Þingmúlakirkja er í Vallanesprestakalli í Múlaprófastsdæmi. Hún var byggð 1886. Yfirsmiður var Niels í Sauðhaga á Völlum. Otto Wathne á Seyðisfirði seldi efnið til byggingarinnar gegn veði í kirkjunni. Hún var upphaflega klædd með járni að utan. Árið 1980 var gert vel við hana og hún færð til upprunalegs horfs, járnlaus. Þórarinn B. Þorláksson málaði altaristöfluna 1916. Ljósahjálmur með miklu glerskrauti er úr gömlu kirkjunni og númerataflan er frá 1802, úr kirkjunni á Hallormsstað.
Þingmúli var þingstaður Austfirðingafjórðungs og Múlasýslunafnið er þaðan komið. Þingmúlaeldstöðin er talin meðal mestu megineldstöðva Austfjarða. Ríólítfjöll allt frá botni Reyðarfjarðar til Skriðdals og Fljótsdalshéraðs einkenna hana sem og aðrar. Áberandi slík fjöll eru Áreyjatindur, Sandfell (1157m), Skúmhöttur (1229m) og Kistufell (1239m). Þykk gjóskulög einkenna þessar fornu eldstöðvar og víða ber á flikrubergi (ignímbríti), berggöngum og ummynduðum jarðhitasvæðum. Víða eru berggangar allt að 70% blágrýtisins á Austfjörðum.