hvað minnstu máli er tekin var saman sameiginleg veiðitala úr Hólsá og Ytri Rangá og fengin út metveiðitala.

Við fengum sem sagt póst frá Skarphéðni Þráinssyni sem var einn fjórmenningana og hann sendi okkur ekki aðeins línu, heldur líka myndir. Haldi einhver að einhverjar ýkjur séu á ferð, þá skoði sá hinn sami myndina sem þessum línum fylgir, en í skeyti sínu til okkar skrifaði Skarphéðinn: “Ég mátti til með að senda nokkrar myndir af STÓRA HOLLINU okkar í Hólsá um helgina, við fengum 115 laxa á tveimur dögum. Veitt er á fjórar stangir og eingöngu veitt á flugu. Inn á þessar myndir(sem hann sendi okkur og ein birtist hér) vantar alla tveggja ára fiskana, sem settir voru í sleppikistu, hrygnur 84cm. Veiðimenn á myndunum eru Hólsárbræður: Skarpi, Ketill, Seggur og Oddsteinn.”

MARGIR MARÍULAXAR

Það er gaman að spekúlera í því sem gerist á bökkum vatnanna, þannig var t.d. holl í Langá sem lauk veiðum 25.júní með rúmlega 40 laxa, en margir í hópnum voru óvanir útlendingar. Ellefu laxar voru Maríulaxar í því hollli og hlýtur að vera óvenjulega hátt hlutfall. En samt er það að færast í vöxt að margir Maríulaxar séu í einstökum hollum Meira en gengur og gerist. Stafar það af því að þegar bankarnir og stóru fyrirtækin fóru að kaupa nánast upp allan besta tímann í bestu ánum, hefur sópast í árnar fjölmennur her boðsgesta og afar stór hópur þess hóps hefur aldrei veitt lax áður. Líklega fjölgar verulega í stéttinni þessi árin af þessum sökum, því flestir sem veiða sinn fyrsta lax vilja gjarnan veiða annan sem fyrst.

Laxá í Leir: Yngsti veiðimaðurinn veiddi stærsta laxinn
Það kroppaðist uppúr Laxá í Leirársveit, en veiðin í heild var slök. Eitt hollið var með tuttugu stykki, m.a. fallegan boltafisk sem yngsti veiðimaðurinn í hópnum veiddi.

Við heyrðum í Hauki Geir Garðarssyni sem stundar Laxá mikið og hefur umsjón með sölu veiðileyfa í ánni: “Var í Laxá í Leir og deildi stöng með syninum. Hollið fékk 20 laxa á 6 stangir, reytingur að ganga inn á hverju flóði. Sonurinn, Garðar Geir Hauksson tók 16 punda hæng, 93 cm, á flugu númer 12, flotlínu og 9 feta einhendu. Var 75 mínútur með dólginn og landaði honum um 500 metrum frá tökustað. Þetta var dásamlegur morgun,” sagði Haukur Geir. Ekki þarf að koma á óvart að Garðar Geir viti hvað sýr fram og hvað aftur á flugustöng, pabbi hans er einn sá snjallasti og afinn, Garðar heitinn Svavarsson beinlínis goðsögn í lifanda lífi, en hann lést fyrir nokkrum árum.

DÖMURNAR LÁTA OFT BÍÐA LENGI EFTIR SÉR

Það er alkunna að dömur láta herrana oft og iðulega bíða eftir sér. Oftast er þolinmæði talin dyggð og fyrir kemur að herrarnir uppskeri það sem þeir sá til. Ekki verður það þó sagt um ákveðinn lítinn og leginn herra austur í Breiðdalsá á dögunum.

Sigurður Staples, eða “Súddi”, eins og hann er jafnan kallaður fékk smugu til að skjótast út að veiða. Hann hafði haft pata af því að nýir fiskar hefðu verið í Gljúfrahyl í morgunsárið. Hann mætti á árbakkann og von bráðar var hann búinn að setja í vænan lax. Fljótlega sá hann silfraðan glampa sem gaf til kynna að laxinn væri bæði “tveggja ára” og nýgenginn að auki. Af átökunum dró hann þá ályktun að um hrygnu væri að ræða, sem átti eftir að koma á daginn.

En fljótlega sá hann brúnan “glampa” í ánni, svo silfraðan aftur og svo brúnan og þannig koll af kolli. “Ég var eiginlega að verða vitlaus á þessu, vissi ekki hvort eg var að þreyta leginn smálax eða nýgenginn stórlax,” sagði Súddi.

En á endanum kom á daginn að hann var vissulega að þreyta silfraðan stórlaxinn og var þetta tæplega 12 punda hrygna. Lítill grútleginn hængur elti hana alveg upp í harðaland og synti ekki útí ána aftur fyrr en Súddi var búinn að renna hrygnunni í plastslöngu fulla af vatni til flutnigns í klakkistu neðar í ánni.

Þessi litla saga er ekkert einsdæmi. Oft sjást einn eða fleiri laxar elta þann sem tekið hefur agnið og oftar en ekki eru það fiskar sem hafa parast sem elta hvor annan með þessum hætti. En þessi saga er töluvert sorgleg. Það er hægt að hafa ríka samkennd með litla legna hængnum sem var búinn að bíða og bíða. Allt sumarið. Viku eftir viku eftir draumadísinni sinni og hann var ekki í vafa þegar hún renndi sér í hylinn. En hann fékk ekki að njóta hennar og ekki uppskar hann laun þolinmæði sinnar.

FÉKK NÆSTUM HJARTASTOPP

Arnlaugur Helgason lenti í ævintýri í Arnarfelli við Þingvallavatn í síðustu viku og sendi okkur mynd og línu. Hafi hann bestu þakkir fyrir og óhætt að óska honum til hamingju með aflann því glæsilegur er hann.

“Eins og vafalítið margir veiðimenn ákvað ég að skreppa í veiði eftir vinnu á þriðjudag enda veðrið glæsilegt. Ákvað að renna í Arnarfellið í Þingvallavatni enda lítið kíkt þangað í sumar. Ég keypti mér einn makríl í leiðinni og ákvað að prófa letingja með flugunni. Þegar ég kom í Arnarfellið skartaði náttúran sínu fegursta og veiðimaður sem ég hitti og hafði verið frá hádegi búinn að fá 8 bleikjur. Ég fékk 2 smáar bleikjur sem ég sleppti á Peacock og þrumaði svo makríl með sökku út í. Hann var varla kominn útí þegar strax var hafist handa við að narta í hann. Ég lét allt vera þangað til hann hafði bitið sig fastan og viti menn, stærðarinnar urriði tók við að stökkva út um allt og kláraði girnið af hjólinu mínu. Ég náði þó að lempa hann inn og þvílíkur fiskur þegar hann var komin á land, 6 punda gullfallegur urriði.

Að sjálfsögðu setti ég nýja beitu á og kastaði aftur út. Eftir smátíma var farið að eiga örlítið við beituna og ég dró hana til mín í rólegheitum og svei mér þá ef annar urriði renndi sér ekki á eftir henni og tók með látum. Þegar sá byrjaði síðan að stökkva þá fékk ég næstum hjartastopp enda þessi sýnu stærri en sá fyrri. Þessi viðureign tók dágóðan tíma og þegar hann var nánast kominn upp í harða land hélt ég að hann hafði fest girninð einhvers staðar og óð út í. Nei hann hafði einungis sest niður í rólegheitum og ég gat bara ekki bifað honum. Ég náði honum þó á endanum á land og svei mér þá ef ég hef nokkurn tíman séð fallegri fisk, 75 cm spikfeitur urriði sem við vigt daginn eftir jaðraði við 12 pund. Ég var frekar þreyttur að þurfa að bera þessi ósköp, ásamt 2 stöngum og veiðikassanum mínum upp í bíl. En ánægður var ég …”

Heppni, seinheppni, óheppni…..

Félagarnir tveir voru að klifra yfir sömu girðinguna við ónefnt silungsveiðivatn sl sumar. Tveir metrar á milli þeirra og þeir hrösuðu báðir á sama augnablikinu. Annar sleit liðbönd í ökkla, hinn lenti ofan á splunkunýjum fjarka og mölvaði hann. Þrjá metra í burtu var þetta fína hlið og nokkrum metrum lengra voru tröppur yfir girðinguna. En þeir ætluðu að stytta sér leið…..

Og oft er talað um heppna veiðimenn og óheppna veiðimenn. Sjaldnar er talað um heppna og óheppna ánamaðka. En hvað má segja um slíkt þegar veiðimaður einn hélt austur í Rangárþing í byrjun júlí til að renna fyrir lax af eystri bakka Hólsár. Á leiðinni útúr bænum stoppaði hann í Útivist og veiði/Ellingsen og fjárfesti í fimmtíu sprækum laxamöðkum. Borgaði fyrir ríflegt uppsett verð og ók síðan beint inn í vaxandi slagveðrið sem var að leggjast eins og motta yfir allt sunnanvert landið. Það var svo hvasst þegar komið var austur að vinur vor byrjaði með spún og hélt sig bara við hann fram undir kvöld. Hélt sig reyndar mikið til inni í bíl, enda ekkert skýli að hafa á þessum veiðistað fyrir veiðimenn. Það var vaxandi slýrek í ánni allan daginn út af vatnsveðrinu en undir kvöldið datt veiðimanni í hug að reyna maðk í Ármótunum svokölluðu, þar sem Þverá og Eystri Rangá renna saman. Græjaði þá maðk og beitti tveimur af fimmtíu. En hvergi var slýrekið meira en einmitt þarna vegna vaxtar í Þverá. Hann hætti því skömmu seinna, þræddi tvo óheppna maðka af önglinum þar á eyrinni og bauð nærsitjandi kríum í smá veislu, en ók síðan heim, með storminn í bakið, og sleppti hinum 48 möðkunum í túnið heima hjá sér, því hann er ekki að fara aftur í veiði fyrr en að áliðnum ágúst.

Það gerist fleira skemmtilegt. Hákon Stefánsson sendi okkur þessar línur, en hann var með félaga sínum Marinó Guðmundssyni í Hofsá. “Þá lenti einn veiðimanna í ansi skondinni töku. Þannig var hann að veiða í Beitarhúsahyl á svæði II og var að verða búinn að fara yfir hylinn þegar allt varð fast. Þegar hann lyfti upp stönginni og tók á fann hann að lax var á línunni – en eitthvað var þó ekki eins og átti að vera og átakið eitthvað sérstakt. Ekki var hann þó að velta því frekar fyrir sér heldur tók til við að þreyta fiskinn, sem var 10-12 pund, sem þó slapp fyrir rest. Þegar veiðimaðurinn dró fluguna inn og fór að athuga tauminn oþh. kom í ljós að ein krækjan á flugunni var krækt í gegnum auga á þríkrækju sem þannig hékk í flugunni! Þannig virðist sem einhver hafi áður verið búinn að setja í þennan lax og líklegast landa honum, en þurft að skilja þríkræjuna eftir í kjaftvikinu. Okkar manni tókst því hið ótrúlega að krækja í augað á þríkrækjunni! Óhætt er að segja að “veiði – sleppa” aðferðin hafi náð þarna nýjum óvæntum hæðum í huga þessa veiðimanns sem og annarra í hollinu.”

Og fleira: Á spjallvef veiðimanna, veiði.is er ótrúleg lýsing á atgangi í Veiðivötnum. Gefum Karli Sigurðssyni orðið: “Félagi minn var að koma úr Veiðivötnum. Fengu þeir ágætt veiðiveður á fyrri deginum, en brjálað veður á seinni deginum og fóru víst fáir til veiða þann dag. Voru þeir nokkrir saman félagarnir, en náðu ekki nema tveimur drjólum (5+) en þó slatta af þokkalegum urriðum í viðbót. Virtist þeim almennt fremur dræm veiði þessa daga í urriðanum.

Það bar helst til tíðinda á mánudagskvöldið, að þeir félagarnir finna góða strönd við Litlasjó, setja beitu á öngul, kasta útí og koma stöngunum svo fyrir í þar til gerðum hólkum sem stungið er í sandinn. Eru svo teknir fram stólar og opnaður bjór og haft huggulegt á ströndinni.

Ekki eru liðnar margar mínútur þegar stöng félaga míns bognar í keng og hólkurinn leggst á hliðina með það sama. Það næsta sem menn sjá er að bjórdósin flýgur í fallegum boga til vesturs en félaginn stekkur á fætur og hleypur í austurátt á eftir stönginni. Var hún staðsett nokkra metra frá vatninu, en rennur nú með ógnarhraða út í Litlasjó og félaginn hleypur á eftir. Þrátt fyrir vasklega framgöngu í hlaupinu dregur jafnt og þétt í sundur með honum og stönginni. Sér hann stöngina nú hverfa í djúpið og tekur þann kost vænstan að stinga sér á eftir henni líkt og sundmaður í ólympískum dýfingum líkt og frændi hans, sem þar var viðstaddur, orðaði það.

Var þetta allt hin frækilegasta framganga, en dugði þó eigi til og hvarf þarna stöng með öllu saman og að lágmarki 10 punda fiski á öðrum endanum að mati þeirra sem á horfðu, slíkur var krafturinn á fiski og hraðinn á stönginni. Sundmaðurinn félagi minn er hins vegar svo heppinn að fylla vel út í vöðlurnar, blotnaði hann því lítið og þurfti því aðeins að skipta um úlpu og draga fram varastöngina til að halda áfram veiðum.”

“TITTLINGARNIR”

Við vitum ekki hvort það geti flokkast undir veiðisögur, en menn voru hugsanlega að setja ný met í smálaxaveiði sl sumar. 450 gramma lax sem veiddist í Langá var sá smæsti sem við heyrðum af. Laxinn var svo smár, innan við pund, að Ingvi Hrafn Langárjarl heldur helst að þetta hafi verið eitt af hans stóru gönguseiðum sem gengu til sjávar í sumarbyrjun, en hafi verið að væflast á sjávarfitjum Langár síðan, ekki talið knýjandi þörf á áralangri hafbeit með öllum þeim hættum sem því fylgir.

Já, það var mikið um svokallaða “örlaxa” í ánum sl sumar. Mest bar á þeim í ákveðnum ám, en sums staðar sást lítt til slíkra fiska. Helst voru þeir á Suðvestur- og Vesturlandi og svo aftur í Vopnafirði og einhver slangur í Breiðdal líka. Margir tóku upp á því að kalla laxa þessa “tittlinga”. Mikið var af óvenju smáum laxi t.d. í Norðurá og þess dæmi að fáir eða engir laxar yfir 4 pund veiddust suma daga. Gljúfurá er raunar þekkt fyrir smáa laxa, en dag einn seint á veiðitíma komu þar hjón sem veiddu 3 laxa á stöngina sína. Þeir náðu ekki 8 pundum samanlagt.

Menn skiptust í fylkingar yfir merkingu þessara titta. Framan var var umræðan öll á þann veg að þetta væri einstakt áhyggjuefni og benti til slæms ástands í hafinu. Fréttir bárust og að tittlingar væru að veiðast um allan hinn laxaheim, ekki hvað síst á Bretlandseyjum. Þar með fóru menn að tengja þetta breyttri ásjónu lífríkis hér við land sem menn tengja hlýnun og kemur fram í fjölgun sumra tegunda(flundru, sandrækju, sjóbirtings, sæsteinssugu) og fækkun annarra (bleikju). En síðan kom upp sú kenning sem líka fékk byr og hún var þannig að tilvist tittlinga gæti bent til hins gagnstæða, þ.e.a.s. að ástandið væri svo gott í hafinu að jafnvel lélegu gönguseiðin væru að spjara sig og skila sér.

Eitt er þó víst, að við hér á VoV treystum okkur ekki til að segja til um hvort að tilvist tittlinga stafi af góðæri eða óáran í hafinu. Tvennt getur þó bent til hins fyrra, að það var víð talsvert af mjög fallegum og feitum smálaxi og einnig var mjög víða heldur meira af 2 ára laxi en menn hafa séð í allnokkur ár.

Fáránlega heppinn veiðimaður – seinheppinn lax

Fyrsta veiðidaginn í Gljúfurá í Borgarfirði veiddist einn lax í Kerinu. Varla í frásögur færandi, nema að þegar að var gáð reyndist vera skemmtileg veiðisaga á bak við þennan eina 4 punda lax. Það var Stefán Hallur Jónsson sem veiddi laxinn og hann segir nú frá skemmtilegheitunum:

“Jú, það var saga að segja frá þessum laxi og allt með miklum ólíkindum hvernig mér tókst að ná honum á land. Þannig var, að ég var að yfirfara græjurnar í veiðihúsinu í gærkvöldi, rakti m.a. slatta af línu útaf Ambassadornum til að komast fyrir flækju sem lá inni á spólunni. Að því loknu spólaði ég inn og taldi mig ferðafæran niður í Ker í morgunsárið. Strax um sjöleytið sá ég lax liggja skammt frá landi í öfugstreyminu framan við fossinn og renndi á hann. Þetta er hefðbundinn staður í miklu vatni og laxinn tók um leið. En allt í einu sá ég mér til skelfingar að línan var slitin miklu mun framar heldur en flækjan hafði verið og hún var á hraðferð í gegnum lykkjurnar á stönginni, flaug svo út og lenti í krumpi á vatninu. Ég eiginlega hálfhljóp og hálfstökk á eftir spottanum og reyndi að ná honum og mátti muna millimetrum að ég færi á kaf, en línuendanum náði ég ekki. Náði þó að snerta hann og spurði sjálfan mig seinna í gríni hvort að ég hefði getað skrifað laxinn veiddann…..taumur snertur og allt það! En náttúrulega sótbölvaði ég þessu, dagurinn ætlaði að byrja vel með laxi á land kortér yfir sjö, en eitthvað hefur línan laskast þegar ég var að eiga við flækjuna.

Svo var ég þarna á höttunum nokkru seinna og sá þá lax liggja á líkum stað, en mun nær landi. Datt náttúrulega í hug að þar væri annar lax, en er ég kom mér fyrir til að renna á hann sá ég að þetta var sami laxinn. Ég renndi vandlega maðkinum að honum, en laxinn sýndi enga tilburði til að taka aftur. Þá datt mér það fáránlega ráð í hug að renna aftur fyrir hann og freista þess að krækja í sökkurnar….og viti menn, það tókst í fyrstu tilraun, svo ólíklega sem það hljómar, allt þetta vatn og straumkast, en laxinn reif ég á land á augabragði þegar öngullinn húkkaðist í sökkurnar og ég endurheimti laxinn og glötuð veiðarfæri að auki,” sagði Stefán Hallur og ljóst að fyrsta veiðisaga laxasumarsins var þar með fædd.

“Margir stórir og eftirminnilegir…..”

Hilmar Hansson, einn slyngasti veiðimaður landsins og fyrrum formaður Landsambands stangaveiðifélaga sendi okkur uppgjör sitt fyrir vertíðina 2006. Bestu þakkir Hilmar og lesendur, gerið svo vel:

“Sælir hjá VoV. Veiðisumarið hjá mér var í meðalægi gott hvað fjölda fiska varðar. Það voru hinsvegar margir stórir og eftirminnilegir höfðingjar sem féllu fyrir flugunum mínum í sumar.

Vorið ar frábært á Þingvöllum og eru vorkvöldin farinn að eiga stærri og stærri sess í mínum huga en áður. Það er ekkert yndislegra en vorkvöld á þingvöllum, nema ef vera kynni vorkvöld á Þingvöllum og góð taka.

Við feðgarnir gerðum góðar ferðir í vatnaveiðina í vor og lönduðum og slepptum nokkrum risaurriðum. Eftirminnilegastur var urriðin sem ég fékk á Héraeyra púpu og var 14 pund og urriðinn sem Björgvin sonur minn veiddi og var 9 pund.

Það var gaman að horfa á eftir þeim í djúpið aftur og þegar björgvin sagði eftir að hafa landað boltanum sínum, ”pabbi ég get ekki drepið hann, ég verð að sleppa honum aftur”, þá vissi ég að uppeldið hafði gengið upp. Ég hef nefnilega aldrei predikað sleppingar á fiskum við hann. Hann bara hafði tekið eftir hjá mér hvað tilfinningin er góð á eftir.

Ég veiði í Norðurá á hverju vori og vorið 2006 var vor hinna miklu vatna. Það var ótrúlega mikið vatn í Norðuránni í vor og þurftum við að hafa mikið fyrir veiðinni. Á 5 dögum veiddum við 15 laxa á stöngina og máttum vel við una, sökum óhagstæðra skilyrða í ánni. Ég er ánægður með þær breytingar sem stjórn SVFR hefur gert fyrir árið 2007 varðandi fluguna og mér finnst engu skipta þó maðkurinn fari úr ánni. Það er alltaf afslappaðra veiðiandrúmsloft ef veitt er eingöngu á flugu.

Ég fór að vanda í Stóru Laxá 1 og 2 ásamt svæði 4 eins og ég reyni alltaf að gera. Ég hef haldið tryggð við ána í tvo áratugi og henni er alltaf fyrirgefið fiskleysið þó að í sumar hafi mér gengið vel. Ég fékk 3 laxa á 4 og 5 á svæði 1 og 2. Það er frábært að vita til þess að netin fari upp að mestu leyti næsta vor og ég vona að gamlir Stórulaxárhundar sjái ána sína blómstra.

Besti túr sumarsins hjá mér var vikan sem ég veiddi í Yokanga í Rússlandi, eins og hún hefur verið undanfarin ár. Þar fékk ég 44 laxa á vikunni og stærst 24 og 25 pund. Þetta er alltaf toppurinn á veiðisumrinu hjá mér og ég er búin að bóka sömu viku á næsta ári. –Kveðja Hilmar hansson.

VEIDDI FÉLAGANN FYRST…..SÍÐAN FISKINN

Fyrsta veiðisaga sumarsins rak á fjöruna 1.apríl og þurfti því ekki lengi að bíða hennar. Gunnar Rósarsson sagði okkur í lok veiðidags, að hann hefði verið með vini sínum Ingólfi Guðnasyni kryddbónda, sem veiddi í túrnum fallegan 5 punda birting, en sjálfur hefði hann orðið lítið var, þar til Ingólfur greip inní á dramatískan hátt.

Þáttur veiðifélagans var þó engan vegin planaður, því leikþátturinn hófst á því að Ingólfur óð af lofsverðu, en því miður of miklu, kappi út í hyl einn og áttaði sig ekki á því að sanbakki var í botninum og slútti fram af honum bratt ofan í hyldjúpan pytt. Óð Ingólfur sum sé of langt og steig of framarlega á sandbakkann, sem hrökklaðist undan honum og fór veiðimaðurinn þar með á þvílíkt bólakaf í hylinn að húfan ein flaut ofaná. Við þetta stökk Gunnar á fætur, öslaði með bægslagangi út í hylinn, greip í herðar félaga síns og landaði honum með miklum sóma. Ingvar hafði grýtt stönginni frá sér í fallinu og óð nú Gunnar útí hyl og krækti stönginni á þurrt með sinni stöng.

En á meðan að Ingólfur dró af sér rennandi spjarirnar til vindingar, hugðist Gunnar drepa tímann með því að damla flugu sinni útí hylinn sem var eiginlega enn með óróa á yfirborði eftir allan þennan atgang. En það kom ekki að sök, fallegur 3 punda birtingur tók og var landað og síðan sleppt. Var þetta eini fiskurinn sem Gunnar veiddi í túrnum og eftir þetta bað hann félaga sinn að hoppa útí alla hylji sem þeir komu að, allt til loka dags, en Ingólfi fannst einu sinni yfrið nóg.

STÖKK VIÐSTÖÐULAUST

Menn standa á brún Sjávarfoss í Elliðaánum og laxar stökkva viðstöðulaust í fossinn eða hreinsa sig upp fyrir hann. Þeir láta ekkert róta sér, sjá ekkert nema æskustöðvarnar, og renna upp fossinn viðstöðulaust hvað sem veiðimaðurinn er einbeittur og slöngvar út agni sínu, flugu eða maðki. Þessa senu þekkja menn. En svo eru aðrar senur….

Á dögunum stóð ritstjóri við Sjávarfossinn eftir að veiðitími dagsins var á enda og horfði í leiðslu á stanslausa laxabununa renna í fossinn. Hylurinn var blanda af bláu og silfri og uggar og sporðar stóðu uppúr. Þetta minnti meira á eldisker heldur en veiðistað í laxveiðiá sem átti að vera í andnauð. Þarna rifjaðist upp sérkennilegt atvik sem sá er þetta ritar upplifði fyrir nokkrum árum vestur í Haffjarðará.

Undirritaður er ekki leiðsögumaður, en eitt sumarið kom ósk frá góðum kunningja að vera “gæd” fyrir hann í Haffjarðará. Þetta var um miðjan ágúst og talsvert af laxi að ganga. Veiðin var þó ekki annað en reytingur, einhverra hluta vegan var allur þessi lax að taka illa og gilti einu hver átti í hlut. En við vorum þó að slíta upp fiska, m.a. fékk félaginn sinn fyrsta flugulax fyrsta morguninn í Kvörninni, 11 punda lúsuga hrygnu á Blue Charm míkrótúpu, sem þá voru í mikilli tísku. Að kvöldi næsta dags vorum við aftur komnir að Kvörninni, áttum hana seinni þrjá tíma seinni vaktarinnar. Geymdum hana og hvíldum þar til að klukkustund lifði veiðidagsins.

Þegar við komum að Kvörninni byrjuðum við á því að tylla okkur og spá í spilin. Tókum strax eftir því að lax stökk viðstöðulaust í fossinn. Sumir hreinsuðu sig yfir brúnina, aðrir smullu í flauminn og við sáum þó nokkra spýtast til baka. Það var ekkert lát á þessu.

Félagi minn læddist meðfram klettinum og kastaði stuttri línu yfir faldinn á hvítfyssinu. Þar hlaut torfan að liggja. Hann var með rauða hálftommu Frances túpu. Um leið og túpan fór að sveima yfir hvítfyssið, snarhætti laxinn að stökkva. Það var enginn hreyfing og enginn lax leit við flugunni.Eftir þó nokkur köst vildi félaginn skipta um flugu, spólaði inn og kom til baka.

Laxinn fór að stökkva um leið.

Ný fluga var valin, ekki man ég hvaða fluga lengur, en um leið og fyrstu köstin fóru yfir hylinn, steinhætti laxinn aftur að stökkva.

Þetta endurtókum við þrisvar-fjórum sinnum í viðbót áður en tíminn var úti. Aldrei snerti lax fluguna, aldrei elti lax og engan reistum við. Aldrei var hreyfing á fiski er flugu var kastað í hylinn.

Þegar við hönkuðum upp og fórum, var stanslaus buna upp fossinn…..

SAGA AF STÓRUM BLEIKJUM

Tryggvi Leosson er einn af þeim frekar fáu í hópi stangaveiðimanna á Íslandi sem hefur aðgang að prívatsvæði á Þingvöllum. Ekki er upp gefið nákvæmlega hvar það er, en við teljum að það sé við vatnið austanvert, eða þar um bil í það minnsta osfrv. Hann veiðir þarna þegar honum sýnist í gegnum annan tengdasoninn að okkur skilst, en það er ekki málið, heldur….að þarna lenti hann í miklu ævintýri um síðustu helgi.

Tryggvi segist hafa komið þarna nokkrum sinnum áður, en aldrei veitt neitt nema stubba. Hann segir þó, sér til málsbóta, að hann sé lélegur með fluguna og kunni varla að nota hana í Þingvallavatni. Hins vegar hljoti þetta að vera góður veiðistaður því afi tengdasonarsins hafi staðið þarna út í eitt þegar hann var og hét. Og veitt þá marga og stóra. Ekki þó urriða, heldur bleikjur.

Svo var Tryggvi þarna á dögunum, í þessu tilviki með báðum tengdasonunum og framan af helginni var þetta sama kroppið með smábleikjur. Þér héldu að vísu til nærri bústaðnum í byrjun og dútluðu við tittina, en það er smálabb út þangað þar sem sá gamli veiddi þá stóru í eina tíð. Tengdasynirnir röltu þetta svo þegar ekkert var að ganga við húsið og komu aftur ca klukkustund seinna og sögðu tíðindi.

Tíðindin segir Tryggvi hafa verið þau, að þeir hefðu veitt allnokkrar 2 til 3 punda bleikjur þennan stutta tíma. Notað svokallaðan Gyðing, þ.e.a.s. spinner með taum og maðk í eftirdragi. En þeir slepptu þessum fallegu bleikjum……og það gat Tryggvi ómögulega skilið, þ.e.a.s. þangað til að þeir sýndu honum í bakpokann og hann fékk að sjá þessar fjórar sem þeir töldu nógu stórar til að hirða. Þær voru allar 5 til 6 pund!!!

Var nú komið að hádegismat og allir orðnir svangir, en menn voru fljótir að skella í sig matnum því að sjálfsögðu skyldi haldið aftur á tangann góða og taka fleiri. Það var eins og Tryggvi hefði ekki trú á því að fleiri myndu veiðast, því hann fór með strákunum á blankskónum og háflaus.

Í fyrsta kasti elti risaskuggi Gyðinginn og í öðru kasti var hann á. Þessum fiski hefði Tryggvi náð ef háfur hefði verið við höndina, en hann missti hann í fjöruborðinu. Þetta var 5 til 6 punda bleikjutröll. Annar tengdasonurinn setti svo í og landaði annarri bleikju af svipaðri þyngd. Menn stilltu sig nú inn á mikið meira grín og gaman, því þessi ferlíki voru að elta í öðru hverju kasti. Og líka 2-3 punda “stubbar”.

En skyndilega dró fyrir sólu og áttin snérist. Það hafði verið logn og sól, en nú kólnaði. Þetta gerðist á örfáum mínútum, eins og menn þekkja á Þingvöllum. Það var eins og við manninn mælt, tröllin hurfu af yfirborði jarðar. Það var ekkert líf að sjá og enginn fiskur að elta, hvað þá taka.

BÚNIR AÐ FARA NOKKRAR FERÐIR

Það er eins gott að líta ekki af aflanum eða ætla sér að sækja laxinn eða silunginn þegar farið er aftur “upp eftir” eða aftur “niður eftir”. Aflinn gæti þá verið horfinn og spurning hvort að veiðifélagarnir trúi veiðisögunni!

Það gerðist í sumar að veiðimenn í Bíldsfelli í Sogi lögðu fallegan smálax frá sér á bakkann og skömmu seinna var hann horfinn og óræk ummerki um að minkur hefði verið þar á ferð. Minkurinn er geysilega kræfur og oft ótrúlega spakur þegar hann finnur krassandi lyktina af nýveiddum feng. Eru þess jafnvel dæmi um að þeir togist á við veiðimenn sem eðlilega vilja halda veiði sinni.

Þetta er ekki eina sagan í líkum dúr sem við heyrðum sl sumar, veiðimaður einn var t.d. staddur við Arnarvatn litla á sunnanverðri Arnarvatnsheiði fyrr í sumar. Hann var í letingjaveiði, með stöngina skorðaða í þúfu og svo lá hann á þægilegum stað rétt þar við og vaktaði græjurnar. Hann var að landa fiski af og til, fallegum 1 til 2 punda bleikjum. Hann lagði þær frá sér jafn óðum, slengdi þeim í hrúgu rétt til hliðar við sig. Svona gekk þetta fyrir sig um hríð.

Loks kom þar að vinurinn hugðist færa sig um set, stóð upp og sá þá til minks vera á skrölti skammt frá. Minkurinn smaug í felur þegar hann varð veiðimannsins var. En bleikjuhrúgan hafði eitthvað þynnst…..þar áttu að liggja tíu bleikjur. En voru aðeins sjö! Minkurinn lét ekki sjá sig aftur og aflinn endurheimtist ekki.

Þá voru tveir saman á Þingvöllum einhvern tíman um daginn og voru búnir að fá slatta af smárri bleikju. Óðu svo í land, drukku kaffi saman og helltu úr háfunum á grasið. Þar gat að líta þokkalega hrúgu, en ekki fylgdi sögunni nákvæm tala. Nema, að þegar kaffidrykkju lauk, óðu vinirnir aftur út í og fóru að veiða. Eftir nokkra stund heyrðist kallað, veiðimaður er átti leið um var að láta vita að það væri enginn friður með veiðina. Þeir litu við og sáu sílamáf fljúga burt með litla bleikju í gogginum. Annar stóð yfir hrúgunni og valdi sér málsverð. Sá er kallaði æpti til þeirra, “þið verðið að passa upp á þetta strákar, þeir eru búnir að fara nokkrar ferðir!”

VARLA HÆGT AÐ BYRJA BETUR

Stangaveiðin er full af skrýtnum uppákomum og stundum er atburðarásin með svoleiðis ólíkindum að varla væri gerlegt að ljúga upp meiri vitleysu. Ólafur Vigfússon í Veiðihorninu var að koma úr Norðurá þar sem átti að setja synina tvo inn í töfraheim laxveiðinnar og….

….við gefum Ólafi orðið: Var að koma úr Norðurá um daginn og upplifði glæsilegt upphaf laxveiðiferils. Við María tókum 2 elstu syni okkar, Egil Daða og Andra með í túrinn en þeir veiddu mikið með okkur frá bleijualdri upp að unglingsárum en þá dvínaði áhuginn. Nú í sumar fóru þeir að spyrja “Hvenær megum við eiginlega koma með ykkur í veiði?” og varð það úr að þeim var boðið að koma með í Norðurána 20 til 22. ágúst.

Annar þeirra, Andri, sá yngri, spilaði 4 kg. fisk á Bryggjunum. Hinn komst ekki fyrr en liðið var á túrinn. Við byrjuðum að morgni til uppi í Svartagilsstrengjum og þar sem sonurinn, Egill Daði og kærasta hans höfðu hvorugt snert á flugustöng hófst 45 mínútna langt kastnámskeið á túnunum við Svartagil. Þegar leiðbeinandanum þótti færni nemendanna næg voru fyrstu skrefin stigin út í á.

Ég hef aldrei séð Norðurá svo vatnslitla sem nú á þessum árstíma. Ég gekk með syninum 3 skref út í ána og leiðbeindi honum hvert hann ætti að kasta, hvernig ætti að menda línuna upp í strauminn og draga svo inn. Ég rétti honum stöngina og spyr hvort ekki sé allt í lagi. Þegar hann jánkar því sný ég mér við og tek 3 skref upp úr ánni. Um leið er kallað “Pabbi, það er fiskur á” Sem sagt í fyrsta laxveiðitúr, í sínu allra fyrsta flugukasti setur drengurinn í fallegan fisk.

Það þarf ekki að taka fram að áhuginn er vaknaður á ný hjá drengjunum mínum og munu þeir sækja fast að fá að koma með eftir þetta.”

GRIFFLAN FREISTAÐI MEIRA!

Hafsteinn Jóhannesson fyrrum sveitastjóri í Vík og þekktur sjóbirtingsveiðimaður í Vestur Skaftafellssýslu eltist við háfjallableikjur í Köldukvísl í sumar fyrir utan að standa í mokveiði í Blöndu. Í einum túrnum í Köldukvísl gerðist skemmtilegt atvik.

“Jú, ég hef verið að skreppa í Köldukvísl, hef gjarnan farið við annan mann og verið síðdegi og fram á kvöld. Þetta hefur verið skemmtilegt og við höfum oftast verið að fá nokkra fiska, þrælvæna, bleikjur upp í 5-6 pund. Í einum túrnum voru ég og sonur minn búnir að landa nokkrum fiskum og þeir lágu í hrúgu í brekkunni. Við tókum okkur pásu og settumst á þúfur svona 20 metra frá bleikjunum. Þá sáum við að minkur var á vappi og nálgaðist silungana. Þetta var bara stálpaður hvolpur og við ákváðum að bíða og fylgjast með. Hann kom svo alveg að fiskunum og var að snuðra. Það var talsvert stress í honum og hreyfingar allar hraðar. Þarna hjá lá líka griffla sem var öll í blóði og slori og skyndilega greip minkurinn griffluna og rauk af stað!

Við stukkum þá á fætur og eltum hann, en grifflan vafðist fyrir honum og eftir smáþóf sleppti hann henni. Við tókum því næst fiskana og færðum þá að bílnum og fórum aftur að veiða. Óðar var minkurinn kominn aftur snuðrandi þar sem bleikjurnar höfðu legið og þar var hann að koma og fara næstu tvær klukkustundirnar á meðan við vorum að veiða. Hann var svo þarna enn þegar við vorum að fara. Við tókum þá hausinn af einni bleikjunni og settum hann þarna rétt til hliðar og sá stutti var mjög snöggur að finna hann. Þar skyldi annars með okkur og verður að segja að þessi litla saga setti skemmtilegan punkt yfir i-ið á þessum annars ágæta veiðidegi,“ sagði Hafsteinn.

AÐ LÆRA AF FYRRI REYNSLU….

Það flugu veiðisögur í jeppa austur í Stóru Laxá í Hreppum sl haust er klakveiðimenn óku á milli veiðistaða. Ritstjóri var þarna í vinnuferð fyrir Vötn og veiði og sat undir stýri, en farþegarnir styttu sér stundir yfir veiðisögum.

Guðmundur Böðvarsson frá Syðsta Seli var þarna í aftursætinu og sagði okkur frá urriða sem hann veiddi í Þórisvatni, einungis 2 punda fisk, en þrátt fyrir að teljast vart til trölla var hann með fjóra línustubba og fjóra kok- og magagleypta beituöngla í farangur. Þarna hlýtur að hafa verið um lélega línu að ræða og kenningin sú að hann hafi tekið í öll skiptin hjá sama hollinu, jafnvel hjá sama einstaklingnum…Hvað sem því líður þá hafa menn þarna klárlega verið með bensínstöðvarlínur

Í aftursætinu sat einnig Kjartan Þorbjörnsson, öðru nafni Golli,ljósmyndari á Morgunblaðinu. Hann vildi toppa sögu Guðmundar og sagði frá bleikjuveiðum norðurí Fljótaá sl. sumar. Hann stóð við hyl einn og kastaði kúlupúpu andstreymis og setti von bráðar í væna bleikju. Taumurinn var grannur og bleikjan stór og hún vildi niðurúr. Það var heldur erfitt um vik fyrir Golla að fylgja fiskinum eftir, þannig að hann tók þann kostinn að treysta græjunum og halda þétt á móti. Ekki gekk það sem skyldi, því bleikjan og Golli slitu í samvinnu tauminn og fór bleikjan sína leið.

Nokkru seinna fór Golli í næsta hyl fyrir neðan og var þar með fluguna sína í um það bil hálftíma, en fór þá aftur í fyrri hylinn, kastaði enn andstreymis og eftir fá köst var fiskur á. Reyndist þetta vera sama bleikjan og hafði slitið, það fór ekki á milli mála, því flugan og taumbúturinn blöstu við. Golli tók þá endurheimtu fluguna, hnýtti hana á tauminn og var óðar búinn að setja í enn vænni bleikju en þá fyrri og nú var tekið mjúklegar á málunum.

Eftir að hafa hlýtt á þessar sögur, datt ritstjóra strax í hug ein til viðbótar, 15 punda lax sem fyrir nokkrum árum tók svartan Tóbí á breiðunni fyrir neðan Skarastaðabrú í Austurá, ofan Kambsfoss, reyndist vera með fimm maðköngla á línustúfum á hinum ýmsu stöðum, allt frá kjaftviki og niður í garnir. Þessi lax var orðinn frægur í Laxahvammi, talinn miklu stærri (nema hvað?) og lá í ótrúlega góðu færi fyrir maðkrennsli. Og hafði svo lyst á svörtum Tóbí í eftirrétt!

KAST NÚMER TVÖ MEÐ KVIKINDINU

Það koma alltaf fram nýjar flugur á hverri vertíð og eru sumar þeirra í hæsta máta óvenjulegar. Það myndi eiga við um Kvikyndið hans Páls Á. Ólafssonar, en áður en hann fór ásamt félögum sínum í Minnivallalæk á dögunum varð mönnum m.a. tíðrætt um hver þeirra myndi veiða á ólíklegustu fluguna. Páll hnýtti þá “fluguna” Kvikindið sem hér má sjá. Ekki er mælt með að byrjað sé með henni á viðkvæmum stöðum, enda lítur stærsta gerð af Frances túbu út fyrir að vera hitstúpa í samanburði! En það má grípa til hennar, það sanna atvik.

Til að gera langa sögu stutta, þá voru Páll og félagar í talsverðum snjó og fjölbreyttu veðri….og góðri veiði, líkt og við greindum frá hér, m.a. með skemmtilegu myndagalleríi. En á stað nokkrum í læknum var einhverju sinni búið að reyna margt hefðbundið, þegar Páli datt í hug að prófa Kvikindið. Hann vissi af fiskum í hylnum, m.a. nokkrum vænum. Kvikindið fór undir og í fyrsta kasti kom gríðarlegur boði, er stór urriði sem lá nokkuð utarlega og Páll hafði ekki séð, brá hart við og elti með gusum…en snéri svo frá. Páll andaði djúpt og kastaði aftur á sama stað og í þetta skipti var flugan negld með meira offorsi en Páll á að venjast að eigin sögn og hefur þó marga fjöruna sopið á bökkum vatnanna. Þetta var á að giska 5 punda urriði sem gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefanna. Af þessu má ráða að það má alveg reyna Kvikindið.

Myndirnar segja nú bara talsvert um hnýtinguna, en í grundvallaratriðum er hún hnýtt á tvo stóra straumfluguöngla og er krókurinn klipptur af þeim fremri,(á eftir að gera á myndunum) en þeir tengdir með girni. Báðir búkarnir eru með loðnum silfruðum glimmerbúk, silfur Cenill. Vaskakeðjuaugu, ala Nobbler, eru á fremri önglinum, en hugsanlega mætti smella keilu þar til veiðiskapar í dýpri vatnsföllum en Minnivallalæk. T.d. væri gaman að heyra og sjá hvað sjóbirtingar Tungufljóts og Vatnamóta segðu við þessum gesti.

Báðir krókar eru með svörtu Marabou, matuka-hnýttum og er ekki sparað efnið eins og sjá má. Það mætti ætla að þetta teldist einföld fluga, en Páll er klukkustund að hnýta hana.

METFISKAR SEM STÆKKA…..BÓKSTAFLEGA

Það er alkunna að metfiskar eigi það til að stækka í minningunni og ekki síst frásögninni þegar fram líða stundir. En sagan sem okkur var sögð í veiðihúsi austur í Vestur Skaft í haust tekur flestu fram sem við höfum heyrt í þeim efnum….

Veiðimaður var að kasta flugu sinni í hinn víðfræga Stöðvarhyl í Minnivallalæk. Svakalegur urriði renndi sér á fluguna og eftir harðvítuga glímu var 14 punda drjóla landað. Þetta var sá flottasti og mesti sem veiðimaðurinn hafði veitt. Hvað sem “veiða-sleppa” reglum í Minnivallalæk viðvék, þá skyldi þessi uppá vegg! Það var hringt af árbakkanum með urriðann spriklandi í grasinu í Harald á Akureyri, hinn snjalla uppstoppara sem tók vel í að setja dýrið upp, lagði veiðimanni línur um það hvernig búið skyldi um fiskinn og jafnframt tók hann fram að mjög gagnlegt væri að hann fengi góðar ljósmyndir af fiskinum nýveiddum. Slitu þeir svo símtalinu og leið síðan og beið.

En ekki barst fiskurinn norður fyrir heiðar, uns 4-5 mánuðum seinna, að Haraldi barst tilkynning um pakka. Var hann sóttur og í ljós kom að loks var urriðinn stóri kominn í hús. En ekki leist Haraldi ýkja vel á málið, að fara að vinna með fiski sem væri búinn að fúna í frosti alla þessa mánuði. Þó var bót í máli að með fiskinum var flott albúm með fjölda mynda af fiskinum nýveiddum og spriklandi á bakkanum. Ein flottasta mappa sem hann hafði séð til slíks brúks. En bíðum við, hann fletti síðan umbúðunum utanaf urriðanum og hvað var nú þetta?

Þarna á borðinu lá stokkfreðinn talsvert stærri fiskur en 14 punda. Vigtin í vinnustofunni sagði til um að hér væri 18 punda fiskur kominn. Var nú leitað skýringa á þessari furðu og þessu umtalsverða misræmi.. Var þá sögð vægast sagt kostuleg saga.

Þarna á bakka Stöðvarhyls er einmitt stöðin sem hylurinn heitir eftir, seiðaeldissstöðin í Fellsmúla. Þar var maður við vinnu sína og skipti það engum togum, að veiðimaðurinn tók til fótanna og hljóp með spriklandi urriðann uppí stöð og kom honum þar í huggulegt ker. Þar hafði hann fiskinn síðan í fóðrun, örugglega á hörku sterafæði, næstu mánuðina, uns honum þótti fiskurinn orðinn “hæfilegri” til uppstoppunar en fyrr. Slátraði þá fiskinum og sendi hann norður.

Sum sé. Hér var engu logið. Hér voru engar ýkjur um stærð metfisks, engin ónákvæmni. Hann hafði landað 14 punda urriða sem var 18 pund þegar hann fór í uppstoppun.

GAT EKKI BEÐIÐ…..

Í mokveiðinni í Laxá í Dölum í haust henti það veiðimann sem stóð í stórræðum að setja í hvern fiskinn af öðrum á maðk, að í einu kastinu lenti buffið uppi á steini sem stóð uppúr hylnum. Áður en sökkurnar gátu dregið agnið oní djúpið eða veiðimaður togað það þangað með því að hnykkja í stöngina, kom stór hængsskoltur uppúr og sleikti buffið af grjótinu og kyngdi því. Þetta reyndist vera 12 punda leginn drjóli. Svona sögu höfum við heyrt áður, einmitt úr Laxá í Dölum og þá var það Þórarinn Sigþórsson tannlæknir sem veiddi á þennan hátt 17 punda hæng í stórveiðitúr að hausti….skrýtin tilviljun.

ALDREI OF KALT?

Það er oft haft á orði í stangaveiði, sérstaklega í vor- og haustveiði, að ekki þýði að veiða því vatnið sé svo og svo kalt. Er þetta gjarnan notað í haustveiði til að réttlæta það að sofa aðeins lengur! En hvað munu þeir segja um vatns- og loftkulda kapparnir sem voru snemma í október að veiða í klak á svæðum 1 og 2 í Stóru Laxá?

Þeir stóðu vaktina í norðan roki og fimbulkulda. Lofthitinn rétt ofan frostmarks og vindkælingin færði allt niður undir núllið. Þeir hófu ekki veiðar fyrr en um klukkan ellefu að morgni og voru hættir uppúr klukkan fjögur. Það voru ísskarir með bökkum og pollar voru frosnir. Það fraus í lykkjum og þeim fannst puttarnir vera að detta af. En þeir rótuðu upp 20 löxum og misstu annað ein

ANNAÐ EN TIL STÓÐ

Svo var veiðimaður einn sem komst lítið til veiða allt sumarið og var að verða vitlaus á því að lesa veiðifréttir frá öllum landshornum. Loks um haustið komst hann á kreik, tók þá hálfan dag í Varmá/Þorleifslæk. Arkaði beint að Stöðvarhylnum og kastaði út svörtum Nobbler. Hann var negldur um leið og stórfiskur tók á öllu sínu. Nú var gaman, þetta var biðarinnar virði! Eða hvað? Kortéri seinna var 10 punda regnbogasilungi landað og upplitið á veiðimanni skrýtið og órætt.

MÆÐUR ALLRA VEIÐISAGNA

Skrásetjari þessa rits taldi sig eitt sinn hafa rekist á móðir allra veiðisagna. Hann var þá að blaða í bókinni „Goðsagnir heimsins“ í ritstjórn Dr. Roy Willis og kom út í íslenskri þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur á vegum Iðunnar fyrir fáum árum, og rakst þar á lýsingu á því er Þór veiddi Miðgarðsorm. Það er hrikaleg saga og verður endurtekin hér. En svo barst önnur saga austan frá Noregi í sumar og er sú saga öllu nær okkur í tíma og rúmi og raunveruleika. En tröllsleg er hún eigi að síður og án þess að dómur verði lagður hér á sannleiksgildi sögunnar um Þór og orminn, þá er sagan okkar frá Noregi fullkomlega hundrað prósent sönn.

En fyrst um Þór og Miðgarðsorm. Svona er sagan í Goðsögnum heimsins: „Sagan segir að Þór hafi haldið til sjávar, dulbúinn sem unglingur, og beiðst þess að mega fara á veiðar með jötninum. Hymir tók því fálega og sagði honum að hann yrði að finna sér sína eigin beitu. Þór fór í uxahjörð jötunsins, drap þann stærsta og kom með hausinn af honum til beitu.

Þeir lögðu nú frá landi og Þór réri af miklum körftum þar til þeir voru komnir langt út fyrir þau mið sem jötunninn var vanur að sækja til fiskjar. Þór beitti uxahöfðinu á öngul sinn og kastaði fyrir borð. Í hafdjúpunum beit Miðgarðsormur á agnið og Þór dró ófreskjuna upp þar til ógnandi haus ormsins birtist við borðstokkinn.

Þór færðist í ásmegin er hann dró orminn upp, spyrnti fótunum gegnum bátinn og í sjávarbotninn. Þegar ormurinn spýtti eitri starði Þór í augu hans og sveiflaði hamrinum en jötunninn varð svo hræddur að hann skar á línuna og ormurinn hvarf í hafið.

Að sögn Snorra Sturlusonar í Snorra-Eddu voru sagnamenn til forna ekki sammála um hvort Þór hefði barið orminn en flestir töldu þó að hann hefði sloppið. Þór kastaði svo jötninum í hafið í reiði sinni og óð sjálfur til lands.“

Það var og.

En síðast liðið sumar sá Orri Vigfússon okkur fyrir verulega þjóðsagnakenndri veiðisögu frá hinni miklu Alta í Noregi. Það var stórvinur hans einn ,Bandaríkjamaður, og velgjörðarmaður NASF sem þar var að veiðum og átti síðdegisvakt í einum besta hylnum. Þetta var stór hylur og veiddur úr báti. Í Noregi dugar ekkert minna en að hafa tvo leiðsögumenn innanborðs, bæði er fljótið þungt og svo eru gífurlegar tilfæringar ef veiðimaður æskir þess að sleppa laxi. Þá er um borð í hverjum bát taska ein mikil sem rúmar allt að risalaxa, taskan er í senn vog og mælistika. Fer afar vel um laxinn í töskunni áð meðan menn losa úr honum og meta hann.

Nú réri þessi roskni Kani af stað með leiðsögumönnum sínum tveimur og á leiðinni út á besta tökusvæðið töldu þeir norsku að sjálfsagt væri að veiðimaður hefði fluguna í eftirdragi, það væri aldrei að vita hvar lax gæti leynst í undirdjúpunum. Ekki var flugan fyrr komin í ána er „helvíti mikill lax“, eins og Orri orðaði það, tók hana með miklum þunga. Eftir hæfilega langa og harða orrustu náðist laxinn og var hann veginn 56 pund áður en honum var sleppt.

Nú var sá gamli orðinn lúinn, en umfram allt alsæll og lét í veðri vaka að hann vildi nú helst bara hætta, fara upp í veiðihús, setjast niður með drykk og njóta stundarinnar. Þá kom svipur á þá norsku og létu þeir þess getið að besti tökusatðurinn væri algerlega óhreyfður og fráleitt væri annað en að reyna hann. Lét sá gamli þá tilleiðast og er komið var á kjörstaðinn, renndi sér „helvíti mikill lax“ á fluguna og negldi hana. Eftir harða glímu var honum landað, 52 punda hæng!

Nú var sá gamli mun eindregnari en fyrr að fara upp í hús og slaka á með drykkinn, sem hann sá í hyllingum, talsvert lerkaður eftir tvenn stórslagsmál, en þá fóru þeir norsku í algera fýlu og létu þess getið, að „helvíti mikill lax“ hefði rennt sér á svipuðum stað og sá seinni stóri tók. Það yrði að reyna við hann. Eftir talsverðar fortölur, drattaðist sá gamli aftur af stað og á kjörstaðnum tók sá þriðji. Náðist hann eftir harðan leik og reyndist hann vera 50 punda hængur!

Nú var karlinn búinn að fá nóg og lét þess getið. Drykkurinn gat ekki beðið lengur. Aldrei þessu vant, létu leiðsögumennirnir það gott heita í þetta sinn., þeir voru allir saddir.

AÐEINS OF SEIN(N)

Góðkunningi skrásetjara þessa rits var snemma vors að fá úr sér hrollinn austur á Þingvöllum. Það er eins og mig minni að hann hafi verið með einum eða tveimur vinum sínum í landi Nesja og voru þeir að slíta upp einhverjar bleikjur, en hann kvartaði undan því að þær hefðu verið eitthvað í smærra lagi og mun smærri heldur en hann var að fá fyrir öðrum jörðum á Þingvöllum þetta vor og fram eftir öllu sumri.

En látum það nú vera

Einhverju sinni var gripið í fluguna, lítinn Peacock með kúlu, og er strekkt var á línunni reyndist á að giska 1,5 punda bleikja vera þar föst og hófst þar með afar hefðbundin glíma við fisk af því sauðahúsi. Það var ærslast eitthvað, buslað, en fiskurinn þokaðist hratt og örugglega nær útréttum háfnum. Sem sagt, allt eins og það átti að vera, og eftir nokkur andartök var háfnum lyft upp og spriklandi bleikjan hamaðist í möskvunum. En bíðið nú við, um leið og veiðimaður lyfti háfnum uppúr vatnsskorpunni brá fyrir stóreflis skugga, sem birtist svo snöggt, og var svo stór, að okkar manni varð verulega hverft við og riðaði hann til falls nokkur sekúndubrot. Á meðan hann baðaði út öngunum og náði jafnvæginu aftur, sá hann að skugginn var risableikja sem greinilega hafði elt bleikjuna á flugunni og ekki gat erindið verið annað en að tröllið hafi ætlað að gæða sér á smærri fiskinum. Stórfiskurinn var því aðeins of seinn, en það má kannski líka segja að veiðimaður hafi verið aðeins of snöggur, því óneitanlega hefði verið skemmtileg og enn ógleymanlegri uppákoma ef stórhvelið hefði ráðist á smærri fiskinn þarna fyrir framan nefið á veiðimanninum. Hvernig hefði það endað? Varla nema á einn veg…..

Svona tröllableikjur eru þekktar í Þingvallavatni, fyrir nokkrum árum birtum við hér í Árbókinni mynd af veiðimanni sem var með þrjár stórbleikjur, 8 til 11 punda, sem hann veiddi á einum degi í vatninu. Menn fá þær helst á djúpmiðum á spón, en sums staðar er einnig veiðivon frá landi með maðki, en nauðasjaldgæft er að þessi ferlíki veiðist á flugu. Þetta eru kjötætur, fiskar sem náð hafa slíkri stærð á því að éta smærri bræður og systur, fyrst seiði, síðan murtu og loks bleikju, greinilega allt að 1-2 punda þunga.

ÓVÆNT ENDALOK

Sami veiðimaður og lenti í því að risableikja hugðist gleypa 1,5 punda bleikju sem hann var með á flugunni austur á Þingvöllum lenti í öðru ógleymanlegu ævintýri austur í Tungufljóti í september. Hann og veiðihópur hans voru svo heppnir að það var einhver hreyfing á sjóbirtingi og voru nokkrir mjög fallegir fiskar dregnir á þurrt þó að þeir félagar hefðu verið heldur snemma á ferðinni, á dögum sem þeir tóku eiginlega mest vegna þess að þeir tímdu ekki að fara ekki.

Vegna þess hve mikið var var í Skaftá og þar með Ása Eldvatni, vegna tveggja hlaupa og mikillar úrkomutíðar, var minni veiðivon á svokölluðum Flögubakka heldur en verið hefur síðustu ár. Skarpari vatnskil færðust ofar og var nú að finna undir kjarri vaxinni hlíðinni fyrir ofan stóru víkina uppaf Flögubakka.

Þarna voru fiskar á ferð, en afar erfitt að fara með ströndinni er neðar á veiðistaðnum dró. Bæði var fjaran afar mjó og mjög stífluð af birkihríslum sem sköguðu hreinlega út í ána. Einnig er kjarrbrekkan mjög brött við bakið á veiðimönnum, þannig að fluguköst voru gríðarlega erfið og nánast útilokuð nema fyrir sérfræðinga í veltiköstum.

Hópurinn uppgötvaði þennan stað mjög seint í túrnum og raunar ekki fyrr en síðasta morguninn. Þá var umræddur veiðimaður þarna og klukkan var orðin bara fimm mínútur í eitt. Féæagar hans höfðu dregið nokkra fiska þarna fyrr um morguninn, m.a. 9 og 10 punda fiska.

Veiðimaður var með 20 gramma svartan Tóbí og í einu af síðustu köstunum var tekið og verulega stór sjóbirtingur hreinsaði sig uppúr umleið. Þessi fiskur æddi um allt, fleytti kerlingar og þumbaðist á víxl í meira en tuttugu mínútur, en svo fór hann að lýjast og þeir náðu honum hvað eftir annað uppað. En skilyrði til löndunar voru gríðarlega erfið. Þeir voru þarna tveir saman og veiðifélaginn var með háf og freistuðu þeir þess að koma honum undir fiskinn. Það virtist loks vera að takast, fiskurinn var gersamlega búinn að því er virtist og spónninn augljóslega rótfastur í kjafti fisksins.

En þá gerðist óhappið, beinlínis þegar háfurinn var að renna undir dýrið, spónninn festist í hríslu sem teygði sig út í gráleitt árvatnið!!! Birtingurinn, sem menn voru þarna að áætla 14 til 16 pund, jafnvel þyngri, fann fyrirstöðuna og umturnaðist. Hann hóf að berja hausnum til og frá og það var meira en græjurnar þoldu, línan, 22 punda, slitnaði við hnútinn og fiskurinn seig af stað frá landi. Veiðifélaginn var ekki af baki dottinn og kastaði sér á eftir tröllinu, en það var meira af kappi en forsjá og þegar upp var staðið átti hann alveg nóg með að ná landi sjálfur, hvað þá með stórfiskinn til að íþyngja sig.

Veiðifélagarnir voru allir komnir í hús þegar þessir kappar komu úr ánni og muna varla upplitsódjarfari menn, báðir holdvotir upp fyrir haus, annar af svita og hinn af árvatni.

ÓLÍKLEGUR FENGUR

Snemma sumars var veiðimaður við annan mann í Brúará. Sem kunnugt er þá slæðast þar upp einstaka sinnum laxar, gjarnan hjá mönnum sem hafa góða spónstöng til taks ef þeir verða varir við sporðaköst eða stökk göngufiska. Þessi náungi var græjaður til bleikjuveiða eins og flestir veiðimenn sem stunda Brúará, enda er hún með skemmtilegri silungsám landsins, full að ótrúlega flottri en dyntóttri bleikju sem sagt er að sé bæði staðbundin og sjógengin.

Þessir kappar sáu lax renna sér á einum bleikjustaðnum og reyndu eðlilega að fá ‘ann til að taka. Þyngdu þeir tauma og völdu flugur í stíl, en allt kom fyrir ekki. Leið svo dagurinn, laxinn gleymdist og græjurnar voru enn komnar í bleikjustyrkleika. Undir kvöld voru þeir við sama staðinn og laxinn hafði sýnt sig og var ákveðið að kasta, en sannfæring manna um töku mun hafa verið í lágmarki, því ekki var hirt um að þyngja taum eða setja eitthvað „laxalegt“ á tauminn. Þess í stað var kastað með sex punda taum, þar sem lítil straumfluga var á endanum en peacock með kúluhaus á „droppernum“. En skyndilega var rifið í með miklum tilþrifum og fljótt sýndi sig að það hafði lax gert. Varð nú að vanda sig mikið því laxinn var enginn tittur. Með þolinmæði og hjálp frá laxinum sjálfum sem nýtti sér illa þá góðu aðstöðu sem vatnsmikið fljótið bauð honum, tókst veiðimanni að ná laxinum sem reyndist vera 14 punda hrygna!

ÆTLAÐI EKKI….

Jón Þorsteinn Jónsson, kenndur við Nóatún, veiddi 20,4 punda hæng í Brúargrjótum í Leirvogsá og þegar flett hafði verið upp íölum veiðibókum sem fundust, var því lýst yfir að stærri lax hefði ekki veiðst í ánni. Jón kórónaði frábæran dag með umræddum stórfiski, en alls dró Jón 12 laxa á land þennan júlídag. En það fyndna er, að Jón ætlaði alls ekki að fara í Leirvogsá. Þannig var mál vexti að hann átti annan dag örstuttu fyrr, fór þá í ána, en þá var hún vatnslítil og nánast fisklaus. Óaði Jóni við því að fara aftur og eyða dýrmætum tíma sínum í að berja laxlausa á. Hann gerði ítrekaðar tilraunir til þess að losna við daginn, bauð hann hverjum sem vildi, bað Berg hjá SVFR að auglýsa hann á netinu, en allt kom fyrir ekki. Ekki er ólíklegt að menn hefðu getað þarna fengið þvílíkan útsöluveiðidag, því Jón vildi EKKI fara í Leirvogsá þennan dag.

En sem sagt: Hann sat uppi með þennan veiðidag og lufsaðist upp ftir í hálfgerðri fýlu……og dró síðan 12 laxa, þar af einn 20,4 pund!

Hvaða lærdóm má draga af þessari reynslu Jóns Þorsteins? Aldrei að gefa laxinn upp á bátinn og lengi er von á einum, hvað þá fleirum. Mörg dæmi eru um að menn verða óþreyjufullir og fúlir ef að hollið er ekki í fínum málum, fara heim jafnvel degi eða meira fyrr af því að það er „engin veiði“. Svo eru menn ekki fyrr farnir en það dregur ský fyrir sólu, óvænt rigningardemba breytir öllu eða eitthvað annað. Og það er hörkuveiði.

Vilhjálmur Leví Egilsson heitir 15 ára strákur sem varð að laxveiðimanni í sumar, er hann veiddi sinn fyrsta lax í Grímsá. 5 punda hæng á fluguna Green Butt. Laxinn fékk hann seint í júlí á Stórlaxaflötinni sem var óvenju heit þetta sumarið. Það er raunar alltaf í frásögur færandi þegar ungur veiðimaður veiðir sinn fyrsta lax, en í þessu tilviki var vinkill sem gerir atburðinn enn skemmtilegri í minningunni fyrir umræddan veiðimann og einmitt leiðsögumanninn hans.

Vilhjálmur Leví er sonur Egils kokks í veiðihúsinu og þar á morgni milli útlendingaholla, þegar leiðsögumennog starfsfólk fær gjarnan að bleyta færi, að Stefán Teitsson, 72 ára gamall, og einn reyndasti leiðsögumaður landsins, leiddi Vilhjáln Leví fram á klappirnar við Stórlaxaflöt og sagði honum hvar flugan ætti að lenda. Leiðsögnin gekk eftir, laxinn þreif fluguna, festi sig, og var síðan landað við mikinn fögnuð nokkrum mínútum seinna. Það sem geir þetta venju fremur skemmtilegt er, að þennan sama dag, 59 árum áður, hafði Stefán einmitt veitt sinn fyrsta lax á ferlinum, á flugu, og á þessum sama veiðistað!

MAGNAÐ FISKLEYSI

Einstöku sinni gerist það í veiðisögum að afrakstur veiðanna er enginn og þegar það gerist þá stafar það af því að veiðimaður missti fisk eftir lengri eða skemmri hádramatíska viðureign. Ein „veiðisaga“ frá sumrinu, þar sem enginn fiskur náðist, er þó af öðrum toga. Atburðurinn tengist Elliðaánum sem voru venju fremur slakar og nánst fisklausar á löngum svæðum síðasta sumar. Þar kom m.a. gömul Elliðaárkempa, karl sem hafði veitt meira og minna í ánum 35 ár. Í sumar gerðist það í fyrsta skipti að hann kom fisklaus úr ánum. Einu sinni er allt fyrst segir máltækið, en ef þessi litla „veiðisaga“ segir ekki það sem segja þarf um Elliðaárnar, þá gerir það ekkert.

TÆPT VAR ÞAÐ

Hópur veiðifélaga var búinn að bíða í 3 ár eftir að fá úthlutun í Tungufljóti og loks var stundin runnin upp. En veðurspáin hótaði öllu illu, stormviðvaranir síðustu helgina í september urðu til þess að menn lögðu dálítið kvíðnir af stað. Veðrið varð verra heldur en menn óttuðust, en það sem enginn sá fyrir var að í veðurhamnum og hlýindunum sem samfara voru, sköpuðust fágæt skilyrði í vatnaskilum Tungufljóts og Ása-Eldvatns. Fiskur færði sig úr gruggi Kúðafljóts inn að vesturbakka Tungfljóts. Þar vottaði aðeins fyrir skilum en vegna roksins var tæra vatnið nokkuð skolað. Vegna roksins færði fiskur sig og nær landi en venjulega og….vegna roksins, sem lamdi veiðimenn beint í fangið, þá var fiskurinn að taka.

Tungufljót er afar eftirsótt sjóbirtingsá. Ekki vegna þess að þar veiðist margir fiskar á hverja stöng á dag að meðaltali, þvert á móti er meðaldagveiðin ekki sérlega mikil. En áin er þekkt fyrir stóra fiska og ef menn ná að stunda ána að einhverju marki, sem er raunar erfitt vegna ásetningar, þá eru möguleikarnir góðir á, að eftir einhver ár geti menn litið um öxl og rifjað upp einhverja 10 -plús punda sjóbirtinga.

Einn í hópnum sem hér um ræðir var óvenjuheppinn. Félagarnir í hópnum skiptust á að veiða Ármótin, svokallaða Flögubakka, og er veðrið var hvað verst á heila deginum, setti hann í fjóra fiska á vaktinni sinni á Flögubakka, missti tvo og náði tveimur, 7 og 11 punda. Morguninn eftir var enn snarvitlaust veður, en nokkru lygnara þó. Þá rótaði sami maður 10 á land og missti aðra 5 á aðeins tveimur tímum. Hætti þá þótt hann ætti enn klukkustund eftir á svæðinu. Af þessum tíu sem náðust voru m.a. 16, 14, 10, 10 og 8,5 punda fiskar. Meðalþyngd þessa manns á 12 sjóbirtingum var 9,4 pund!!

En þótt menn geti verið sammála um að þetta hafi verið einstakur afli þá átti einn félaga hans eftir að „toppa“ afrekið. Umræddur veiðimaður hætti einmitt eftir að hafa landað 16 punda fiski sínum. Leit þá á hrúguna og hugsaði með sér, þetta verður ekki betra, nú er ég hættur.

Félagar hans komu niður á Flögubakka nokkru síðar, en stórveiðimaðurinn ók upp í veiðihús, dró af sér skjólfatnað, pakkaði inn afla og tók allt í sundur. Hann var búinn að fá nóg og hugsaði með sér að hann gæti allt eins hætt að veiða alfarið, því hætta væri á að allt sem gerðist í veiðiferðum hans hér eftir yrði borið saman við þessa ótrúlegu uppákomu. Hann var síðan lagður af stað í bæinn er félagar hans hringdu. Þeir höfðu dregið fjóra fiska til viðbótar og var hollið þá komið í 24 birtinga. Þetta voru 3, 7, 11 og………18 punda sjóbirtingar!

Sá stóri veiddist, eins og allir hinir fiskarnir, á spón og voru átökin svo gríðarleg að hjól veiðimannsins gaf sig og náðist hvorki að draga út af því né spóla inn. Það bara læstist gersamlega og þá var úr vöndu að ráða, því risinn lét ekki friðsamlega, rásaði um, fram og aftur, fleytti kerlingar þunglamalega í vatnsskorpunni á meðan veiðimaðurinn æddi ýmist að ánni eða frá. Til allrar lukku er hér veitt af sléttum bökkum.

Loks fór fiskurinn að lýjast, en eins og títt er um sjóbirtinga, þá gerðu menn sér enga grein fyrir hversu stór hann var. Þessir þyngstu eru svo stuttir og sverir. Það getur verið lítill lengdarmunur á tveimur fiskum, en 4-5 punda þyngdarmunur. Nú var haldið stíft við og veiðimaður bakkaði frá ánni, en félagi hans óð með háf út í morið og óvissuna, því hvergi sást til botns vegna gruggs. Loks bægslaðist ferlíkið í vatninu fyrir framan félagann og ljóst að nú var að hrökkva eða stökkva, átakið á línu, stöng og spón var svo gríðarlegt að eitthvað hlaut undan að láta. En, um leið og háfnum var lyft, vó tröllið salt á brúninni og að sögn viðstaddra var eins og sýnt væri hægt í bíómynd er fiskurinn spriklaði og veiðifélaginn reyndi að teygja sig fram og hrista dýrið oní háfinn. Það tókst á endanum, en þó ekki fyrr en sekúndubrotabroti áður höfðu menn horft með hryllingi á spóninn losna úr kjafti birtingsins og festast í háfum.

En heppnin var með, fiskurinn ran ofaní netpokann og barðist þar tröllslega um á meðan veiðifélaginn sem mundaði háfinn stóð gersamlega frosinn í vatni upp undir hendur og áttaði sig í fyrsta sinn á hvers lags fiskur hér var á ferðinni. Hann þurfti ekki annað en að detta á hausinn á leiðinni til lands, í ekkert litlum straumiðum, og þá var enn hægt að klúðra málunum. En ekkert slíkt gerðist, sigur var í höfn, þetta var 18 punda hængur. Hann var reyndar þyngri. Veginn blóðgaður á litla vasavog í brjáluðu veðri var hann slétt 9 kg, en heima um kvöldið, blóðlaus og búinn að vera dauður í einar tíu klukkustundir, vigtaðist hann næstum 9,5 kg á „alvöru“ vigt. En hann var skráður 9 kg í veiðibókina og veiðimaður ákvað að láta það bara standa.

Þegar félaginn í bílnum á heimleið heyrði frásögnina, rifjaðist upp fyrir honum lokaorðin sem hann hugsaði þegar hann hætti veiðum morguninn, nýbúinn að landa 16 punda hæng, þeim tíunda þann morguninn: „Ég hætti bara, þetta verður ekki toppað“. Nú kom sem sagt á daginn að þetta var auðvitað rangt sem hann hugsaði…..hann hefði getað toppað afrekið og bætt þeim 18 punda við ódauðlegan hauginn sinn. En það er ekki eins og hann sitji heima og nagi sig í handarbökin.

SLITIN FLUGULÍNA

Það er ekki óalgengt að flugutaumurinn slitni í átökum við laxa og silunga og eru ástæðurnar ýmsar. Sjaldgæfara er að flugulínan sjálf slitni og dettur mönnum þá strax í hug að um gersamlega ónýta línu hafi verið að ræða. Pétur Pétursson leigutaki Vatnsdalsár horfði upp á slíkt atvik í Vatnsdalnum í sumar og þvertók fyrir að veiðimaður hafi verið með ónýta línu. Viðkomandi setti í eldsprækan boltafisk í Hnausastreng, laxinn æddi fram og aftur og var yfirleitt langt úti. Þegar laxinn lét ekki segjast að koma nær bakka veiðimanns, óð hann talsvert út í á til að stytta línuna, en þá kom gríðarleg roka og flugulínan kubbaðist í sundur!

Þar með var glímunni lokið……eða hvað? Þetta gerðist að morgni, en einhvers staðar grófu leiðsögumennirnir upp kaststöng og spón í veiðihúsinu, fóru með hafurstaskið í Hnausastrenginn og byrjuðu að slæða. Það tókst á endanum, upp kom línuendi og kom þá maður hlaupandi með nýja stöng og hjól og var línan þrædd varlega upp á nýju tækin. Því næst var gert boð eftir veiðimanninum sem var að spóka sig upp í veiðihúsi. Hann snaraðist í vöðlurnar og jakkann, var ekið niður eftir og þar tók hann við stönginni. Enginn hafði þorað að anda og vissi því enginn hvort laxinn væri enn á enda línunnar. Veiðimaðurinn stríkkaði því næst á línunni og viti menn, laxinn var á sínum stað og hóf aftur trylltan dans út og suður.

Að þessu sinni gekk þó betur að eiga við hann og var honum landað nokkru seinna, áætlaður 21 punds nýgenginn hængur. Honum var ekki sleppt samstundis eins og yfirleitt er gert við laxa í Vatnsdalsá. Hann var aðframkominn og fékk því að dvelja í hvíldar- og hressingarkistu sem höfð er í Hnausastreng, næstu tvo daga.

Um kvöldið fékk hann svo kærustuna í heimsókn, 18 punda nýgengin hrygna, sem tók á nákvæmlega sama lófablettinum í Hnausastreng lét lítið hafa fyrir sér, var auðsveip og töldu menn sýnt að hún gæti ekki verið í ánni án síns hængs. Þau eyddu síðan tveimur sólarhringum saman í hvíldar- og hressingarkistunni uns þeim var sleppt.

EKKI SPURNING…...

Margoft hefur það heyrst að stangaveiðimenn hafi snúið sér að golfinu þegar þeim hefur blöskrað hvað mest þróunin í verðlagsmálum veiðileyfa. Einn í þeim hópi var staddur á golfvellinum í Nesjahverfi við Hornafjörð í júlí síðast liðnum. Þar var golfmót hafið og þessi náungi búinn að skrá sig til keppni sem þegar var hafin. En á einum stað liggur gölfvöllurinn fram á bakka Laxár í Nesjum og þegar kylfingurinn átti leið þar um, gat hann ekki á sér setið og skyggndi hyl sem þar er undir bakkanum. Og sjá, þar lágu 15 nýrunnir laxar.

Teningunum var kastað, gsm-síminn var dreginn upp úr vasanum, hringt í sölumann veiðileyfa í Laxá og hann spurður: „Er dagurinn laus?“ Jú, hann var laus. Það var ekki spurning, golf eða veiði, veiði eða golf? Það gat ekki nema eitt gerst, það sá undir yljarnar á „kylfingnum“ og stundu síðar var hann mættur að ánni með allt annars konar búnað. Það fylgdi sögunni að hann hafi fengið a.m.k. einn 13 punda lax þennan örlagaríka dag. Daginn sem uppgjörið mikla var…..

GÆS EÐA BLEIKJA EÐA……

Sem kunnugt er, hafa margir gaman að því er gæsaveiðitíminn er genginn í garð 20.ágúst, að smella saman stangaveiði- og gæsaveiðitúrum. Þetta er heilmikil vinna og væntanlega lítið sofi, en hvað um það, það er hægt að sofa allan veturinn. Við fréttum af einum sem fór í ónefnda á nú í haust og hafði bæði með byssu og stöng. Gallinn við svona túra er sá, að þegar maður er að eltast við gæsina, þá eltist maður ekki við lax eða silung á meðan. Eða hvað? Þessi náungi leysti þann vanda sem kann að koma upp í svona ferðum, þegar maður er aðeins vopnaður haglabyssu, en kemur auga á vænan fisk á sveimi. Okkar maður var á rölti á árbakka eftir að hafa tekið morgunflug. Hann var á leið að bílnum með eina gæs, fremur spældur, en þó gat það verið verra. Hann gat verið aflalaus. En skyndilega sá hann væna og legna sjóbleikju renna sér á grunnu vatni skammt fráhonum. Stangaveiðihluti veiðitúrsins hafði raunar gengið mun verr heldur en skotveiðihlutinn. Enginn fiskur var kominn á land og enginn hafði sést…..þangað til núna. En stöngin var í veiðikofanum. Það skipti ekki máli. Hann var með haglabyssu og hann var í vöðlum. Það dugði. Þetta var 3 punda bleikjuhængur.

Þessi litla veiðisaga skýrir vel þá sjálfsbjargarviðleitni og skefjalausu veiðigleði sem einkennir marga veiðimenn, en hún ber ekki vott um sérlega háttprýði. Ekki veit skrásetjari hvort það stendur einhvers staðar á prenti að ekki megi veiða bleikju með skotvopni. Ef það stendur ekki skrifað þá er það bara vegna þess að engum hefur dottið í hug að nokkrum manni gæti hugkvæmst að veiða silung eða lax á þann hátt. Með heykvísl kannski….en haglabyssu? Einhver gæti spurt hvaða máli þetta skiptir, hvort það gildi ekki einu hvernig fiskur er veiddur og hvaða þvarg þetta sé eiginlega. Já, það er nú það. Ef menn fara bara að skjóta bleikju eða lax eða urriða þá er væntanlega ekki langt í dínamítið….

INGÓLFUR VAR EKKI SVIK

Furðuleg fyrirsögnin hér að ofan. Hver er þessi Ingólfur? Jú, hann er besti veiðihylurinn í Skógá undir Eyjafjöllum, nýja silungsveiðiundrinu. Hylurinn Ingólfur var sá staður sem allir vildu eiga á öllum vöktum, gersamlega kjaftfullur af silungi. Mest smáum fiski að vísu, en góðum fiskum í bland.

Svo kom þarna holl og hafði fengið upplýsingar um Ingólf. Það var dregið og hjón nokkur skyldu verða fyrst í hópnum til að berja Ingólf. Þau fóru á staðin og þegar hópurinn hittist við veiðihúsið um kvöldið ráku allir upp stór augu. Í stað hrúgunar sem reiknað var með að hjónin myndu sturta úr plastpoka á stéttina voru aðeins tveir eða þrír smátittir. Ingólfur var frat, sögðu hjónin. Bara grynningar og nokkrir tittir á sveimi. Það botnaði enginn neitt í neinu, en þessar upplýsingar breyttu vonum og væntingum manna. Ingólfur var nú hunsaður á næstu vöktum og veiðimenn reyndu fyrir sér víðar og höfðu mikla yfirferð. Ekki var veiðin nema í besta falli þokkaleg. Þá var það síðasta morgunin, að önnur hjón í hópnum fóru að tala um það í fúlustu alvöru að það væri með ólíkindum að öll holl á undan þeim hefðu rótað fiski upp úr Ingólfi, en svo væri staðurinn eitthvað bilaður þegar þau kæmu á staðin. Þau ákváðu að eyða síðustu tveimur klukkustundum seinni morgunsins í að skoða Ingólf með eigin augum og reyna að átta sig á því hvað gæti hafa farið úrskeiðis.

Það sem hafði farið úrskeiðis kom brátt í ljós. Ingólfur var um 50 metrum ofar heldur en fyrri hjónin höfðu rennt agni sínu. Þau börðu bara grynningar á meðan fullur hylur af fiski beið þeirra nokkrum skrefum ofar! Rannsóknarhjónin fundu sem sagt hin rétta Ingólf og ekki bara það…..heldur var hann nú vel hvíldur. Næstu tvær klukkustundirnar mokveiddi svo fólkið og við veiðihúsið fengu nú allir að reka upp stór augu, af réttum ástæðum, er sturtað var úr plastpoka á stéttina.

DRAUMURINN

Nú á haustdögum, eftir að síðustu veiðiám var lokað. Sum sé eftir 20.október, dreymdi veiðimaður einn draum sem var svo viðbjóðslegur að allir hljóta að taka undir að vonandi hafi hann ekki spádómseinkenni.

Veiðimaðurinn sá sjálfan sig á fallegum grasbakka og kastaði hann spinner með nettum græjum út á breiðu. Talsverður gróður var við bakkann, en sofandi maðurinn kom því ekki heim og saman hvar hann væri staddur. Skyndilega þaut fiskur undan gróðrinum og hremmdi spóninn. Þetta var eitt af þessum skemmtilegu augnablikum þegar veiðimaður sér fiskinn elta og renna sér á agnið, þegar hann síðan bregður við á réttu augnabliki. Fiskurinn ærslaðist nú um góða stund og var að sjá að þetta væri fallegur og bjartur 3-4 punda urriði, líklega sjóbirtingur af litnum að dæma.

Leið nú að löndun og var eiginkonan skyndilega komin með háf og var sest á bakkann fyrir framan veiðiklóna og beið eftir fengnum. Hún stakk háfnum ofan í, það bar barist um í netinu og hún vippaði fiskinum upp úr og þarna lá hann spriklandi í netmöskvum háfsins. Spónninn lá laus á bakkanum, hafði greinilega svipst úr við átökin. En hvað um það, fiskurinn var kominn á land og þessum veiðitúr þá væntanlega bjargað, enda fiskurinn fagur……eða hvað?

Þegar veiðimaður ætlaði að handsama feng sinn í háfnum, brölti dýrið sjálft úr úr möskvunum og lá stynjandi í grasinu. Og hvílíkur viðbjóður!!! Í stað silfurbjarts 4 punda sjóbirtingsins, lá þarna eitthvert fyrirbæri,innan við pund að þyngd, fölbleikt og brúnt á litinn. Augun hvít, kjafturinn breiður, slappur og tannlaus, ekki ósvipaður og í marhnút. Roðið allt atað í opnum illa lyktandi sárum og maginn gersamlega samandreginn og herptur og roðið flett frá þannig að sá inn í kviðarhol. Þar sem dýrið lá, lagðist þykkt slím í grasið og breiddist út frá „fiskinum“.

Það var hér sem veiðimaður vaknaði og leið illa, en prísaði sig þó sælan að um draum hafði verið að ræða.

En hvað með drauma? Eru þeir bara vitleysa eins og margur heldur fram, eða var þetta dæmi um fisk á íslenskri veiðislóð í framtíðinni, afleiðing af ævintýramennsku í landi þar sem náttúran fær aldrei að njóta vafans þótt ráðamenn hafi sérlega gaman af því að hamra á hvað allt sé hér vistvænt og hreint. Íslenskur sjóbirtingur eða lax eftir innrás erfðabreyttra ættingja þeirra úr sjókvíum með tilheyrandi sjúkdómum og sníkjudýrum, „innrás“ kjarnorkumengunar frá Sellafield sem er á leiðinni, hægt en örugglega? PCB mengun eða einhver önnur helv. óáran?

Þannig mætti halda áfram. Veiðimaðurinn sem dreymdi þennan draum hafði nýlega upplifað einhverjar sínar bestu stundir á bökkum vatnanna og eftir drauminn taldi hann vissast að njóta þess sem í boði er fram í ystu æsar, því það er engin leið að vita hvenær allt verður tekið frá okkur af misvitrum einstaklingum sem sjá ekkert nema aurinn.

Skemmtilegt og óvænt framhald að þessu kom nokkru eftir að þessi draumlýsing var skráð í handritið. Hinn dreymni veiðimaður dreymdi að hann var að arka með feng að fallegum skoppandi læk til að slægja. Bograði hann síðan yfir fiskinn með kuta sinn, slægði og ákvað að flaka fiskinn í leiðinni. Og sjá, hann gekk frá ánni með þau hreinustu og fallegustu sjóbleikjuflök sem hann hafði séð. Engulíkara en hann hefði beinhreinsað þau í læknum í leiðinni! Honum varð litið upp og sá ósasvæðið og fjörðinn framundan, merlað í kvöldsólinni. Hann þekkti staðinn, hér a.m.k. hafði ekkert breyst. Allt var eins og það átti að vera. Í þetta sinn vaknaði hann ekki í svitakófi, heldur svaf áfram svefni hins rólega og réttláta.

Drjúgar keilutúpur

Talsvert var talað um keilukollana svonefndu, túpuflugur með keiluhausum, áður en vertíðin hófst. Höfundur þeirra, Svíinn Mikael Frödin kom meira segja hingað til lands, kynnti þær og sýndi, en fín reynsla var komin á flugurnar í Noregi og Sv´þjóð og jafnvel víðar.

Keilukollarnir áttu að vera svar veiðimanna við slæmum aðstæðum. Með þeim átti að vera hægt að veiða með flotlínu í litlu og viðkvæmu vatni. Koma flugunni vel niður án þess að vera með sökklínur og þunga tauma. Keilukollarnir voru líka nokkuð breytilegir,allt frá örtúpum með þríkróka nr. 16 og 18 og upp í stórar hlussur og þungar eftir því.

Og hvað kom svo út úr keilunum? Jú, þær gáfu fiska. Reyndust drjúgar til veiða, en ekki endilega samkvæmt þeirri forskrift sem hér fylgdi þó að hún virkaði líka. Sá er þetta ritar var t.d. í byrjun júlí í neðsta veiðstað Miðár í Dölum, þar sem sjávarfalla gætir, að athuga hvort bleikja væri ekki farin að gægjast inn. Agnið var rauð Frances örkeila frá doktór Jónas með krók númer 18. Engin var komin bleikjan, en fyrsti lax sumarsins laut hins vegar í gras. Þó nokkur dæmi voru um að keilurnar væru að gefa á sama tíma og hefðbundnari vopn brugðust, á heimasíðu doktórs Jónasar, Frances.is eru nokkrar slíkar sögur skráðar, en sjálfur fengu hann og veiðifélagi hans sex laxa á keilurnar í Neðri Ferjuhyl í Norðurá með þeim hætti að kasta upp fyrir og draga þær síðan hratt niður til laxanna. Hvar laxinn af öðrum negldi ofan í kok, en ótal aðrar flugur og tilbrigði höfðu áður litlu skilað þeim félögum.

Á haustdögum ritaði sá er þetta ritar eftirfarandi veiðilýsingu í veiðiþætti Morgunblaðsins: „Jóhann Hafnfjörð og eiginkona hans Lilja Kúld lentu heldur betur í uppákomu í Eystri Rangá fyrir fáum dögum.Áin var að sjatna eftir mikið vatnsveður og veiðimenn almennt ekki í stórræðum, en þau hjón fengu engu að síður 17 laxa á einum og hálfum degi og notuðu örsmáar túpuflugur með keiluhaus og öngli númer 16. Þetta stingur mjög í stúf við algengustu veiðarfæri sem notuð eru í Eystri Rangá þar sem stórar þyngdar túpur og svartir þungir Tóbíspónar eru alla jafna dagsskipunin.

Jóhann sagðist ekki gera sér grein fyrir því hvort þau hefðu hitt á eitthvert magnað augnablik eða að míkrókeilan hafi skipt sköpum, en allt um það, þá hefðu aðrir veiðimenn ekki verið að gera stóra hluti með hefðbundnari veiðitæki. Það var bara af rælni að hann hefði sett saman einhendu með línu númer fimm og umræddar míkrókeilur. Veiðin skiptist þannig, að 11 laxar veiddust á svæði 7 fyrri morguninn, 1 lax á svæði 6 eftir hádegið og 5 laxar seinni morguninn á svæði þrjú.“

Frásögn Jóhanns er ekki ósvipuð því sem Konráð Jónsson (útgefandi þessarar bókar) og veiðifélagi hans lentu í í Heiðarbrún í Ytri Rangá í miðjum ágúst. Eftir að hafa kastað ótal hefðbundnum flugum á veiðisvæðið í meira en tvo klukkutíma, var sett á Black and Blue míkrókeila og allt varð umsvifalaust snarvitlaust. Settu þeir í 16 laxa á einni klukkustund, lönduðu þar af 11 og voru stundum tveir eða þrír laxar á eftir flugunni í einu, eltandi upp á grynningar og gleypandi oní kok

Náttfari

Morgunsárið og ljósaskiptin eru bestu tímarnir til að vera við ána. Þá tekur fiskur best. Það hefur komið mörgum á óvart hversu fiskur sér fluguvel þegar dimmir. Hafa menn jafnvel settí fiska í svartamyrkri á litlar dökkar flugur. Nýr maður bættist í dimmuveiðiklúbbinn í haust. Sá var að veiðum í Grenlæk fyrir landi Seglbúða og gekk illa. Undir kvöld ók hann þó upp í hraunið til að leita að Hrókshyl sem er drjúgur veiðistaður nokkuð frá aðalsvæði Seglbúða. Hylinn fann hann greiðlega og byrjaði að veiða. Enn var bjart, en byrjað að skyggja. Enginn fiskur bærði á sér og maðurinn varð ekki var. Hann reyndi ýmsar flugur. Þegar fór að dimma sá hann að fiskar fóru að velta sér og honum þótti meira líf færast í hylinn er hann var með smáan svartan Nobbler á taumnum. Loks hrifsaði fiskur í, en festi sig ekki og þar sem engin önnur fluga hafði vakið lífsmark, hélt hann áfram að þræla henni út. Loks fór hann þó að þreytast, því ekkert meira markvert gerðist. Hann ætlaði því að skipta um flugu, en gætti sín ekki á því, að það var orðið svo dimmt að hann gat ekki skipt lengur!

Enn var dálítið eftir af veiðitíma dagsins og varð því að reyna til þrautar með litlu svörtu flugunni sem maðurinn hafði æ minni trú á, enda orðið koldimmt. En þá gerðist það skrítna. Fiskur fór að taka. Hann setti þarna í fjóra fiska, missti að vísu þrjá þeirra, en náði einum 4,5 punda. Tveir þeirra sem sluppu voru auðfinnanlega vel stórir, því maðurinn stóð í báðum tilvikum drjúglengi með allt þanið, en lítil hreyfing var úti í hyl, uns fiskarnir tóku roku niður úr hylnum og niður í flúðir fyrir neðan. Í svartamyrkri og með engan hjálparkokk gat slíkt ekki endað nema á einn veg, fiskarnir rifu sig lausa.

Þessi veiðimaður barði Seglbúðasvæðið í tvo heila daga og þetta var það eina sem hann varð var við fisk.

Símtalið

Góðkunningi Þórðar Péturssonar leiðsögumanns á Húsavík átti að byrja í Laxá í Aðaldal daginn eftir að hann tók upp símann og hringdi í Dodda vin sinn sem hann vissi að vara að leiðbeina einhverjum Reykvíkingi. Góðkunninginn er einnig af höfuðborgarsvæðinu og vissi allt um ördeyðuna sem ríkt hafði í veiðiskapnum nyrðra. Hann velti fyrir sér hvernig dögunum nyrðra yrði varið ef engin væri veiðin og að auki ekkertnema slýflekar á reki niður ána. Símtalið var svona:

„Blessaður Doddi, Árni hérna, hvað segirðu?“

„Sæll Árni, jú ég segi svo sem allt gott, svona yfirleitt meina ég“.

„Ég á að byrja á föstudaginn, er eitthvað að ske þarna?“

„Það er ekkert að gerast, við vorum á Stíflunni í morgun og þar var ekkert og nú er karlinn búinn að vera á Óseyrinni í næstum tvo tíma. Það er ekkert að gerast, heyrðu hann er með hann á, ég verð að tala við þig seinna!“

Sá fyrsti mikilvægastur, en…..

Flestir munu á því að fyrsti fiskurinn sem næst á land í veiðitúr sé sá mikilvægasti. Eru ástæðurnar augljósar. Þessi merkilegi fiskur róar taugarnar, fyllir alla bjartsýni, bjargar túrnum. Það gekk samt treglega að fá 10 ára barnið til að kyngja þessu öllu saman vestur í Skálmardalsá í sumar. Fjölskyldan gekk út til veiða og stúlkan litla setti fljótt og vel í tæplega 2 punda bleikju í ósnum. Allir ljómuðu af ánægju og engin meira en einmitt litla veiðikonan sem fékk að heyra allan fyrirlesturinn um ágæti fyrsta fisksins. Síðan rótfiskaði hópurinn, en sú stutta fékk ekki fleiri, sama hvað hún reyndi og engu skipti þótt hinir fullorðnu eyddu til skiptis tíma með henni og alir væru að slíta upp fisk. Já, svona getur þetta verið á stundum. Það var ekki fyrr en á haustdögum að barnið gat rifjað upp með brosi á vör að hún hefði „reddað“ túrnum fyrir vestan!

Náði honum á frekjunni

Sex ára barnabarn Jóns Marteinssonar leigutaka Hörgsár og Eldvatns, þeirra prýðilegu sjóbirtingsáa, var leitt fram á bakka Hörgsár í apríl síðast liðnum og átti að freista þess að koma drengnum í veiðimannatölu. Maðki var beitt og kastað út í hyl númer 3 sem nýlega var kominn undan ís. Drengurinn kunni að spóla inn og menn gættu þess að hálfgerður píanóvír væri á hjólinu. Og sjá, heppnin var með, stór fiskur tók og togaði og togaði fast. Þetta var meira en pjakkurinn réði við og barðist stangartoppurinn við sandinn á meðan surgaði reiðilega í hjólinu. Einhver úr sveit hinna fullorðnu hugðist hrifsa stöngina af drengnum og bjarga málunum, en nei, þá var heldur betur rekið upp stríðsöskur. „Þetta er minn fiskur,“ æpti drengurinn hástöfum, en af því hann réði ekkert við fiskinn þá fór hann að gráta. Og því meira sem hann grét, því harðari varð hann og gráturinn varð að reiðistunum umleið og hann hjakkaði á hjólinu og merkilegt nokk, fiskurinn fór smám saman að gefa eftir og eftir 10-15 mínútna glímu kom 14 punda sjóbirtingur skröltandi upp í sandinn. Drengurinn var ekki tiltakanlega þreyttur, enda hafði enginn kraftur farið í að halda við stöngina. Húnhafði einfaldlega legið í sandinum að mestum hluta, en veiðimannsefnð einbeitti sér að hjólsveifinni og glímdi við hana þar til yfir lauk. Þetta er ótrúleg saga, 6 ára drengur veiðir 14 punda sjóbirting hjálparlaust. En, oftast er hægt að finna sanna veiðisögu sem slær fjarstæðukenndustu lygasögunni við.

Hrikalegur afli

Það má svo deila um hvort hægt sé að tala um lítið atvik þegar Magnús Þór Sigmundsson fór í Veiðivötn og fékk fjóra urriða sem vógu 9, 10, 10,5 og 12 pund. Einn 4 punda var eins og síli við hliðina á boltunum fjórum. Magnús veiddi urriðana alla á flugu í Hraunsvötnum og voru þetta stærstu fiskar sumarins í Veiðivötnum. Hann notaði hraðsökkvandi línu og nokkuð stóra þríkrækjuútfærslu af laxaflugunni þekktu, Snældu. Taumurinn var 22 punda, enda Hraunsvötn þekkt fyrir stórfiska og Magnús hafði sannarlega velt fyrir sér hvernig bregðast skyldi við ef bolti kæmi á fluguna. Menn hafa lent í því að þessir stóru fantar taki strikið út á vatn og linni ekki látunum fyrr en öll línan er komin út og þá hafa menn lent í ýmsu, ýmist misst alla línuna, taumurinn hefur slitnað eða að öngullinn hefur rést upp. Fáheyrt er að fiskurinn guggni á þessum tímapunkti. „Ég hafði hugsað þetta, og ætlað mér að sprengja þessa fiska ef ég lenti í þeim. Það ætlaði ég að gera með því að gefa þeim laust fyrstu hundrað metrana og taka svo á þeim hægt og bítandi. Ég kom þarna svo að stað þar sem ég var öruggur að fiskur væri undir og var fyrst með hægsökkvandi línu. Það elti nokkrum sinnum vænn fiskur og hnusaði af flugunni en hvarf svo frá. Ég skipti þá yfir í hraðsökkvandi og þá gekk betur. Það var mjög hvasst þegar þetta var, en samt sá ég vel í vatnið þegar fiskarnir voru að elta. Ég sá stærri fiska elta heldur en þá sem ég veiddi,“ sagði Magnús Þór í samtali við umsjónarmann bókar þessarar.

Þess má geta, að veiðifélagi Magnúsar, Steinar Berg, veiddi nokkra fiska á sömu slóðum, en hann náði ekki stærri fiski en 8 punda.

„Veiddi“ 16 punda urriða

Feðgar voru á ferð í sumarbústað við Úlfljótsvatn síðast liðið sumar og veiddu þeir m.a. 16 punda urriða sem þeir eru þó varla til frásagnar um. Þannig var mál vexti, að þvílíkt löðrandi slagveður buldi á þeim við veiðiskapinn að þeir gáfust upp, beittu vel með maðki, þeyttu út, festu stangirnar við bakkann og hröktust svo upp í hús þar sem þeir sátu að spilum á meðan urriðinn miklu beit á agnið hjá yngri manninum, sleit sér út í villtum dansi og var svo nær dauða en lífi er feðgarnir afréðu loks að fara út og vitja um stangirnar. Fundu þeir fyrir einhverri hreyfingu á annarri stönginni. Fiskurinn var slappur og gafst fljótt upp, en menn misstu andlitið er þeir sáu hvílíkur hvalur kom skoppandi upp í fjöru!

Urriðinn mikli var ristur upp og kom þá í ljós að hann hafði verið í mikilli átveislu, en þrjár hálfmeltar bleikjur voru dregnar úr belg drekans. Feðgarnir voru að vonum ánægðir með óvæntan og glæsilegan aflann, en viðurkenndu þó að skemmtilegra hefði verið að taka þátt í leiknum frá byrjun til enda, svo einstakur var fiskurinn.

Einn síðbúinn

Menn bera gjarnan saman flugu og maðk og velta því fyrir sér hvort sé skæðara agnið. Flestir hallast að því að almennt séð sé flugan sterkari nema að borin sé saman við notkun snillinga í sjónrennsli á maðki. Maðurinn getur þó haft vinninginn og skal eitt lítið dæmi hér nefnt. Veiðimaður einn byrjar alltaf vertíð sína í byrjun júlí í Álftá. Hann hefur tuttugu maðka með sér ef það skyldi vera lax á Kerfossbrún. Þar verður ekki annað notað en maðkur. Þetta er eini staðurinn í landinu þar sem þessi veiðimaður egnir með maðki og eins skiptið á ári hverju vegna þess að þetta er eina ferðin í Álftá. Í sumar sem leið var lítið vatn í ánni, mikill lofthiti og sól og lítið gengið af laxi. Veiðimaðurinn notaði að vanda fluguna alls staðar og voru mörg afbrigðin dregin fram. Ekki gekk rófan og hin stöngin var ekki beint að slá í gegn, náði þó smálaxi á fyrstu vaktinni, en síðan ekki söguna meir. Í Kerfossi sjálfum lágu 4-5 laxar við enda hvítfyssins og voru þeim sýndar margar flugur og frá ýmsum sjónarhornum. En það var ekki einu sinni risið til að skoða. Þetta var tveggja daga túr og tíðar heimsóknir á fossbrúnina staðfestu að engin hreyfing var á fiski, það var aldrei lax þar daganna tvo, ekki einu sinni í morgunsárið eftir næturhvíldina.

Þegar klukkan var orðin fimm mínútur í eitt seinni morguninn var vonin í algeru lágmarki. Veiðimaðurinn var staddur við Kerfoss og var enn búinn að halda út langa lotu við sýningu á ýmsum flugum. En það var sami dauðinn. „Ok, ég set maðk í þetta þessar fimm mínútur,“ hugsaði maðurinn, stökk niður af klettinum og græjaði maðkastöngina. Og eftir allt sem á undan var gengið, var lax á innan við tveimur mínútum eftir að maðkinum var rennt. Síðan var 6 punda kokgleyptum og grálúsugum laxi landað og túrnum var bjargað.

Brokkgengir aðstoðarmenn

Jæja, maður einn var að veiða í Laxá í Aðaldal og eftir nokkrar magrar vaktir var loks kominn vænsti lax á hjá honum og fór mikinn. Slýsöfnun á línu var umtalsverð, en veiðimanni til happs var ekki aðeins einn aðstoðarmaður á svæðinu heldur tveir. Þetta var 14-16 punda fiskur, hrygna og örlítið dökk á hörund. Félagarnir óðu þvers og kruss og reyttu slýið af,en þetta var brösulegt, því laxinn lét ófriðlega, strikaði mikið og stökk meira að segja af og til og þá gjarnan með hlemm af slýi í eftirdragi. Þetta tók á taugarnar, en smátt og smátt dró af laxinum og loks rann mikið slýflykki fram á hausinn á laxinum þannig að hann sá ekkert frá sér. Við það róaðist hann mjög og lét draga sig inn í svo sem mittisdjúpt vik við háan bakkann. Betri löndunarkostur var ekki í nágrenninu, en þá uppgötvaðist að háfurinn var uppi í bíl og þangað var allnokkur spölur. Ekki málið, gall í veiðifélögunum og þeir létu sig báðir gossa ofan í vikið.

Annar þeirra hafði ekki einu sinni fyrir því að drepa í vindlinum. Sá sem ekki reykti náði fljótt taki á laxinum, en missti. Laxinn rauk þó ekki út, enda var vatnið orðið moldarbrúnt af uppspörkuðu botngruggi., auk þess sem laxinn var enn með slýkolluna fyrir augunum. En nú var úr vöndu að ráða, því laxinn sást ekki lengur fyrir drullu. Þá greip sá með vindilinn til þess ráðs að grípa í línuna með það fyrir augum að rekja höndina niður með henni og finna þannig laxinn. Hann gleymdi hins vegar einu veigamiklu atriði: Hann var með logandi sígarinn skorðaðan á milli vísifingurs og löngutangar. Glóðin brenndi í sundur taumurinn brann í sundur! Varð nú uppi fótur og fit í vikinu er félagarnir rótuðu og grömsuðu í gruggugu vatninu og var engu líkara en að þeir væru að reyna að drekkja hvor öðrum, en það eina sem hafðist á land af því sem veiðimaður hafði glímt við var slýkollan af höfði laxins. Vart þarf að bæta við, að laxinn sáu þeir félagar aldrei síðar.

Heimildir Vötn og Veiði

Myndasafn

Í grennd

Stangveiði
Það er alveg heillaráð að eyða að minnsta kosti hluta sumarleyfisins til ferðalaga innanlands. Meðal þess, sem er spennandi og til heilsubótar, er að …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )