Stakksfjörður er breiður og djúpur fjörður, sem gengur til suðurs úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi á Vatnsleysuströnd en af Stakksnípu í Hólmsbergi á Rosmhvalanesi að vestan. Vitinn á Stakksnípu var reistur 1958. Stakksfjörður dregur nafn af stökum klettadrangi, Stakki sem er undan Hólmsbergi.
Helguvík skerst inn í Hólmsbergið. Þar er hafskipahöfn. Uppbygging iðnaðar er þegar orðin talsverð í tengslum við Helguvík og þar eru tankar fyrir flugvélaeldsneyti, sem var áður flutt um Kerflavíkurveg með ærinni slysahættu.
Keflavík er sunnar og síðan Vatnsnesvík, smábátahöfn Keflvíkinga, og syðst er Njarðvík, sem nær að Vogastapa. Fyrrum var fisksælt í Stakksfirði og í byrjun árs 2009 komu síldargöngur í höfnina í Keflavík.