Stagley er syðst Vestureyja, talsvert sunnan miðs fjarðar. Bjarneyjar eru 4-5 km norðar, Grassker svipaða vegalengd til suðurs og Elliðaey 8-10 km austar. Hún virðist óaðlaðandi af sjó, flöt og brimasöm, en hún er stærri en sýnist og á sína byggðarsögu.
Í Sturlungu segir frá því, að Sturla Sighvatsson í Sauðafelli hafi þar naut í haga. Líklega er hún kominn í byggð í kringum 1570, þegar Reykhólakirkja átti hana. Um miðja 20. öldina keypti Flateyjarhreppur hana af eigendum Reykhóla. Árið 1681 eru taldir og nafngreindir tveir bændur í eyjunni og í manntalinu frá 1703 er þar húsamaður að auki og alls 14 íbúar. Fram að næstu aldamótum á eftir eru þar ýmist einn eða tveir bændur og 1801 bjuggu þar tvenn hjón (Brandur Þorleifsson og Ólafur Höskuldsson) og börn þeirra, alls 13 manns. Þetta fólk flutti brott skömmu síðar og síðan hefur ekki verið búið í eyjunni.
Eyjan liggur ein og sér, þannig að íbúar hennar nutu engra hlunninda á öðrum eyjum og hólmum og byggðu afkomu sína að mestu á sjávarfangi og eitthvað á fugli og dúntekju. Merki um búsetuna eru glögg á vestanverðri eyjunni, þar sem bæjarhúsin stóðu og túngarður var reistur um hana þvera til að aðskilja beitiland frá túni. Eyjan bar ekki stóran bústofn, enda er ekki getið um aðrar skepnur í Jarðabókinni 1701 en þrjár kýr og eitt ungneyti. Lendingar voru erfiðar, brim olli oft landlegu og oft olli ládeyða einangrun. Vatn var af skornum skammti og íbúar hreppsins voru á móti búsetu í eyjunni, því þá grunaði, að bændur þar dræpu hundruð æðarfugla sér til lífsviðurværis. Gróðri hefur farið mikið fram eftir að eyjan fór í eyði og fugli hefur fjölgað en talið er, að æðarfuglinn sé horfinn þaðan. Á Stagley gekk sauðfé úti um árabil eftir að Flateyjarhreppur eignaðist hana og varð mjög vænt.