Kirkjan er í Tálknafjarðarprestakalli í Barðastrandarprófastsdæmi. Stóri-Laugardalur er bær og á norðurströnd Tálknafjarðar. Reiðvegur liggur frá Stóra-Laugardal til Ketildala við Arnarfjörð niður í Fífustaðadal. Það er annexíuvegur Selárdalspresta að Stóra-Laugardal en kirkjan var annexía frá Selárdal til 1907. Annar vegur lá upp frá Krossdal, yzta bæ við norðanverðan Tálknafjörð, um Selárdalsheiði.
Katólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar Maríu guðsmóður og heilögum Nikulási. Kirkjan, sem stendur á staðnum, var byggð sumarið 1906 og vígð 3. febrúar 1907. Efnið í kirkjuna var flutt frá Noregi og Guðmundur Jónsson, bóndi í Laugardal kostaði smíðina.
Jón Jónsson, timburmeistari, var yfirsmiður. Kirkjan tekur 120 manns í sæti og prédikunarstóllinn, sem er forn og stór, er merkasti gripur hennar. Hann er sagður hafa staðið í dómkirkjunni í Óðinsvéum í Danmörku og danskur kaupmaður hafi gefið kirkjunni hann. Kaleikurinn er gylltur og mjög gamall og á annarri kirkjuklukkunni er áletrunin: „Torolfer Ulafsen, anno 1701.“