Teigstungur eru uppi við jökul í Krossárdalnum milli Krossár að norðan og Gungnakvíslar að sunnan. Að þeim liggja líka Krossárjökull og Tungnakvíslarjökull, sem hafa hopað verulega á 20. öldinni. Talsvert fjölbreyttur gróður eltir hopandi jöklana. Upptakakvíslar Krossár koma undan þeim báðum. Hin syðri er verulega vatnsmeiri, stundum illvæð og var því brúuð fyrir göngufólk. Framarlega í Teigtungurananum er strýtumynduð gnípa, sem kallast Göltur og fremst í rananum er geysistór steinbogi. Ryðrautt stuðlabergslag báðum megin Krossárjökulsins sýnir stuðlana í ýmsum stellingum, þannig að þeir líta út eins og risavaxið, nýútsprungið steinblóm. Sunnan syðri kvíslar Krossár er brattur og tindóttur hryggur, sem heitir Eggjar.
Guðrúnartungur eru syðsti fjallsraninn í Teigstungum. Norðurhlið þeirra er græn og gróin upp á efstu brúnir. Litfari og Moldi eru stórir höfðar ofarlega í Guðrúnartungum. Hinn fyrrnefndi er óvenjufagur með þvernhíptan hamar prýddan ýmsum litum eftir birtuskilyrðum.
Teigstungur eru nefndar eftir Teigi í Fljótshlíð, sem átti þar afrétt og útigöngu fyrir allt að 20 fjár á veturna. Eitt sinn fóru vinnumenn með fráfærulömb inn eftir og tóku með sér 12 ára, munaðarlausa stelpu, sem villtist frá þeim og kom ekki fram fyrr en í göngum um haustið. Hún hafði lifað á grasi og berjum um sumarið og eftir henni eru Guðrúnartungurnar nefndar.