Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Úlfljótsvatn

Á árunum 1929-1933 keypti Rafmagnsveita Reykjavíkur (nú Orkuveita Reykjavíkur) jörðina Úlfljótsvatn   og vatnsréttindi að vestanverðu í Efra Sogi, Ljósafossi og Írafossi. Jörðin er talin vera um 1397 ha. Af þeim fimm jörðum sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur í Grafningi liggur Úlfljótsvatn lægst.

Jörðin tengist virku gosbelti og er hið basíska ísúra móberg ásamt bólstrabergi og setlögum frá síðari hluta ísaldar einkennandi berggerð fyrir svæðið. Á undirlendi jarðarinnar er gróðurhulan nær samfelld sem skipta má í þrjú gróðursvæði: votlendi, mólendi og kjarrlendi en þegar ofar dregur rofnar jarðvegshulan og stór gróðurlaus svæði taka við. Hlíðarnar eru eru markaðar djúpum vatns- og vindrofum og um bakka þeirra leika vatn og vindar sem sameiginlega rífa burt jarðveginn.

Úlfljótsvatn er um 7-8 km langt og um 1 km á breidd. Það er í 81 m hæð yfir sjó, dýpi víðast undir 10 m en talið dýpst um 60 m í norðurhluta vatnsins. Mikill straumur er í vatninu, þar sem Sogið fellur um það á 19 km leið sinni frá Þingvallavatni til Hvítár. Silungsveiði er í vatninu og mikið fuglalíf á og kringum vatnið.

Vatnið er kennt við Úlfljót sem sagður er fyrsti lögsögumaður Íslendinga. Við hann voru Úlfljótslög kennd en þau voru fyrstu almennu lögin sem giltu hér á landi. Bærinn Úlfljótsvatn er vestan við vatnið og þar spölkorn frá norðan við bæinn stendur Úlfljótsvatnskirkja á fögrum og sérkennilegum stað, dálitlum hól, sem gengur út í vatnið.

Ýmsar sagnir tengjast Úlfljótsvatni og næsta nágrenni. Þá hafa einnig fundist merkar fornminjar þar í nágrenninu.

Árið 1940 fékk Bandalag íslenskra skáta hluta af jörðinni til afnota og hefur hreyfingin reist þar fjölda húsa, þar sem meðal annars eru reknar sumarbúðir, haldinn ýmiskonar námskeið og mannamót. Skátar hafa undanfarin ár verið iðnir við að rækta jörðina og gróðursett tugþúsundir trjáplantna.

Orlofshús: Á árinu 1956 fékk Starfsmannafélag Rafmagnsveitu Reykjavíkur (nú Starfsmannafélag Orkuveitu Reykjavíkur) 16 hektara land í Dráttahlíð til að reisa sumarhús á og rækta land. Þegar hafa verið reistir 4 bústaðir við Straumnes.

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar fékk afnot af landi undir orlofsheimili fyrir félagsmenn sína 1969. Landið liggur á milli Fossár og Grafningsvegar syðri og hafa þegar verið reistir 16 bústaðir auk Úlfljótsskála, sem er þjónustumiðstöð fyrri svæðið.

Á árinu 1994 var Bernskunni, Íslandsdeild OMEP, úthlutað landi undir svokallaðan Bernskuskóg. Landið er um 15 hektara að stærð og er austan vegar gengt sumarhúsabyggð Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Þar fyrir sunnan eru Skólaskógar, ræktunarreitir fyrir grunnskóla Reykjavíkur á vegum Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur.

Myndasafn

Í grennd

Orkuveita Reykjavíkur Ferðast og fræðast
Orkuveita Reykjavíkur OR varð til við samruna Hitaveitunnar og Rafmagnsveitunnar og hóf starfsemi hinn   1. janúar 1999. Vatnsveitan sameinaðist Orkuv…
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…
Veiði Suðurland
Stangveiði á Suðurlandi. Hér er listi yfir flestar laxveiðiár og silungsár og veiðivötn. Laxveiði Suðurlandi Brúará – Hagós Brúará – …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )