Útskálakirkja er í Útskálaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún er úr timbri og var reist árið 1861-63 frumkvæði sóknarprestsins, síra Sigurðar B. Sívertsens (1808-1887). Hönnuður var Einar Jónsson frá Brúarhrauni. Árið 1895 var hún lengd til austurs og forkirkja reist. Hönnuður þessara breytinga var Jóhannes Böðvarsson frá Útskálum.
Kirkjan er byggð úr timbri og járnvarin. 1975 var forkirkja stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Gränz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Prédikunarstóll kirkjunnar var keyptur úr Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1886. Altaristaflan sýnir boðun Maríu, stór mynd, gefin kirkjunni árið 1878.