Stapavík er lítil vík, skammt frá ósum Selfljóts, utan Unaóss í Hjaltastaðaþinghá. Víkin er umgirt hamraveggjum og hún tengist verzlunarsögu Borgarfjarðar eystri og Héraðs. Á Krosshöfða, skammt frá Stapavík, var árið 1902 löggilt verzlunarhöfn og þar verzluðu bændur frá Borgarfirði eystri og Héraði fram eftir öldinni. Þegar lendingin við Krosshöfðann varð ófær vegna sandburðar á þriðja áratug aldarinnar var uppskipunin flutt til Stapavíkur og þar reist handknúið spil. Aðstaðan í Stapavík varð aldrei góð og uppskipun á Krosshöfða og í Stapavík var endanlega hætt 1945. Lendingin í Stapavík hefur versnað á síðustu árum vegna sandburðar.