Trölladyngja er móbergsfjall í Reykjanesfjallgarði, norður af Núpshlíðar- eða Vesturhálsi. Milli Núpshlíðarháls og Trölladyngju er Grænadyngja og skilja Sog þar á milli en það eru grafningar miklir. Á Trölladyngju eru tveir móbergshnjúkar (393 og 375 m.y.s.). Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum.