Skúli Magnússon, landfógeti, var lengstum sýslumaður í Skagafirði og bjó að Stóru-Ökrum. Eftir standa bæ Skúla (byggður 1743-45) tvö samhliða hús, bæjardyr og stofa og á milli þeirra eru göng, sem liggja í krók aftan við húsin. Stofan var notuð sem þinghús á sínum tíma, og voru þar haldnir helstu fundir í hreppnum. Nýlunda var að stofan sneri stafni fram á bæjarhlað. Gengið var beint frá hlaði inn í þingstofuna en slík tilhögun varð síðar algeng á Norðurlandi á síðari hluta 18. aldar. Á henni eru nú ekki lengur útidyr. Timburgrind húsanna er sérstök, eins konar millistig af stafverki og grindarsmíð, sem ruddi sér rúms á 18. öld. Þilgerð er forn. Í húsunum er að finna athyglisverða viði úr eldri húsum á staðnum sem bera margs konar ummerki fyrri notkunar, sumir þeirra prýddir strikum til skrauts. Er þar nokkrar gerðir strika að finna, en strikun á viðum er ávallt vísbending um að þeir hafi verið í betri húsum.
Þjóðminjasafn Íslands tók húsin í sína vörslu árið 1954. Gagngerar viðgerðir fóru fram ári síðar, og hefur eftir það verið dyttað að bænum eftir föngum.
Akratorfa er bæjaþyrping í Blönduhlíð neðan Akrafjalls (1147m), Miðhús, Minni-Akrar, Höskuldsstaðir og Stóru-Akrar. Þarna bjó Eggert Jónsson (-1656), lögréttumaður. Hann var sonarsonur Magnúsar Jónssonar prúða í Ögri. Jón klausturhaldari að Möðruvöllum var sonur Eggerts.
Félagsheimilið Héðinsminni er að Stóru-Ökrum, kennt við Skarphéðinn Símonarson (1877-1914), bónda að Litladal. Hann drukknaði í Héraðsvötnum. Faðir hans gaf allar eigur hans til byggingar fundarhúss fyrir Akrahrepp. Það var opnað 1921 en stækkað og endurbætt 1961, þegar það fékk núverandi mynd. Þar var barnaskóli, landsímastöð og bréfhirðing frá 1954.
Hjálmar Jónsson, Bólu-Hjálmar, bjó að Minni-Ökrum ík 27 ár. Þaðan hraktist hann að Grundargerði í sömu sveit.
Ferjustaður á Héraðsvötnum var undan Ökrum fyrrum. Þar var síðast dragferja árið 1930.