Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Þjóðmenningarhúsið

Þjóðmenningarhúsið

ÞJÓÐMENNINGARHÚSIÐ

Þjóðmenningarhúsið var byggt fyrir Landsbókasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands á árunum 1906 til 1908 og opnað almenningi í marz og apríl 1909.  Sökum húsnæðisvandræða var tveimur öðrum söfnum, Þjóðminjasafni Íslands og Náttúrugripasafninu, einnig fenginn staður í húsinu tímabundið frá upphafi. Í húsinu voru því um árabil undir einu þaki allir helstu dýrgripir íslenzku þjóðarinnar. Vegna starfseminnar fékk húsið fljótlega nafnið Safnahúsið, þótt það héti það aldrei formlega. Fyrr á árum gekk það líka undir nöfnum eins og Menntabúrið, Þjóðmenntahúsið og Bókhlaðan og oft hefur það verið nefnt Landsbókasafnshúsið. Byggingarstíllinn er í anda danskrar þjóðernisrómantíkur.

Helsti frumkvöðull að byggingu Safnahússins var Hannes Hafstein, ráðherra Íslands. Í byggingarnefnd, sem Alþingi kaus, sátu Jón Jacobson landsbókavörður, Guðmundur Björnsson landlæknir og Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri. Hannes Hafstein valdi danskan arkitekt, Johannes Magdahl Nielsen, til að teikna húsið. Hann leysti verkið af mikilli kostgæfni eins og húsið ber vott um. Sjálfur kom hann aldrei til Íslands en umsjónarmaður byggingarinnar fyrir hans hönd var starfsbróðir hans Frederick Kiörboe. Hann teiknaði eikarhúsgögnin, sem enn eru í húsinu. Kringlan við Alþingishúsið er einnig verk hans.

Landsbókasafnið og Þjóðskjalasafnið fengu upphaflega um það bil þriðjung hússins hvort til afnota. Að auki fékk Landsbókasafnið lestrarsalinn í miðrými hússins. Þjóðminjasafnið fékk rishæðina og var þar frá 1908 og fram til ársloka 1950 er flutt var í núverandi hús á Suðurgötu. Var bókum og skjölum þá komið fyrir á hæðinni.

Náttúrugripasafnið var á 1. hæð hússins. Þegar safnið flutti út haustið 1960 var húsnæðið fengið handritadeild Landsbókasafns og Handritastofnun Íslands (fyrirrennara Stofnunar Árna Magnússonar) til notkunar. Landsbókasafnið flutti í Þjóðarbókhlöðuna í árslok 1994 en geymdi bækur á Hverfisgötunni fram til ársloka 1998. Um sama leyti flutti Þjóðskjalasafnið endanlega í framtíðarhúsnæði sitt að Laugavegi 162.

Þjóðmenningarhúsið hefur löngum verið talið eitt af fegurstu húsum á Íslandi. Fer ekki milli mála að mikil alúð hefur verið lögð í hönnun þess, innan dyra sem utan. Hið sama má segja um smíði hússins. Verkið önnuðust íslenzkir iðnaðarmenn að mestu og ber það þeim lofsverðan vitnisburð.

Húsið reisti Trésmíðafélagið Völundur undir forystu Guðmundar Jakobssonar. Fyrir steinsmíðinni stóð Guðjón Gamalíelsson, fyrir trésmíðinni Helgi Tordersen og járnsmíðinni Páll Magnússon. Innanstokksmuni flesta smíðaði Jón Halldórsson, en tréskurð annaðist Stefán Eiríksson. Hornsteinn hússins var lagður 23. september 1906, á ártíðardegi Snorra Sturlusonar. Á hann er letrað „Mennt er máttur“.

Myndasafn

Í grennd

Alþingishúsið
Árið 1867 var samþykkt að minnast teinaldarlangrar búsetu í landinu 1874 með því að reisa Alþingishús í   Reykjavík úr íslenzkum steini. Austurhluti l…
Sögustaðir Höfuðborgarsvæðinu
Ýmsir staðir tengdir sögu svæðisins Akurey Alþingishúsið Bessastaðakirkja Bessastaðir – Álftanes …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )