Stórólfshvolskirkja er í Breiðabólsstaðarprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi. Hún var byggð úr timbri 1930. Yfirsmiður var Guðmundur Þórðarson frá Lambalæk í Fljótshlíð. Kirkjan tekur 120 manns í sæti.
Árið 1955 var hún endurnýjuð verulega, byggt við hana skrúðhús og sönglofti bætt í hana. Gréta og Jón Björnsson skreyttu hana að innan við það tækifæri. Altaristaflan er eftir Þórarin B. Þorláksson (Jesú og börnin). Á turninum er ljósaross. Katólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar Maríu guðsmóður og Ólafi helga, Noregskonungi.
Stórólfshvolsprestakall var lagt niður 1859 og lagt til Keldnaþinga. Síðan voru bæði færð til Odda árið 1880. Fyrrum voru þrjár kirkjur í Hvolhreppi, á Stórólfshvoli, Efra-Hvoli og Móeiðarhvoli.